2009-05-03
Firrur og fáránleiki?
Jón Baldvin rekur í firrum sínum ýmislegt sem hann segir vera áróður Evrópuandstæðinga. Það er vert að benda á að þessar firrur eru hans málatilbúnaður og speglar alls ekki réttilega málflutning Evrópuandstæðinga.
Í elleftu firru sinni tekur Jón Baldvin fyrir skilgreiningu Evrópuandstæðinga á fyrirbærinu ESB eða Evrópu. Þetta er hjákátlegur málflutningur sérstaklega í ljósi þess að vinstri og hægri er orðið frekar úrelt hugtak en Jón Baldvin virðist ekki gera sér grein fyrir hverjir valkostirnir eru eða hverjar eru þarfir eða vilji þjóðarinnar.
Jón Baldvin segir m.a.: hvort heldur þeir vilja að Ísland framtíðarinnar verði skrípamynd af amerískum kapítalisma eða virkur þátttakandi á jafnréttisgrundvelli í samstarfi hinna norrænu velferðarríkja innan vébanda Evrópusambandsins.
Ofangreind setning er með verra bulli sem ég hef rekist á í þessari ESB-umræðu og í raun móðgun við greind lesenda.
Málflutningur af þessu tagi bendir til þess að annað hvort er höfundurinn sérlega einfaldur í hugsun eða þá að hann hefur mjög lita trú á greind lesandans og ætlar sér að hræða hann til þess að taka afstöðu með öðru hvorum af tveim vondum valkostum eins og að aðrir séu ekki til staðar.
Það er einfaldlega þannig að það er í höndum Íslensku þjóðarinnar að móta framtíð sína og það getur hún vel gert án þess að apa annað hvort upp ósómann í Ameríku eða ósómann í Evrópu.
Ísland getur vel verið virkur þátttakandi á jafnréttisgrundvelli í samstarfi við fjölda ríkja og haldið sér utan vébanda ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2009-05-03
Þrælahald í boði AGS
Hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að styðja stórveldin við að innheimta skuldir valdaminni ríkja með öllum tiltækum ráðum. Ekki skiptir máli hvort skuldirnar séu réttmætar eða hvort að aðferðafræði þeirra kalli neyð yfir allan almenning.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er í liði með þeim sem vilja innleiða póst-modernískt þrælahald á Íslandi.
Ef við skoðum hverjum verið er að bjarga í aðgerðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ljóst að það er afmarkaður hópur sem sennilega er að stórum hluta borgarar annarra landa. Fremstir eru þar Jökla og Krónubréfaeigendur ásamt ónefndum Lundúnarbúa sem skuldar innistæðueigendum 700 milljarða. Hópur þátttakenda í útrásinni fjarlægði gjaldeyri upp á hundruð milljarða og kom þeim fyrir á aflandseyjum og þurrkuðu út gjaldeyrisvaraforða þjóðarbúsins. Rán Íslandssögunnar en mun minni áhersla hefur verið lögð á að endurheimta ránsfenginn en að kreista fjármagn úr venjulegum fjölskyldum.
Ránsfengurinn er í erlendum gjaldeyri en einungis er hægt að kreista lélegar krónur af almenningi. Það er því mun hagkvæmara fyrir þjóðarbúið að endurheimta ránsfenginn en að setja allt þetta púður í að koma fjölskyldum á vonarvöl. Lélegt gengi krónunnar þýðir að það kostar almenning mun fleiri vinnustundir að standa skil á fjárhæðum í erlendum gjaldmiðli.
Aðferðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýna að styrkur Íslands gegn öðrum þjóðum er honum algjört aukaatriði sem og velferð almennings á Íslandi.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur hér uppi háum stýrivöxtum sem ein af meginástæðum fyrir lélegu gengi krónunnar. Háir vextir af Jökla- og Krónubréfum skapa viðvarandi þrýsting á krónuna. Atvinnulífið er í rústum vegna hárra vaxta og verðtryggingar.
Fyrir liggur að draga máttinn enn frekar úr íslensku samfélagi með niðurskurði í ríkisfjármálum sem helst má líkja við slátrun.
Það kerfi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið á hér í ríkisfjármálum, peningastefnu og skilgreiningu þess hverjir eiga að bera tapið er vegarspotti sem leiðir allan almenning beina leið inn í skuldaánauð eða landsflótta.
Kolvitlaus hugmyndafræði stórkapítalismans ræður hér för. Ofbeldi af hálfu valdabattería á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB hefur verið viðvarandi í allan vetur og íslenski valdhafar hafa aktað sem strengjabrúður þessara afla í stað þess að taka stöðu með þjóðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Yfirvöld hafa gripið til þess ráðs að láta skuldara, oft ungar barnafjölskyldur, standa undir fjármögnun bankanna.
Gengisáhættan sem bankarnir tóku var í miklum mæli færð yfir á skuldara. Verðtryggingin sem yfirmælir stöðu skuldara er verkfæri valdhafanna til þess að fjármagna bankanna og vaxtagreiðslur til Jökla- og Krónubréfaeigenda.
Nú hafa bankarnir grætt svo mikið á heimilunum að útlit er fyrir að ríkissjóður þurfi ekki að leggja eins mikið í fjármögnun bankanna og upphaflega var talið.
Með þessu hefur verið hægt að þyrma fjármagnseigendum og auðmönnum (skattgreiðendum) á kostnað þeirra sem hafa mikla greiðslubyrði vegna húsnæðiskaupa.
Gylfi Magnússon vill ekki að skuldarar rísi upp gegn ranglætinu.
Hverjir eru Jökla- og Krónubréfaeigendur?
Hvers vegna er svo miklu fórnað fyrir hagsmuni þeirra?
Þessu verða yfirvöld að svara
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-05-03
Kjaftar Jón Baldvin þjóðina í ESB?
ESB sinnar fara stórum í viðleitni sinni til þess að kjafta okkur inn í ESB.
Ég ætla hér að taka í sundur 10. firru Jóns Baldvins:
10. Það eru allir vondir við okkur í ESB, sbr. reynsluna af Bretum og Icesave.
Hér leggur Jón Baldvin barnalega setningu í munn þeirra sem hafa eitthvað við það að athuga að ESB ríkin beittu Ísland þvingunum í haust til þess að beygja þjóðina til þess að taka á sig skuldir Björgólfs Thors og annarra sem stjórnuðu Icesave útrásinni.
Þetta er misskilningur. Fórnarlömbin í Icesave-málinu voru breskir og hollenskir sparifjáreigendur og á endanum íslenskir skattgreiðendur.
Breskir og hollenskir sparifjáreigendur mættu sjálfviljugir til leiks. Þeir ákváðu sjálfir að eiga viðskipti við Björgólf Thor, fengu umbun fyrir að taka þá áhættu og töpuðu en íslenskir skattgreiðendur höfðu engin áhrif á þetta ferli og bera enga ábyrgð í málinu.
Skúrkarnir voru eigendur og forráðamenn Landsbankans, sem buðu sparifjáreigendum í þessum löndum hæstu vexti til þess að fá þá til að trúa sér fyrir sparifé sínu, til þess að bjarga sjálfum sér úr lausafjárkreppu við endurfjármögnun eigin skulda. Að því er varðar Holland, þá stungu þeir af, án þess svo mikið sem þakka fyrir sig.
Hollendingarnir eru engu skárri en íslensku skúrkarnir í því að þeir ætla að láta ófædd íslensk börn taka á sig mistök þeirra, sem voru að treysta Björgólfi Thor, til þess að bjarga sjálfum sér. Hollendingarnir eru eins og skúrkarnir vilja bara bjarga sjálfum sér og láta sakleysingja taka á sig byrðina.
Íslensk yfirvöld vissu frá upphafi, að útibú íslenskra banka alls staðar á EES-svæðinu, voru undir íslenskum bankaleyfum, undir íslensku eftirliti og undir íslenskri sparifjártryggingu lögum samkvæmt.
Hollendingar og Bretar vissu frá upphafi að innistæðurnar voru eingöngu tryggðar með því sem til var í tryggingasjóði innistæðueigna en eru nú að heimta að íslenskir skattgreiðendur taki á sig byrðarnar þótt fyrir því sé enginn lagalegur grundvöllur.
Það vorum við sem brugðumst.
Það vorum við sem áttum enga aðild að þessu máli og gátum því hvorki staðið okkur né brugðist
Þetta réttlætir að sjálfsögðu ekki hefndarráðstafanir Breta með því að beita hryðjuverkalögum.
Þeir gerðu miklu meira heldur en að beita hryðjuverkalögum. Þeir hófu gengdarlausna áróður gegn íslensku þjóðfélagi. Þeir stöðvuðu allt gjaldeyrisstreymi til og frá landinu og heftu þannig innflutning þar til skortur á matvæla- og lyfjaforða var farin að segja til sín. Þeir settu kaupþing á hausinn með aðgerðum sínum. Þeir beittu áhrifum sínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að þvinga ríkisstjórnina til þess að taka skuldbindingar sem henni bar ekki að taka. ESB gerði einfaldlega allt sem í þeirra valdi stóð til þess að rústa efnahag íslenska þjóðarbúsins og þar á meðal reyndu þeir að svelta þjóðina.
En af einhverjum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ekki treyst sér til að höfða mál gegn Bretum til að fá því hnekkt. Þau skulda okkur skýringu á því.
Það þarf ekkert að útskýra það. Bretar hafa einfaldlega í gegn um ESB tekið íslensk stjórnvöld hreðjataki og eru ekki á leiðinni að sleppa því.
Sannleikurinn er sá, að Íslendingar hafa notið góðs af samstarfi við grannþjóðir. Við höfum notið góðs af Norðurlandasamstarfinu. Við nutum góðs af Marshall-aðstoðinni án þess að fullnægja settum skilyrðum. Við nutum góðs af varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn græddum m.a.s. á því, á meðan aðrar þjóðir færðu fórnir í þágu landvarna. Við höfum notið góðs af EES-samningnum, sem með einu pennastriki veitti okkur aðgang á jafnréttisgrundvelli að stærsta fríverslunarsvæði heims.
Ef EES-samningurinn hefði ekki verið til staðar hefði bankahrunið ekki orðið í haust. Bankahrunið og ástandið í kjölfar þess, þ.á.m. ástand krónunnar er bein afleiðing af "samstarfi" við ESB. Ástandið á Íslandi í dag er vitnisburður um afleiðingar af "samstarfi" smáríkis við ESB.
Og við höfum notið góðs af Evrópusamstarfinu á mörgum sviðum, ekki síst að því er varðar vísindi og rannsóknir, menntun og menningu. Við erum vegna uppruna okkar, sögu og menningar Evrópuþjóð og eigum heima í samstarfi evrópskra lýðræðisríkja.
ESB sýndi svo ekki verður um villst í haust að lýðræðið er þeim fjarlægt þegar þeir vilja bjarga eigin skinni. Það ber að varast þetta valdabatterí sem svífst einskis og notfærir sér á ósvífin hátt öll tiltæk verkfæri til að knésetja smáþjóðir til að hylma yfir mistök sem eiga sér stað í þeirra eigin herbúðum, s.b.r. hjá stjórnvöldum ESB og valdamikilum þjóðum innan bandalagsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)