2012-02-17
Misjöfn örlög manna
Eldri karlar eru meirihluti þeirra sem mótaði samfélag sem einkennist af mismunum og misnotkun á völdum. Í nýlegri frétt af könnun um fátækt í Evrópu kemur fram að mun stærri hópur barna á Íslandi býr í fjölskyldum sem lifa undir fátæktarmörkum en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Í upphafi fólst spillingin aðalega í því að tryggja stjórnmálamönnum og fjölskyldum þeirra einokunarstöðu í viðskiptalífinu. Síðan komust menn upp með að setja lög sem færðu alla áhættuna af lánaviðskiptum yfir á lánþega. Rétturinn til þess að veiða fiskinn í sjónum var færður í fárra hendur. Æði rann á menn og þeir gáfu vinum sínum ríkisbankanna. Hrokinn og hybrisminn var orðinn botnlaus. Þeir máttu allt. Lagaumhverfi var hannað til þess að standa vörð um arðránið.
Flestir þeirra sem frömdu alvarlegustu glæpina á fyrirhrunstímabilinu virðast þó ætla að sleppa. Baldur er þó undanskilinn ásamt fleirum.
Vandinn er meðal annars að sjálfstæðisFlokkurinn hefur um langa hríð lögleitt alls konar glæpastarfsemi með aðstoð þeirra flokka sem setið hafa með þeim í stjórn. Ég birti eftirfarandi pistil á feisbókinni um RÉTTARRÍKIÐ.
Réttarríkið

Í valdatíð sjálfstæðisFlokksins var réttarríkið hannað utan um arðránsmafíuna. Réttarríkið fer mjúkum höndum um stjórnmálamenn sem þyggja mútur. Það kallar ekki á ábyrgð stjórnenda sem skuldsetja fyrirtæki um hundruð milljarða og standa ekki við endurgreiðslur. Það kallar ekki á ábyrgð stjórnenda lífeyrissjóðanna sem héldu uppi háu gengi krónunnar með framvirkum samningum og studdu með því að arðrán var framið í skjóli nætur þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn var tæmdur.
Réttarríkið er sniðið að þörfum forréttindastéttar sem hefur einokunarrétt á rentunni af sjávarauðlindinni. Réttarríkið hunsar mannréttindi, hefur skert atvinnufrelsi og hefur haft að engu frumbyggjarétt í byggðum landsins. Í skjóli reglna réttarríkisins eru aðalega menn og stundum konur valin til embætta í krafti klíkutengsla. Réttarríkið lætur sig litlu varða um öryggi neytenda og styður það að innihald eiturefna í neysluvöru sé haldið leyndu fyrir neytendum.
Okurlánastarfsemi á íbúðamarkaði er lögleidd á Íslandi. Réttarkerfið hefur ekki ráðið við að draga menn til ábyrgðar fyrir samráð á olíumarkaði. En gríðarlegur kostnaður hefur hlotist af samráði á fákeppnismarkaði fyrir minni og meðalstór fyritæki og fjölskyldurnar í landinu. Stórar verslunarkeðjur beita birgja þvingunum í krafti stærðar sinnar. Klíkuráðningar í hæstarétt þykja ekki tiltökumál og dómar á Íslandi bera það með sér að dómskerfið dregur taum valdsins og mannréttindi eru hunsuð.
Ráðherrar sjálfstæðisFlokksins hafa gengið erinda aðila með þrönga hagsmuni og hafa komið hagsmunamálum þeirra í gegnum þingið og þau hlotið gildi sem lög.
Flokkarnir
Núverandi ríkisstjórn tók við rústum þess sem kalla má eðlilegt réttarríki. Margir bundu vonir við að menn myndu bretta upp ermarnar í kjölfar kosninga árið 2009 og reisa við hér það sem kalla mætti norrænt velferðarsamfélag. En ríkisstjórn Jóhönnu brást í þeim efnum. Inngróin ölmusuhyggjan og þjónkun við fjármagnið hefur ekki leyft miklar breytingar.
