Hundruð miljóna til að byggja upp TRAUST á tortryggilegum og við eigum að borga

Í gær settist ég niður og las yfir lögin sem þingið var að setja og heita "lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Þessi rannsókn er fyrirsláttur og kemur ekki til með að skila þjóðinni neinu nema hvítþvætti og afneitun á alvarlegum afglöpum og misferli valdhafanna. Þannig á að byggja upp traust samkvæmt greinagerð með lögunum en þar segir "Samfélagslegur ávinningur rannsóknarinnar felst í því að byggja upp traust og benda á hvernig koma megi í veg fyrir að hliðstæð áföll hendi aftur. Þessi ávinningur vegur mun þyngra en sá kostnaður sem gera má ráð fyrir að hljótist af starfi nefndarinnar."Sem sagt nú á þjóðin að greiða hundruð milljóna fyrir að fram verði tekin skýrsla sem á að miða að því að íslenska þjóðin treysti afglöpum fyrir framtíð sinni. Væri þessum fjármunum ekki betur varið í fríar skólamáltíðir fyrir börn?

Lögin munu í framtíðinni verða skammarblettur á Alþingi þessa lands rétt eins og það lagaumhverfi sem fjármálamarkaður og stjórnsýsla hefur búið við.

Ég ætla að rekja nokkra annmarka á rannsókninni:

Í fyrsta lagi af hverju á eingöngu að rannsaka aðdraganda og orsakir hruns bankanna? þarf ekki líka að rannsaka hví almenningur stendur svo höllum fæti við hrunið? Þarf ekki að varpa ljósi á fjármálatengsl og hagsmunatengsl af ýmsum toga sem sífellt er sópað undir teppið?

Enginn sérfræðingur í félagsmótun stjórnar rannsókninni heldur tveir lögfræðingar og hagfræðingur. Val í nefndina þýðir að þar er tilfinnanlegur skortur á þekkingu sem nýtist við að varpa ljósi á spillingu, siðleysi og vanhæfni. Setja á hæstaréttardómara yfir nefndina en það er alkunna að hæstaréttardómarar eru handpikkaðir af Birni Bjarnasyni. Góður og gegn sjálfstæðismaður segir á aðgöngumiða að embættum hæstaréttardóma. Í lögunum segir að nefndarmenn eigi að vera sjálfstæðir og óháðir en það eru hæstaréttardómarar ekki. Lögin brjóta því sjálf sig. Lögin veita nefndinni undanþágu frá því að auglýsa störf. Þetta þýðir að nefndin geti handpikkað fólk henni handgenginni í vinnuhópa. Nefndin speglar vel sk nýfrjálshyggju sjónarmið. Löggfræðingar og hagfræðingar eiga að fara með völdin en félagsleg velferðar og siðferðissjónarmið eiga að vera aukaatrið og undirgengin öðrum öflum. Ömurleg byrjun á uppbyggingunni.

Lögunum er ætlað að rannsaka aðdraganda og orsök falls bankanna og er sérlaga talað um að rannsókninni ljúki við setningu neyðarlaganna. Hvað með neyðarlögin? Á að rannsaka þátt þeirra í þeirri hyldýpislægð sem þjóðin er lent í? Hvað með afglöp ráðamanna eftir setningu neyðarlaganna? Á að skauta fram hjá þessum afglöpum? Hvað með innherjaviðskipti og önnur misferli ráðherra og ráðuneytisstjóra? Verða þau sett undir smásjánna?

Nær rannsóknin yfir brask valdhafa með hlutabréf og annað og háar skuldsetningar í tengslum við þess háttar viðskipti?

Mikil spilling hefur ráðið atferli valdhafanna. Lýðræðið hefur verið fótum troðið og valdhafar hunsað mannréttindi, jafnrétti og eðlilega stjórnsýsluhætti við stjórnsýsluákvarðanir og löggjöf. Á ekki að rannsaka þátt þessara annmarka í þjóðargjaldþrotinu.

Alþingi hefur forræði yfir rannsókninni en það er alkunn staðreynd að meiri hluti þingsins er hallur undir spillingaröflin.

Hvað er spilling?

