Fallin í svarthol nýfrjálshyggjunnar

Reykjanesbær er birtingamynd stjórnkænsku forystu Sjálfstæðisflokksins. Leit er að meira atvinnuleysi, viðlíka skuldum eða óábyrgri hegðun í bankarekstri. Í Reykjanesbæ héldu stjórnmálakvöðlar að hylja mætti óreiðu og fjármálabrask með bókhaldskúnstum. Almenningur á Suðurnesjum hefur orðið fyrir þyngri höggum af hálfu nýfrjálshyggjunnar en flest byggðarlög á Íslandi.

Frá fornu fari hafa Suðurnesjamenn sótt sjóinn fast en það gera þeir ekki enn. Skáldin hafa ort um menningu Suðurnesja og mannlífið sem er íbúum kært. Í nýfrjálshyggjutilraunum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var frumbyggjarétturinn tekinn af íbúum svæðisins. Réttur manna til þess að sækja lífsbjörgina á sjávarmiðin hefur verið settur inn í ramma einokunar og falin auðræðinu.

Suðurnesjamenn eru harðir af sér og dugnaðarfólk sem hefur af miklum krafti fjármagnað uppbyggingu hitaveitu Suðurnesja en það var gert til þess að efla lífsgæði almennings og bæta híbýli heimamanna. Valdhafarnir seldu erlendum gullgrafara þetta stolt Suðurnesjamanna fyrir kúlulán og hrunkrónur. 

Með samvinnu og dugnaði byggðu Suðurnesjamenn upp stofnanir í byggðarlögum sem þjónuðu almenningi og smurðu hjól atvinnulífsins. Sparisjóður, sjúkrahús, hitaveita og útgerð. Eftir bankahrunið kom í ljós að búið var að grafa undan stoðum allra þessara stofnana. Breitt var yfir ástandið með bókhaldsbrellum og menn sátu í stjórnum og mökuðu krókinn fyrir sjálfa sig og sína nánustu. En veruleikinn blasir við; það hriktir í gangvirki atvinnulífsins og velferð hrakar.

Grundvöllur ófriðarins

Það var ákvörðun Sjálfstæðisflokksins að tryggja innstæður allra í kjölfar hrunsins. Innistæður einstaklinga sem áttu minna sparifé en þrjár til fjórar milljónir voru tryggðar óháð neyðarlögum. Neyðarlögin voru loforð til forystu Sjálfstæðisflokksins til auðmanna um að almennir skattgreiðendur myndu borga og  bæta þeim tap þeirra. Ungar, skuldugar barnafjölskyldur fengu engin loforð frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Á kostnað skattgreiðenda voru innstæður uppá mörg hundruð milljarða sem að yfir nítíu prósentum eru í eigu 5% þjóðarinnar tryggðar að fullu. Þetta hefur ekki eingöngu í för með sér óheyrilegan kostnað fyrir þjóðina heldur er þetta einnig forsenda Icesavedeilunnar. Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna Ben við stýrið þjarmar nú að Steingrími J Sigfússyni fyrir að fylgja eftir stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn setti samhliða því og hann setti þjóðarbúið á hliðina og tæmdi gjaldeyrisvaraforða landsmanna.

Steingrímur J Sigfússon á litlar þakkir skildar fyrir það hvernig hann hefur notað þau völd sem þjóðin færði honum í kosningum 2009. Steingrímur hefur ekki haft burði eða framtíðarsýn til þess að fylgja eftir vilja þjóðarinnar og skipa sér í fylkingu þeirra sem vilja gagngerar breytingar á spilltum stjórnmálum. Sem hafna því að fórna velferð barna sinna til þess að fjármagna tap auðmanna. Hann hefur hrakið hugsjónafólk, fólk sem hefur hugrekki til þess að standa með fólkinu í landinu úr flokknum. Fyrir þetta kann ég honum litlar þakkir.

Auðræðisvaldið

Bjarni Benediktson hefur aldrei svikið mig. Hann er forystumaður flokks sem fer ekki leynt með að hann er handbendi auðræðisins. Þess vegna hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og mun aldrei gera það. Í valdatíð Sjálfstæðisflokks var grafið undan skoðanafrelsi, náttúruauðlindir voru færðar á hendur fárra, atvinnurekendum voru tryggð völd í lífeyrissjóðum, virki flokkræðis voru styrkt, mútusamfélagið blómstraði og ævintýrinu lauk með því að svarthol myndaðist sem sýgur til sín velferð og lífsgæði landsmanna.

Bitlingavaldið

Steingrímur J Sigfússon er í forystu fyrir flokk sem hefur gefið loforð um að standa með almenningi, með mannréttindum og með náttúrinni. Þess vegna hefur Steingrímur J Sigfússon svikið mig. Hann ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur hafa svikið landsmenn með því að fylgja áfram stefnu Sjálfstæðisflokksins. Með því að tryggja fámennum hóp forréttindi og einokun á sjávarauðlindinni til tuttugu ára og líta fram hjá vanda þeirra sem hafa þurft að kaupa sig inn í greinina. Með því að láta skattgreiðendur kosta tap auðmanna við bankahrunið. Með því að setja ekki lög sem koma í veg fyrir að auðmenn séu að leika sér með sparifé launamanna í lífeyrissjóðum. Með því að brjóta ekki niður virki flokkræðis. Með því að tryggja ekki landsmönnum skoðanafrelsi. Fjölskyldurnar í landinu mata svartholið sem Sjálfstæðismenn opnuðu og núverandi ríkisstjórn stendur vörð um.

Samstaða þjóðar

Þess vegna ætla ég að kjósa SAMSTÖÐU, flokks lýðræðis og velferðar í næstu Alþingiskosningum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, Stjórnsýslufræðingur

Höfundur er félagi í SAMSTÖÐU, flokki lýðræðis og velferðar


mbl.is Fundað um SpKef í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband