2010-01-24
Réttarríki í kröggum
Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis hefur varðað veginn að því að rústa tilveru nokkura ungmenn með því að kæra þá og koma þeim bak við lás og slá meðan Björgólfur sem setti þjóðarbúið á hausinn með glæpastarfsemi sem Alþingi lögleiddi lifir í vellystingum í London.
Setti þessa grein á Smuguna:
Eftir bankahrunið fór hugurinn á ringulreið. Afleiðingarnar af hruninu fyrir samtímann og fyrir framtíð þjóðarinnar fangaði athyglina. Ástandið var alvarlegt og spurningar vöknuðu. Hvernig bregðast stjórnmálamenn við? Iðrast þeir og berjast fyrir hag almennings eða ætla þeir almenningi að taka höggið?
Fyrstu viðbrögð stjórnmálamanna voru einkennileg. Áróðursherferð hófst í fjölmiðlum og af hálfu stjórnmálamanna. Herferðin miðaði að því að beina athyglinni frá sökudólgum og sannfæra þjóðina um að sökin væri hennar. Útrásarvíkingar og stjórnmálamenn fengu drottningarviðtöl og Kristrún Heimisdóttir hvatti þjóðina til æðruleysis. Ekki tókst þó betur til en svo að fólkið dró fram potta og pönnur og skundaði niður á Austurvöll. Ríkisstjórn, sem hafði með leynd og blekkjandi umræðu villt almenningi sýn og grafið undan heilbriðum væntingum, var hrakin úr sessi. Forsmán þessarar ríkisstjórnar var að hún stóð ekki með fólkinu í landinu. Sá sem hefur verið blekktur byggir á þeirri reynslu og finnur fyrir tortryggni. Ef þú platar mig einu sinni ert þú fífl en ef þú platar mig tvisvar er ég fífl stendur einhversstaðar. Ef lagt er út af þessari setningu er ekki furða að fólk krefjist svara. Hver vill vera fíflið?
Byltingin bar með sér væntingar. Í hjarta Íslendinga bærðist óskin um lýðræði, um einlægni og um umhverfi sem ekki væri hulið móðu leyndarmála og blekkinga. Það voru því þjóðinni sár vonbrigði þegar að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð og jöfnuð stakk sér umsvifalaust í vasa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gerði lögmál hans að sínum. Leyndahyggjan er enn ráðandi og hinar raunverulegu fyrirætlanir og staða samfélagsins birtist enn í móðu eða jafnvel sem skrumskæling af veruleikanum.
Umræðan meðal almennings einkennist af spurningum sem ekki fást svör við. Í stað þess að halda uppi umræðu sem miðar að því að auka skilning á atburðarrásinni hella menn áróðri yfir þjóðina og jaðrar stundum við heimskuhjal. Ég heyrði einn ráðamann þjóðarinnar gera lítið úr íslenska hruninu með því að bera það saman við hrunið á Haiti. Haiti búar þurfa að nærast á mold og drullu samkvæmt upplýsingum fulltrúa sem störfuðu þar við hjálparstörf fyrir jarðskjálftanna. Ástandið hefur verið hörmulegt þar um langa hríð. Er þetta samanburðurinn sem ráðamenn á Íslandi vilja sækja? Er þeim allt leyfilegt vegna þess að Haitibúar lifa við hörmungar? Er það smekklegt að notfæra sér slíkt ástand til þess að réttlæta slægt stjórnarfar á Ísland?
Ráðamenn á Íslandi geta svo sem líka borið ástandið á Íslandi saman við svarta forneskju ef þeir vilja fá hagstæðan samanburð. En eigum við ekki að hafa metnað til þess að horfa fram á við og miða að því að skapa gott samfélag, vernda umhverfið og ganga ekki á rétt barna okkar.
Þegar gengið er um götur mætir ásýnd velmegunar. Fólk er snyrtilega til fara og ekki verður séð að það skorti neitt. Undir þessari ásýnd leynast áhyggjur og áhrifaleysi. Prúðbúnir einstaklingar með neikvæða eiginfjárstöðu eru fátækir einstaklingar sem tapað hafa frelsi og valkostum. Fréttir voru af því eftir hrun að 30% þjóðarinnar væri í þessari stöðu og að hlutdeild þeirra myndi aukast. Strategía ríkisstjórnarinnar, sennilega fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, virðist vera að skapa ró með því að frysta skuldir. Í andrúminu sem myndaðist við frystinguna átti að klára tvö mál. Klára umsókn að ESB og þvinga ábyrgð af skuldum sem siðblindir bankaeigendur söfnuðu í einkabönkum sínum yfir á almenning í landinu. Fyrra málið komst í höfn en hið síðara vofir yfir vegna þess að þjóðin sofnaði ekki á verðinum heldur tók stöðu með framtíð Íslands. Hin falska ásýnd velmegunar blekkti ekki. Stjórnvöldum tókst ekki að sannfæra þjóðina um að það væri siðlegt að selja börnin í ánauð til þess að greiða skuldir hinna siðblindu.
Framundan er afþýðing lána og birting rannsóknarskýrslu Alþingis. Í kjölfarið verður kosið um ríkisábyrgð á Icesave. Viðbúið er að í aðdraganda og kjölfar þessara atburða skapist órói. Tími svika og blekkinga er ekki tími æðruleysis heldur tími uppgjörs og lærdóms.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
frambjóðandi í forvali VG í Reykjavík
Vill álit HÍ á ákærunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góða grein Jakobína.
Einn mælikvarði á hvort við höfum lært eitthvað á hruninu, er hvernig við tökumst á við það sem gerðist við Alþingishúsið. Ef við skiljum ekki reiðina sem bjó að baki því sem gerðist, þá ákærum við. En þurfum ekki að vera hissa að fljótlega komi aftur ungmenni sem vilji komast inn.
Því ef það er ekki vilji hjá ríkjandi öflum að sættast, þá verður enginn sátt. Það er ekki nóg eins og þú segir réttilega að mæta í drottningarviðtöl í nýrri dragt, og biðja alla að vera sæt og prúð. Viljinn til sátt þarf að vera sýnilegur.
En ríkisstjórn sem fær ameríska vogunarsjóði til að endurreisa atvinnulíf sitt, er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann..
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.1.2010 kl. 16:58
Hvernig er hægt að réttlæta það að beita þingvörð það grófu ofbeldi að hann verður aldrei samur aftur? Það að vera metin öryrki þó ekki sé nema 8% segir það að hann mun aldrei ná sér að fullu. Ef þetta er látið líðast í ljósi þess að menn eru reiðir þá skapar það fordæmi, sem verður erfitt að snúa frá. Það að menn séu reiðir getur aldrei réttlætt það ofbeldi, sem þetta fólk beitti þingverði og lögreglumenn í þetta sinn. Það voru fimm lögreglumenn og þingverðir með meiðsli eftir þetta tilgangslausa og tilfenislausa ofbeldi þessa fólks á saklausum mönnum.
Þessir níumenningar eiga sér því engar málsbætur. Þeir eru ekki hetjur heldur ofbeldismenn og þar með ótíndir glæpamenn, sem eiga skilið að fara í fangelsi fyrir það, sem þeir gerðu. Það að einhverjir aðrir hafi framið glæpi gegn þjóðinni réttlætir ekki glæp þeirra.
Sigurður M Grétarsson, 24.1.2010 kl. 17:30
Sæll Sigurður
Mér er ekki kunnugt um það hvernig þessi mál tengjast. Ungmennin sem ég er að vísa í hafa ekki mér vitandi gerst sek um að ráðast á þennan þingvörð. Ég er fullkomlega hlynnt því að sá sem skaðar aðra manneskju með ofbeldi sér ákærður fyrir það.
Það hefur hvergi komið fram í þeim fréttum af málinu að hver og einn þessara níu aðila sem eru ákærði hafi skaðað aðra manneskju með líkamlegu ofbeldi enda skilst mér að það sé ekki það sem felst í ákærunni heldur er ákært skv 100 gr. frá 1940
Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.
Fólk er ákært fyrir að ráðast á Alþingi en ekki fólk!
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.1.2010 kl. 18:04
"Skuldir hinna siðblindu" Fjandi vel sagt.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 25.1.2010 kl. 08:57
Það er ekki Helgi Bernódusson sem er að kæra heldur embætti skrifstofustjóra Alþingis. Þetta er æðsta embættið hjá þeim sem þjóna löggjafarsamkundunni Alþingi.
Það er hvorki Helgi né embætti skrifstofustjóra Alþingis sem er að "rústa tilveru nokkurra ungmenna". Það eru þessi ungmenni sem ruddust inn í húsið, brjótandi, bítandi og meiðandi. Það er erfitt að sjá hvernig eir sem eiga að standa vörð um friðhelgi Alþingis geta litið fram hjá þessu athæfi, talið afsakanlegt vegna hruns í samfélaginu.
Ég hef ekki hugmynd um það hvort er verra fyrir framtíðartilveru þessa fólks að sitja af sér einhvern dóm í málinu eða fá klapp á kollinn ásamt vinsamlegri beiðni um að gera aldrei svona aftur jafnvel þótt lífið verði þeim erfitt á stundum. En ég vil að Alþingi sé friðhelgur staður til löggjafarvinnu.
Jóhannes Þorsteinsson (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 08:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.