Spilling þýðir að óeðlilegar forsendur liggja til grundvallar ákvörðunum og viðskiptum. Þingmaður eða ráðherra sem skuldar háar fjárhæðir í bönkunum er spilltur þegar kemur á ákvörðunum sem varða umrædda banka, fjármálamarkaði eða peningamálastefnu. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn ættu ávallt að byggja ákvarðanir og lagasetningu á almannahagsmunum en ekki hagsmunum banka, flokka, sína eigin eða ættingja og vina. Ekki veit ég hvort ég hafi ímyndunarafl til þess að láta mér detta í hug allar þær leiðir sem valdhafar hafa fundið til þess að bregðast þjóðinni en ég skal nefna nokkrar hér:

  1. Flokkar hafa í leynd þegið fjármagn af athafnamönnum sem síðar hafa fengið viðskipti eða valdastöður hjá ríkinu
  2. Valdhafar hafa raðað pólitískum vildarmönnum, börnum sínum, mökum, ættingjum og vinum í embætti án tillits til hæfni þessara til þess að gegna þeim.
  3. Einkafyrirtæki hafa sett syni og dætur valdamanna í vel launaðar stjórnunarstöður og með því skapað óeðlileg tengsl og þakkarsambönd á milli stjórnvalds og fjármálaafla. Um þetta eru tugi dæma þannig að þetta hefur orðið að reglu.
  4. Valdhafar hunsa vanhæfi og fá feður til þess að rannsaka syni sína sem er líka afleiðing af ofangreindri reglu. Sem sagt sjúkt samfélag.
  5. Ráðherrar setja lögin í landinu. Alþingi er ómarktækt vegna þýlyndis þingmanna við forystuna eða þátttöku í spillingunni.
  6. Valdhafar þiggja jólagjafir frá bönkunum. Þetta sýnir vel ótrúlegt meðvitundarleysi ráðamanna um hvað sé eðlilegt og siðlegt.
  7. Unnið er að því leynt og ljóst að afskrifa skuldir útvaldra meðan foreldrar og börn eru borin út af heimilum sínum. Löggjöf sem ver réttindi þessara fjölskyldna er vanmáttug.
  8. Ráðherrar sem eru algjörlega vanhæfir í störfum sínum eyða hundruð milljóna af fjármunum skattborgara til þess að borga sérfræðingum til þess að hugsa fyrir sig.
  9. Fjármunum almennings, talið í milljörðum, hefur á undanförnum árum verið sólundað í að halda upp vanhæfum einstaklingum (t.d. í sendiráðum) sem ekki skila samfélaginu neinu.
  10. Ráðamenn halda verndarhendi yfir glæframönnum sem hafa komið undan þúsundum milljarða.

Við þetta má örugglega bæta við hundrað atriðum í viðbót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Nú er kominn tími til að draga djúpt andann og skoða stöðuna. Mér finnst því miður að þessi skrif þín einkennist af einhverskonar sjúklegu vantrausti og firringu. Það eru ekki glæpamenn í hverju horni og ekki svikamillur út um allt samfélagið. Við eigum í vanda og hann verður ekki leystur með svona þankagangi. Auðvitað þarf samt að skoða hvað varð til þess að svona fór og slík rannsókn kostar peninga. Hún getur ekki farið fram án fjármagns.

Sögurnar sem fljúga um samfélagið núna eru svo miklar og ýktar að það er bara ekki nokkur leið að henda reiður á þær. Við megum ekki gefa okkur á vald sjúklegu ofsóknaræði sem gripið hefur um sig.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.12.2008 kl. 17:04

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

´Já Hólmfríður það væri kannski vit að loka alla sem eru á móti spillingunni inni á geðveikrahælum og reyna að lækna í þeim ofsóknabrjálæðið.

Það hefur verið gert með góðum árangri í Rússlandi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.12.2008 kl. 17:16

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Djúpt andan og skoða stöðuna? Er ekki sífellt meira að koma upp á yfirborðið? Sögurnar ýktar? Nei sannleikurinn er svo absúrd að við skiljum hann ekki.  Það er ekki orði ofaukið hér og ég ætla að setja tengil inn á þessa grein.

Ævar Rafn Kjartansson, 17.12.2008 kl. 17:52

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er ekki að tala um að loka neinn inni, heldur að fólk taki sér aðeins pásu sjálft sín vegna. Spillingin sem talað er um núna er svo uppskrúfuð í umræðum fólks að mér er fyrir löngu farið að blöskra.

En ef fólk velur að velta sér upp úr forinni sem það mokar út hvert í kapp við annað, þá bara er það þannig. Ég er farin að slaka á og ætla að njóta þess.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.12.2008 kl. 19:00

5 Smámynd: Ingibjörg SoS

Takk, Jakobína fyrir að vinna skítverkin fyrir einstaklinga eins og Hólmfríði.

Hvers vegna er sumu fólki þvílík ofraun að viðurkenna vanmátt sinn, - þreytu, eða að það ráði hreinlega ekki við meira upplýsingaflæði af ósómanum "án þess" að kasta skít í þá sem leggja sig alla fram við að upplýsa um spillinguna eins og þú ert að gera, Jakobína

Og gott hjá þér, Ævar Rafn!

Nú er ég farin að skynja mjög sterkt, að það er ekki langt í að fari að opnast fyrir margar flóðgáttir. Það er einfaldlega lögmál lífsins. Flóðgáttir munu opnast og allt fram streyma, - fallegt og ljótt. 

Hjartans kveðjur til þín, Jakobína,

Ingibjörg SoS, 17.12.2008 kl. 20:37

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Mér finnst Jakobína gjörsamlega taka þetta gjörspillta kerfi í sundur í þessu innleggi. Vegna öryggishagsmuna almennings þarf trúlega að taka amk. nokkur hundruð manns í yfirstjórn lands og fjármálastofnana þegar í stað úr umferð og í allsherjarrannsókn. Jafnframt þarf almenna eignakönnun í samstarfi við Interpol. Hægt er að nýta víðtæk íþróttamannvirki landsins og stórkostlega turna sem eru að daga uppi hér og þar hálfkaraðir sem gæsluvarðhaldshúsnæði í þessu sambandi og jafnframt veita iðnaðar- og verkamönnum kærkomna vinnu við að koma húsnæði þessu í fullnægjandi stand til að taka við meintum brotamönnum.

Baldur Fjölnisson, 17.12.2008 kl. 20:51

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ósköp er fólk viðkvæmt fyrir öllu hjali um spillingu í stjórnsýslunni. Sumir eru svo hjartahreinir að þeir telja það vott um einhverskonar vænisýki að draga í efa að síðbúnar skipanir í rannsóknarnefndir hafi annan tilgang en þann sem yfirlýstur er. Nú er það svo að næstum vikulega eru okkur birtar í Kastljósi, Silfrinu og á síðum dagblaða hálfunnar rannsóknir áhugamanna þar sem fram koma svo skýrar vísbendingar um undanskot milljarðatuga og hin ýmsu tengsl milli svonefndra skilanefnda við þá grunuðu. Og síðan gerist ekkert: Ekkert! Hverjum dettur í hug að treysta yfirmanni Fjármálaeftirlitsins eftir svör hans við spurningum fréttamanns Kastljóss? Erum við skyldug til að nota skattfé okkar í rannsóknir sem hafa þann eina tilgang að hvítþvo hóp af fjármálamönnum sem mikill hluti þjóðarinnar vill sjá hverfa á bak við fangelsisdyr?

Orðið "bankaleynd", virðist hafa fengið afar þýðingarmikið hlutverk í réttarkerfinu. Alveg fram til síðustu mínútna fyrir lokun og hrun bankanna voru starfsmenn þeirra hringjandi með andköfum í hina og þessa sparifjáreigendur að hvetja þá til að flytja sparifé sitt ínn á tilgreinda verðbréfareikninga til að tryggja betri ávöxtun! Hvaða bankaleynd gildir um eigendur sparifjár og hvað olli þessum óskaplega áhuga bankastarfsmannanna rétt fyrir hrun bankanna?

Það liggur alveg rökstuddur grunur í samfélaginu um gagnkvæm tengsl milli hinna ýmsu pólitíkusa, fjármálageirans, dómstóla og samkeppniseftirlits. Og þetta er bara opinbert umræðuefni daglega. Hvers vegna skyldi þesi tortryggni hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar mestir fjármunir eru í húfi? 

Árni Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 22:04

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir Jajobína.

Stundum er sannleikurinn það sár að það er bara auðveldara að láta sem ekkert hafi gerst, nema þá smáóhapp sem stjórnvöld munu greiða úr, fljótt og vel.  Bæði Geir og Friðjón ætla að vera komnir í sama gírinn í árslok 2010.  Maður bara spyr sig fyrst vandinn er svona lítill í þeirra augum, afhverju var allt þetta vesen með IFM.  Það er óþarfi að nota lánið, ICEsave greiðir sig sjálft og kauphöllin búin að braggast í árslok 2010.  Einna helst að kostnaðurinn við rannsóknir og málssóknir gætu sligað ríkissjóð.  Og kaldhæðnin í þessu öllu er að fullt af fólki trúir þessarri þælu.  Og meðan þjóðin sem heild áttar sig ekki á því kviksyndi sem þessir heiðursmenn hafa komið þjóð sinni í, þá sitja þeir sem fastast með stuðningi "bjartsýnisfólksins". 

