Við verðum að vernda börnin okkar

Ég byrjaði fyrst að blogga þegar kreppan skall á í haust. Hausti hefur verið sviptasamt með nýjum hneykslismálum á degi hverjum. Í skrifum mínum á bloggið hef ég fundið hugsunum mínum farveg og lært margt af öðrum bloggurum. Baráttuandinn á blogginu gefur mér von að vekja megi þjóðina af værðardofanum sem hvílt hefur yfir henni undanfarin ár. Værðardofa sem nærður var á því að þjóðin var fullvissuð um það af valdhöfum að á Íslandi ríkti mikil velmegun, hamingja og að á Íslandi væri ekki spilling.

Mér hefur lengi verið ljós spillingin á æðstu valdastöðum samfélagsins en hafði þó ekki gert mér grein fyrir því hversu hættuleg hún var og er þjóðinni. Ekki bara okkur sem greiðum atkvæði okkar í kosningum heldur einnig börnunum okkar sem hafa ekkert um það að segja hverjir sitja á valdastóli.

Ríkisstjórnin hefur kallað þúsund milljarða skuld yfir þjóðina. Forsætisráðherra hefur fullyrt að ekki standi til að gefa eftir þessa skuld. Fáir gera sér grein fyrir því hvað þessi skuldasúpa þýðir fyrir börnin okkar, það umhverfi sem þau alast upp í og þau tækifæri sem þeim býðst í lífinu.

Það er undir þjóðinni komið hvernig hún vinnur úr þessari stöðu. Skuldasúpan er ekki það eina sem valdhafar hafa kallað yfir þjóðina. Góður bloggvinur spurði hvort Árni Matthiesen hefði átt einhverra annarra kosta völ en að skipa son Davíðs Oddsonar þegar Árni var settur dómsmálaráðherra í einn dag. Það má því spyrja hvaða kosti aðrir hafa aðra en að hlýða valdinu. Skapað hefur verið andrúmsloft þýlyndis meðal valdhafanna, þýlyndi við æðstavaldið, foringjadýrkun.

Heilindi hafa ekki verið liðin. Beinskeytt umræða og gagnrýni drepin niður. Einungis þeir sem sýna hlýðni við valdið geta átt von á framgangi ef þeir villast inn í þetta umhverfi. Almenningur hefur  þurft að greiða reikninginn vegna þessarar spillingar.

Til þess að skapa betra umhverfi fyrir börnin okkar þarf að breyta hugarfari. Þjóðin hefur verið eins og meðvirkt barn alkóhólista. Hún hefur varið valdhafanna sem hafa vanrækt hana og svikið. Þegar einstaklingur sem hefur gert sig beran að spillingu og græðgi er gjarnan sagt já en þetta er svo góður drengur. Málið snýst ekki um vonda eða góða drengi/stúlkur. Það snýst um það hvernig fólk hagar sér í þeim stöðum sem því hefur verið trúað fyrir.

Þegar einstaklingur hefur brugðist í stöðu sinni á hann að segja af sér en ef hann gerir það ekki á að koma honum úr stöðunni áður en hann gerir meiri skaða.

Valdhafar hafa margsýnt að þeir valda ekki störfum sínum. Þeir eru búnir að menga alla stjórnsýsluna með vanhæfni sinni. Nú er komið nóg. Bjóðum ekki börnunum okkar upp á þetta. Það umhverfi sem valdhafar haf búið þjóðinni drepur niður sjálfstæða hugsun og við viljum það ekki fyrir börnin okkar. Við viljum ekki þurfa að segja við þau að þau séu fædd í ánauð og megi ekki fylgja eigin samvisku.

Það er léttir af því að sjá blekkingahulunni svipt af raunverulegu ástandi á Íslandi. Það gefur von um að hægt verði að bægja frá þeim öflum sem hafa viljað afvegaleiða þjóðin og gera börnin okkar að þrælum auðmagnsins. ´

Nýtt Ísland vill lýðræði og mannréttindi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góða pistla.  Gleðilegt ár til þín og þinna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.12.2008 kl. 07:51

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þitt góða framlag í bloggheimum Jakobína og ég hlakka til frekari samskipta á komandi baráttuári

Sigrún Jónsdóttir, 31.12.2008 kl. 09:03

3 identicon

Jebb, við viljum ekki gamla ísland fyrir afkomendur okkar. gleðilegt ár

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 09:24

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Gleðileg byltingarár Bíbí mín, tek undir það sem þú skrifar. Vonandi ber nýja árið í skauti sér breytingar til batnaðar.

Rut Sumarliðadóttir, 31.12.2008 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband