2010-03-23
Kallar heilbrigða skynsemi vesældarþráhyggju
Bjarni Benediktsson er glaður. Skoðanakönnun, sem sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi 40% fylgi 60% þjóðarinnar (þ.e. um 24% þátttakenda) og sýnir þar með dómgreindarskort hluta þjóðarinnar, vekur vonir í brjósti Bjarna. Hann telur að flokkurinn sem hefur gert Ísland að úrhraki meðal þjóða eigi nú að fá tækifæri til þess að láta reyna á stjórnvisku sína á ný.
Stjórnviska Sjálfstæðisflokks
Ekki hef ég verið í hópi þeirra sem telur að stuðningur við hina svokölluðu vinstri-stjórn skuli keypt hvaða verði sem er en hitt er óumdeilanlegt að í valdatíð Sjálfstæðisflokksins skaffaði flokkurinn sjálfum sér ríkisfyrirtæki, gróf undan trúverðugleika dómskerfisins með klíkuráðningum og kom á sjálfskömmtunarkerfi fyrir stjórnmálaflokka úr ríkissjóði. Helstu stoðir samfélagsins eru morknar eftir þjösnaskap Sjálfstæðisflokksins um áratuga skeið. Uppsafnaður atgervisskortur eftir langvarandi vinaráðningar einkennir stjórnsýsluna. Undir handleiðslu Sjálfstæðisflokks voru bankarnir afhentir fjárglæframönnum. Fjárglæframenn launuðu greiða stjórnvalda með fjárframlögum til flokkanna og ofurlaunastörfum fyrir fjölskyldur stjórnmálamanna. Fimmtíu ríkisfyrirtæki sem byggð voru upp með fjármunum skattgreiðenda voru færð í einkaeigu með vafasömum aðferðum. Hverjir eignuðust t.d. Granda og SR-mjöl? Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur barist gegn frjálsri hugsun og tjáningarfrelsi. Lýðræðið er hjóm eitt og hugtakið hefur aðallega merkingu í retorík samtímans.
Sjálfstæðisflokkurinn siglir undir fölskum fána markaðshyggjunnar. Raunveruleg stefna flokksins er að byggja upp lénsveldi þar sem alþýða landsins er í ánauð kvótaeigenda, fjárglæframanna og einokunarfyrirtækja. Reistir hafa verið múrar sem hefta frelsi til atvinnusköpunar í tíð Sjálfstæðisflokksins. Nýliðar eru settir undir alvald þeirra sem ráða mörkuðum og fjármagni. Málflutningur Engeyjarprinsins hefur mér þótt einstaklega óviðeigandi í ljósi sögunnar. Þjóðin er í sárum eftir valdatíð Sjálfstæðisflokksins en leppar LÍÚ og fákeppnisfyrirtækja þeysast fram á völlinn flæktir í Vafninga fortíðar og boða meira af því góða".
Stjórnviska Framsóknarflokks
Þótt frammistaða núverandi ríkisstjórnar hafi einkennst af vanhæfni kemst hún ekki nálægt því að feta í fótspor Sjálfstæðisflokksins. Ekki hefur þessari ríkisstjórn heldur tekist að skáka Framsókn sem af einstakri snilld sinni tókst að hnekkja 30% þjóðarinnar í vistabönd með ólögmætum aðgerðum í húsnæðismálum. Fikt Framsóknarmanna við fasteignarmatið sem í raun var skattahækkun var brot á stjórnarskrá. Stjórnarskráin heimilar ekki skattahækkanir nema með blessun Alþingis. Hitaveituaflestramælaánauð í boði Finns Ingólfssonar og Alfreðs Þorsteinssonar sem nú skipar heiðurssæti Framsóknar í Reykjavík er vel þekkt meðal þeirra sem láta sig frelsi landsmanna varða. Framsókn tókst í ríkisstjórnartíð sinni að gera einstaklinga úr þeirra röðum að ríki í ríkinu sem nú innheimta skatt af landsmönnum fyrir afnot af auðlindum landsins.
Raunveruleg stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var að byggja upp Lénsveldið Ísland. Lénsveldið Ísland einkennist af því að stærstur hluti þjóðarinnar er í ánauð vegna okurskulda og atvinnuhafta.
Stjórnviska Samfylkingar og Vinstri grænna
Því miður hefur hinni svokölluðu vinstri ríkisstjórn tekist illa upp við að endurmeta þau gildi sem viðhöfð hafa verið í íslenskum stjórnmálum. Íslensk stjórnmál hafa alið vonda menningu sem nýliðar hafa jafnóðum verið innvígðir í og þeir verðlaunaðir sem hafa skrúfað fyrir dómgreind og fylgt foringjum í blindni.
Nýleg grein Indriða Þorlákssonar í Smugunni ber vott um forheimskandi orðræðu en þar fjallar hann um Icesave. Indriði ásamt Svavari Gestsyni lögðu í víking til Bretlands og Hollands og mættu síðan á kajann með þessa hörmung sem hefur verið kölluð Icesave. Ferlið sem tók við í framhaldinu einkenndist af því að reynt var með öllum ráðum og forheimskandi umræðu að berja þessa ómynd inn á þjóðina.
Forkólfarnir og leppar þeirra hafa reynt að taka sér vald í orðræðunni og troða óviðeigandi viðmiðum inn í hana. Fjöldi Breta og Hollendinga áttu valkosti um að skipta við Landsbankann eða skipta við eitthvað annað fyrirtæki. Þetta er kallað viðskipti og þessi kimi samfélagshegðunar byggir á því að þátttakendur meti samspil hagnaðarvonar og áhættu en hafi frelsi til athafna og beri þá jafnframt ábyrgð á eigin gjörðum. Það er á ábyrgð einstaklinga sem VELJA að gerast þátttakendur að meta áhættuna og taka afleiðingum af athöfnum sínum. Það er óeðlilegt í ljósi leikreglna í þessum kima að þeir beri ábyrgð sem ekki eru þátttakendur og geta ekki haft áhrif á það hvernig þátttakendur haga viðskiptum sínum eða nýta sér frelsi sitt til athafna. Fjarvera ábyrgðar þeirra sem ekki tóku þátt í viðskiptunum byggist á því að þeir höfðu ekki áhrif, voru ekki spurðir ráða.
Indriði Þorláksson velur að kalla þátttakendur, sem höfðu hagnaðarvon, sem höfðu valkosti, sem höfðu áhrif, almúga Bretlands og Hollands. Að hans mati lagði fólk sem hafði lítið á milli handanna háar fjárhæðir inn á Icesave reikninga. Merkilega, þá veit Indriði hvers vegna fólk lagði peninga inn á Icesave reikninga. Hann vitnar reyndar ekki til rannsóknarniðurstaðna máli sínu til stuðnings heldur virðist hann bara vita þetta. Indriði grípur til meðaltalsupplýsinga. Hann segir t.d. að hver Íslendingur eigi að meðaltali 3.000.000 í sparifé en meðaltalsupplýsingar væru konkret upplýsingar þá þýðir þetta að þín fjögurra manna fjölskylda eigi 12.000.000 í sparifé. Ef þín fjögurra manna fjölskylda á ekki sparifé þá liggur þetta fé inni á reikningum annarra, t.d. þeirra 5% til 10% þjóðarinnar sem vaða í peningum meðan aðrir líða skort. Já, Indriði kallar viðskiptavini Icesave almúga. Hvað kallar Indriði íslenska skattgreiðendur sem hann vill að blæði fyrir vondar ákvarðanir fátækra einstaklinga" sem áttu allt að tugi milljóna inni á Icesave reikningum? Hann kallar þá ekki almúga. Kannski er óviðeigandi að kalla Íslendinga, sem eiga að taka á sig skaðann af óheppilegum viðskiptum fjárglæframanna og fátækra milljónamæringa, almúga.