En dropinn holar steininn og þið konurnar eruð duglegar við þá holun.  Þegar ég er svartsýnn á ástandið, þá les ég bloggið þitt og Jennýjar og tengla mig svo inná konurnar sem melda inn athugasemdir.  Þvílíkur kraftur sem Ingibjörg Sólrún hefði getað nýtt til vitrænnar endurreisnar.  Mikil synd að hún og Jóhanna skuli ekki eyða síðkvöldum sínum í að testa sálina og fá þaðann kraft og stuðning.  En svona er þetta.

Baldur!  Það er nóg að líta út eins og bavíani þó þú hæðist ekki líka sem slíkur.  Shame on you hefði hún amma mín sagt ef hún væri á lífi blessunin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.12.2008 kl. 22:41

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Flottur pistill Jakobína, þú setur þig svo sannarlega inn í málin.

Ég er ekki viss um að Baldur sé með hæðni Ómar því þarna er hann að tala um kjarna álsins.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2008 kl. 23:00

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott grein hjá þér Jakobína sem ég vona að sem flestir lesi!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.12.2008 kl. 23:33

11 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Reyndar ekki bavíani Ómar heldur mannapi en afneitun og meðvirkni bjarga engu.

Bestu kveðjur til þín og ömmu þinnar sálugu.

Baldur Fjölnisson, 17.12.2008 kl. 23:51

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Baldur.

Biðst forláts.  Þurfti að stækka myndina til að sjá hið rétta.  Sammála þér með afneitunina og meðvirknina.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.12.2008 kl. 00:12

13 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Sæl Jakobína, thetta eru alveg frábærir pistlar hjá thér. Hver ødrum betri. Takk fyrir. Og thad tharf ad horfast í augu vid hvad er ad gerast, jafnvel thó thad sé erfitt, og thrátt fyrir ad léttara væri kannski ad láta vera...

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 18.12.2008 kl. 01:13

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir öll. Það er mikilvægt að við horfumst í augu við það sem blasir við. Mín tilfinning er að ríkisstjórnin sé ekki að gera það. Umrætt frumvarp sýnir litla einlægni af hálfu yfirvalda og hræðslu þeirra við sannleiksleit af óháðum aðilum eða rannsóknarsamfélaginu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.12.2008 kl. 01:16

15 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Frábær grein.

Vilhjálmur Árnason, 18.12.2008 kl. 05:28

16 identicon

Góður pistill hjá þér Jakobína.  Ég veit ekki hvað er rétt og satt í orðrómi götunnar en meðan fjölmiðlar eru í eigu auðvaldsins eða undir stjórn ríkisvaldsins sem er stjórnað af auðvaldinu er auðveldara að trúa almannaróminum en fjölmiðlum.

Offari (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 08:28

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála þér Jakobína. Það sem ég hef kynnt mér af þessu frumvarpi þá leiðir innhald þess einmitt til þeirrar niðurstöðu sem þú bendir á að það sýni „litla einlægni af hálfu yfirvalda og hræðslu þeirra við sannleiksleit af óháðum aðilum eða rannsóknarsamfélaginu“.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.12.2008 kl. 11:10

18 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Rannsókninni er ekki gefinn sá tilgangur að rannsaka sakamál heldur meira upplýsingagjöf og gjörninga. Þetta er ekki viðfangsefni fyrir lögfræðinga heldur félags- og mannvísindafræðinga og jafnvel heimsspekinga. Þegar lögin eru lesin í þaula má sjá að þau eru í stöðugri mótsögn við sjálf sig. Ég held að yfirvöld þori ekki að fá inn í nefndina fólk með þá færni sem ég bendi á hérna.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.12.2008 kl. 13:21

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þessi greinargerð sýnir ótvírætt að þessi rannsóknarnefnd er ekkert annað en skrípaleikur.

Rannsókninni er ætlað að byggja upp traust, væntanlega á fjármálamarkaðnum, svipað og að lögreglan myndi standa fíkniefnasala að verki og rannsókn málsins væri ætlað að byggja upp traust á fíkniefnamarkaðnum!

Theódór Norðkvist, 18.12.2008 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband