Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
2008-12-30
2009, ár samstöðu almennings?
Á morgun lýkur árinu 2008, Ári forheimskunnar, spillingargræðginnar og vanmáttarins. Við vorum óþyrmilega minnt á það á árinu að á Íslandi ríkir ekki lýðræði. Það hefur svo sem verið vitað að ekki ríkti lýðræði á Íslandi en flestir sættu sig við það í þeirri trú að hér ríktu velviljuð stjórnvöld sem tækju hlutverki sínu alvarlega.
Það hefur verið almenn trú manna að velferð almennings skipti ríkisstjórnina einhverju máli. Á haustmánuðum var annar sannleikur afhjúpaður. Ríkisstjórnin hefur árum saman verið meðvituð um þann voða sem þensla bankanna og gengdarlausar lántökur stefndu þjóðinni í. Vísvitandi tóku stjórnvöld þá ákvörðun að spila rússneska rúllettu með velferð þjóðarinnar. Þeir gerðust samsekir auðmönnunum um landráð.
Ásetningurinn var til staðar. Þetta fólk hafði sérfræðiþekkingu sem það gat byggt á við ákvarðanatöku. Þetta fólk þekkti fjármála- og lagaumhverfi í Evrópu. Þegar valdhafar eru inntir skýringa á málinu fara þeir undan í flæmingi. Skammast þeir sín? Nei það gera þeir ekki. Þeir vilja bara ekki axla ábyrgð. Þeir vita af sekt sinni. Þeir vita að öll þjóðin er aðili að málinu og það er bara tímaspursmál hvenær einhver kærir athæfið.
Verða þeir dæmdir? Það fer eftir því hvort að vinir þeirra stjórna rannsóknum. Það fer eftir því hvort að vinir þeirra sitji í dómarasætum. Valdhafarnir munu ekki iðrast því þeir eru siðblindir.
Er valdhöfunum vorkunn vegna þess að Bretar notfærðu sér græðgi þeirra og settu upp Icesavegildruna? Nei þeim er ekki vorkunn því siðblinda valdhafanna er ekki aumkunarverð.
Valdhafarnir hafa ekki séð að sér. Þeir leita nú ljósum logum að aðferðum til þess að láta fólkið í landinu greiða skuldir þeirra. Fyrir þeim er fólkið í landinu heimskt vinnuþý. Með ómannúðlegum kerfum skulda- og skattheimtu ætla þeir að ná heimilum og vinnutækjum af almenningi. Draga úr heilbrigðisþjónustu og sverfa að menntakerfinu.
Blekkingarleikur valdhafanna er óskammfeilinn. Valdhafarnir tala um uppbyggingu. Hvernig er hægt að byggja upp með þúsund milljarða erlendar skuldir á baki þjóðarinnar? Valdhafarnir halda þó fast í líferni sitt sem þeir kosta með því að skattpína þjóðina. Þeir vilja þægindi. Meira að segja mótmæli eiga að vera þægileg.
Eina von þessarar þjóðar er að hreinsa rækilega til í stjórnsýslunni og koma á lýðræði í landinu. Ég kalla á almenning. Við þurfum að koma að fólki við stjórnvölinn sem er tilbúið að deila kjörum með fólkinu í landinu. Fólki sem þekkir daglegt amstur og hefur skilning á því að alþingi á að vera samkoma fulltrúa almennings. Hver einasti fulltrúi á að vera skipaður af þjóðinni en ekki flokksklíku. Ráðuneyti, stofnanir, dómsvaldið og atvinnuvegirnir eiga að þjóna fólkinu en ekki kúga það.
Því þjóðin þarf að byggjast upp af einstaklingum sem nenna að hugsa og eru þátttakendur í mótun samfélagsgerðarinnar og smíði nýrra hugmynda. Samfélagið er okkar vettvangur. Við viljum samfélag sem virðir mannréttindi, jafnrétti og jafnræði. Ríkisstjórnin er búin að rústa fjárhag okkar en stöndum vörð um menningu okkar og frelsi.
Ríkið erum við og ríkið á að vera fyrir okkur.
Látum árið 2009 vera ár samstöðu almennings!Viðskipti og fjármál | Breytt 24.6.2012 kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)