2009-11-03
Furðulegt hvað menn taka sér fyrir hendur
Hvernig í ósköpunum dettur þingmönnum í hug að samþykkja þetta plagg sem mun að öllum líkindum leiða til atvinnuleysis og landsflótta?
Hvaða hagsmunir eru svo ríkir að þeir eru tilbúnir að fórna framtíð barna okkar fyrir þá?
Eftirfarandi pistill var birtur í Morgunblaðinu s.l. laugardag:
Eiríkur Tómasson skýrir í Speglinum á RUV frá afstöðu Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Hann segir að Bretar og Hollendingar hafi byggt kröfu sína á því að hið íslenska tryggingakerfi hafi alls ekki reynst fullnægjandi þegar bankarnir hrundu hér á landi og þar af leiðandi sé íslenska ríkið ábyrgt fyrir að hafa ekki fullnægt skuldbindingu sinni samkvæmt þessum tilskipunum.
Það liggur fyrir að Íslendingar uppfylltu skilyrði tilskipunar ESB um að setja á stofn tryggingarkerfi til þess að veita innistæðueigendum í bönkum og öðrum innlánsstofnunum vernd ef svo færi að þessar stofnanir lentu í greiðsluþroti.
Samkvæmt lögum um tryggingarsjóðinn skyldi heildareign innstæðudeildar sjóðsins að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári.
Krafa Breta og Hollendinga byggir því á því að ekki voru fyrirliggjandi fjármunir í tryggingasjóðnum umfram það sem lögbundið er. Ef það er krafa þeirra að nægilega miklir fjármunir skyldu liggja fyrir í sjóðnum til þess að bæta öllum innistæðueigendum tap sitt við kerfishrun þá þýðir það að bankarnir hefðu þurft að leggja nánast allar innistæður beint í tryggingasjóðinn. Það er ekki fræðilega mögulegt að reka innlánskerfi í banka á þeim forsendum nema að taka greiðslu frá innlánseigendum, t.d. í formi neikvæðra vaxta, fyrir að geyma fjármuni þeirra af 100% öryggi enda endurspegla jákvæðir vextir áhættu.
Það hefur ekki heldur komið fram hvað Bretar og Hollendingar telja fullnægjandi" í þessu samhengi. Það segir t.d. ekkert um það í ESB tilskipuninni hvað teljist fullnægjandi og það eitt gerir forsendur kröfu Breta og Hollendinga veikar. Íslensku lögin um tryggingasjóð hafa verið talin fullnægja ESB tilskipuninni og farið var að þeim lögum.
Þá kemur það skýrt fram í tilskipuninni að óheimilt er að veita tryggingasjóðnum ríkisábyrgð en það er einmitt þess sem Bretar og Hollendingar eru að krefjast, þ.e. að Íslendingar brjóti umrædda tilskipun. Þetta ákvæði hljómar svo: the system must not consist of a guarantee granted to a credit institution by a Member State itself or by any of its local or regional authorities.
Krafa Breta og Hollendinga þýðir að renna muni að lágmarki 600 milljarðar úr íslensku efnahagskerfi í breskan og hollenskan ríkissjóð á komandi árum en það mun frysta íslenskt atvinnulíf og hafa ruðningsáhrif sem mun gera búsetu erfiða á Íslandi.
Vissulega skiptir þetta gríðarlegu máli en það skiptir ekki minna máli að atferli aðila í þessu máli brjóta lögmál um góða siðmenningu og rétt almennings til laga og reglu sem verndar hag þeirra. Í því tilliti má halda því fram að það sé skylda Íslendinga að spyrna við í þessu máli og leita sanngjarnrar málsmeðferðar. Það getur aldrei talist að uppgjör hafi farið fram á Íslandi eftir bankahrunið ef þjóðin verður kúguð til þess að beygja sig undir þennan yfirgang í því skyni að fyrra óþægindum sem ESB, Bretar eða Hollendingar geta hugsanlega valdið.
![]() |
Icesave rætt í fjárlaganefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2010 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)