Ég velti því stundum fyrir mér hvort að stefnumál stjórnmálaflokkanna séu blekking ein. Stjórnmálaflokkarnir virðast vera stofnanir sem veita sérhagsmunahópum farveg til valda. Í prófkjörum mæta hópar sem eru forsvarsmenn þröngra hagsmuna inn í alla flokkanna og hefja blekkingaleikinn. Stefna flokksins skiptir þá litlu máli en þeir berjast um að komast inn og síðan fyrir að koma þröngum sérhagsmunum í gegnum þingið. Þessu er stjórnað annars vegar með því að senda rétta fólkið og hins vegar með veglegum gjöfum til kandídata. Þetta getur skýrt þá óværð sem ríkir jafnan innan flokkanna. Dæmi um svona hópa eru LÍÚ, Engeyjarættin og vinir Björgólfs Thors.
Þöggun

Bankahrunið hafði eitt gott í för með sér fyrir íslenska þjóð. Í áratugi hefur valdastéttin innrætt þöggun. Með ofbeldi, uppeldi, hótunum og áróðurfrösum eins og samsæriskenningar hefur fólki verið kennt að þegja. Eftir bankahrunið losnaði almenningur að einhverju leyti úr viðjum þöggunar þótt vissulega megi segja að umræðan megi þroskast og beinast meir að málefnum en liðshyggju. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir forréttindastéttina. Enda geysist hún nú fram á völlinn og gefur álit í pistlum og spjallþáttum.
Málfrelsi er þessum aðilum ógnun enda þarf hátt stig meðvitundarleysis þjóðarinnar til þess að hægt sé að arðræna hana eins og raun ber vitni. Vopn valdhafanna hafa verið leynimakk, blekkingar og þöggun. Til þess að stemma stigum við umræðunni sem ógnar forréttindastéttinni er tjón forréttindastéttarinnar gert að tjóni almennings en í skrifum Helga Jóhannessonar lögfræðings segir hann um umræðuna að: risið hafa upp draugar sem eru að valda þjóðfélagi okkar meira tjóni en hrunið sjálft gerði. Þjóðfélagið okkar í máli Helga er þó ekki þjóðfélagið mitt enda telst ég til almúgans sem er óvarinn af réttarríkinu. Þjóðfélagið okkar sem Helgi vitnar í er hinn myrki kimi þjóðarsálarinnar sem hann talar fyrir.
Valdastéttinni ógnað
Skrif Helga bergmála helstu nöldursstef formanns sjálfstæðisFlokkins um þessar mundir. Eitt helsta áhyggjuefni Helga er að vegið sé að rótum réttarríkisins. Vissulega er umræðan að draga fram helstu drætti af þeirri ómynd sem Helgi vill kalla réttarríki. Helgi gerir að umtalsefni áhyggjur sínar af því að hinir 300 sem bera réttarstöðu grunaðra hjá sérstökum saksóknara fái ekki atvinnu og gagnrýnir að menn séu settir í þessa stöðu. Guðbjörn Guðbjörnsson bendir hinsvegar á á bloggi sínu, réttilega, að 10 til 15 þúsund manns hafa misst atvinnu frá hruni eða flúið land án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Helgi virðist hafa litlar áhyggjur af þessum hópi enda kannski um að ræða fólk sem réttarríki Helga er ekki ætlað að vernda.
Grein Helga er þó afhjúpandi. Dregnir eru saman hagsmunir manna sem grunaðir eru um glæpi, hagsmunir núverandi formanns sjálfstæðisFlokksins og hagsmunir fyrrverandi forsætisráðherra stjálfstæðisFlokksins og bökuð úr því ein kaka. Greinin er eins og játning innan úr hinum helgu véum Valhallar að þar eigi arðránsmafían uppruna sinn.
![]() |
Dómur yfir Baldri staðfestur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)