Indriði heldur því fram að Icesave-peningarnir hafi farið til Íslands. Þegar hagtölur Seðlabankans eru skoðaðar bendir flest til þess að Icesave peningarnir hafi aldrei komið til Íslands heldur séu þeir í vinnu á erlendri grund við að skapa öðrum ríkissjóðum en hinum íslenska skatttekjur og skattgreiðendur annarra ríkissjóða atvinnu. Það er ekki furða þótt að samningsnefnd Svavars Gestssonar hafi gert vonda samninga ef grundvöllur að þekkingu á staðreyndum málsins hafa verið á því stigi sem Indriði opinberar í grein sinni.
Ekki skal ég segja um það hvort Indriði hafi lagt í viðamiklar rannsóknir eða hvort hann hafi sérstaka skyggnigáfu en hann leggur upp með að:
Í umræðunni fundu flestir mola við sitt hæfi sem nýttust þeim til að gera sjálfmynd sína að söluvöru á markaðstorgi lýðskrumsins. Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja fundu sér samastað í henni.
Indriði tilheyrir kynslóð sem fékk sjálfseyðandi húsnæðislán og sjálfseyðandi námslán en er sívælandi yfir kjörum sínum. RANNSÓKNIR sína að þessi kynslóð er eigandi meirihluta þess sparifjár sem talað er um sem meðaltalseign einstaklinga. Vesældarþráhyggja þeirra sem vilja gera íslenska borgara að skattgreiðendum bresks og hollensks ríkissjóðs felst í því að þeir vilja gera vandann sem skapast hefur af stjórnvisku Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að vanda komandi kynslóða en fyrra sjálfa sig þunga vandans.
Frammistaða Indriða og félaga hans í samningagerð um Icesave einkennist af minnimáttarkennd gagnvart erlendu valdi, hroka gagnvart ungum íslenskum fjölskyldum ásamt þráhyggju sem felur í sér að brjóta á niður varnir samfélagsins gagnvart þeim hörmungum sem stjórnviska Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknar skilaði af sér haustið 2008.
Það er ömurlegt að horfa upp á það hvaða framtíð eigingjarnir einstaklingar sem sífellt hafa tryggt eigin stöðu vilja búa þeim sem eiga að taka við þjóðarbúinu. Þegar ég segi NEI við Icesave segi ég nei við því að börnin mín greiði skuldir Björgólfs sem nýtur velvildar ríkisstjórnarinnar og lifir í vellystingum í London. Velferð fjölskyldu minnar og annarra fjölskyldna í landinu skipta mig meira máli en skófatnaður, einkasnekkja og ævintýramennska Björgólfs. Ég frábið mér að þessi skoðun mín sé heimfærð upp á þjóðernishroka, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafi eða vesældarþráhyggju.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
Stjórnsýslufræðingur
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ætli væri ekki nær að kalla þetta stjórnheimsku.?
Ásdís Sigurðardóttir, 23.3.2010 kl. 18:07
Ég held að í þessum- að vísu drjúglanga- pistli hafi þér tekist að gera grein fyrir meginefni allra þeirra pólitísku vanburða sem kreppa þjóðarinnar á rætur sínar í.
Þessi kreppa er reyndar orðin svo miklu altækari en ég tel að draga megi dæmi til þótt langt sé leitað í samanburðarríkjum.
Þetta er kreppa stjórnviskunnar, heiðarleikans, vitsmuna í flestum góðum skilningi og síðan kreppa heiðarleikans sem til þarf að leita orsakanna og viðurkenna mistök.
Það uppgjör sem þjóðina vantar er tvíþætt. Það er uppgjör stjórnsýslunnar við sjálfa sig og þau spilltu öfl græðginnar sem tóku völdin.
Síðan á sama hátt uppgjör kjósenda við eigin dómgreindarleysi og uppgjör við ræfildóm flokkshollustunnar sem finnur alltaf undankomuleiðir frá bitrum sannleika.
Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.