2010-04-17
Þótt fyrr hefði verið
Ræða á Austurvelli í dag:
Þetta er ekki mér að kenna. Ég ber ekki ábyrgð. Ég vissi ekkert. Það var ekki talað við mig. Ég fattaði ekki neitt. Enginn hlustaði á mig. Já, þau eru fleyg orð stjórnmála- og embættismanna sem verja gerræðislega hegðun og vanhæfni í aðdraganda hrunsins.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, flæktur í vafninga fortíðar, segir okkur að forysta Sjálfstæðisflokksins sé ekki spillt heldur þvert á móti, þjóðin bara vond. Hann lætur ekki þar við sitja en segir, að vond þjóð ali af sér vonda þingmenn. En hvernig verður ein þjóð svona vond þjóð? Þurfa foringjarnir ekki að svara þeirri spurningu?
Þeir sem keyrðu samfélagið í þrot og gerðu þjóðina að úrhraki meðal annarra þjóða sendu frá sér skilaboð. Þjóðinni var falið að vera æðrulaus og bjartsýn því nú væri því lokið sem Biskup Ísland kallaði velferðarkreppu. Já ráninu var lokið. Bankaeigendur og börn stjórnmálamanna og börn embættismanna, makar stjórnmálamanna og embættismanna höfðu skrapað bankanna að innan og komið ránsfengnum í tryggt skjól. Já þetta var tær snilld en eftir situr almenningur í skuldaánauð. Rannsóknarnefnd Alþingis var sett á laggirnar en því verkefni var stjórnað af ríkisstjórn sem keyrði þjóðarbúið í þrot af því að hún vissi ekki neitt. fattaði ekki neitt og bar enga ábyrgð.
Stjórnmálamenn vísa nú til þess að frelsinu fylgi ábyrgð og heimfæra sökina á bankamenn sem lúra á ávinningi sínum af bankaránum á Tortóla. Fylgir því ekki ábyrgð að sitja í ríkisstjórn sem setur landið á hausinn? Rannsóknarskýrslu Alþingis var frestað þrisvar á meðan skuldir fjárglæframanna voru afskrifaðar og fyrirtæki færð aftur í þeirra hendur.
Eftir að fúnar stoðir samfélagsins hrundu hafa hafa stjórnmálamenn rótað í fúaspýtum í tilraunum til þess að endurreisa hið liðna og skapa ný gróðatækifæri fyrir þá sem njóta velvildar. Í framtíðarsýn þeirra felst aukin skuldasöfnun, áframhaldandi leynimakk, þöggun og forheimskandi áróður.
Íslensk stjórnsýsla er frumstætt fyrirbæri. Menn hittast í myrkum bakherbergjum og makka á laun um mál sem varða velferð og sjálfstæði þjóðarinnar. Viljum við slíkt stjórnarfar? Nei.
Stjórnmálasaga Íslands hefur einkennst af alræði fárra, foringjahollustu og klíkuskap. Undir styrkri forystu Sjálfstæðisflokks hafa stjórnmálamenn þróað samfélag sem elur á spillingu, vanhæfni og óréttlæti. Árið 2010 einkennist Íslenskt stjórnarfar af meinsemdum sem hreiðrað hafa um sig frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Í nútímasamfélagi vinnur þetta stjórnfar gegn framþróun, dregur hrægamma að rústum þjóðarbúsins og hefur skapað fátækt meðal stórs hluta almennings í landinu.
Þeir sem kölluðu ógæfuna yfir þessa þjóð, sem þeir hafa kallað vonda þjóð eða bara alls ekki þjóð, benda nú hver á annan. Krafa okkar er að þeir sem leiddu ógæfu yfir þjóðina líti í eigin barm.
Höfuðmeinsemd íslenskra stjórnmála er að finna í flokksræðinu og þeim valdamúrum sem foringjar flokkanna hafa reyst um völd sín. Þetta er hið viðkvæma mál sem fáir hafa viljað ræða. Valdhafar vilja ekki missa hækjuna sem heldur þeim uppi.
Valdamúrar stjórnmálaflokkanna viðhalda stöðugu niðurrifi kerfisins, skaða almenning og ala á hugmyndafræði sem vinnur gegn framþróun. Foringjarnir sækjast eftir samskiptum við veiklynda einstaklinga sem þeir beita fyrir sig í viðhaldi valdsins. Foringjarnir safna um sig einstaklingum sem eru í góðum tengslum við peningavaldið, sem sverja hollustu við foringjann, lúta honum af auðmýkt og gagnrýna ekki hið ríkjandi fyrirkomulag. Foringjarnir þrýsta til hliðar fólki sem gagnrýnir ríkjandi fyrirkomulag.
Embættismannakerfið er sýkt af varðhundum stjórnmálanna og hugtakið réttarríki er notað á tyllidögum þegar verja þarf þá sem rændu þjóðarbúið. Klíkuráðningar í hæstarétt er í raun ein alvarlegasta aðförin að réttarríkinu.
Samtvinnun af ýmsu tagi milli stofnana samfélagsins er meinsemd sem verður að uppræta. Spilling er meinsemd sem grafið hefur um sig í hagsmunasamtökum og lífeyrissjóðum. Byggingaverktakar hafa mútað stjórnmálamönnum og svæði í borginni okkar eru eins og ruslahaugar eftir umgengni aðila sem hafa notið velvildar stjórnmálamanna. Og enn eru þeir á ferðinni. Nú á að verja lífeyrissjóðum landsmanna til þess að halda uppi gróðastarfsemi fyrir byggingaverktaka í stað þess að verja lífeyrissjóðunum í þjóðhagslega hagkvæm verkefni.
Ef við lítum til þess sem er að gerast í dag vekur það litlar vonir um umbætur. Stjórnmálamenn lögleiða mútur til stjórnmálaflokka og einstaklinga. Leynd hvílir yfir styrkjum til einstaklinga í prófkjörum? Fjölmiðlar eru í eigu útrásarvíkinga, LÍÚ og annarra hagsmunaaðila. Til þess að styrkja völd sín veitir fjórflokkurinn hátt í milljarð til eigin flokka úr vasa skattgreiðenda. Engum fjármunum er varið til þess að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun.
En við verðum að spyrja okkur þeirra spurningar hvers vegna höfuðvígi spillingarinnar sem finna má í starfsháttum fjórflokksins fær ekki meiri athygli í skýrslunni.
Þorgerður stígur til hliðar | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Facebook
Athugasemdir
uppræta hreiðrinn / ekki bara skipta um óværu / hvar eru óværu uppeldisstöðvar glæpa klíku spillingar á Islandi ? hver eru HREIÐRINN ? en auðvita má ræða þetta mjög málefnalega / hvað sega þau , verðum að læra af mistökunum læra af söguni/mistokum ? hafa þessi hámenntuðu kvekindi aldrei litið í bók og aldrei lesið neitt um söguna ? UPPRÆTA aumingja óværu glæpa klíku spillingar sóða langættardólga arðráns HREIÐRIN flokkseigandafélögin / þínglýsa kosningaloforðum/stefnuskrá reglur aðhald viðurlög á manneskjurnar gráðugar breiskar
Ásgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 21:34
Þú varst góð eins og alltaf. Þetta er athyglisverður punktur af hverju engin gagnrými er í skýrslunni á starfshætti fjórflokksins. Ætli það hafi eitthvað með það að gera að nefndin var skipuð í ríkisstjórnartíma Geirs Haarde?
Magga (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 21:35
Hér kemur ástæðan fyrir því að Ríkisstjórnin með Samfylkinguna innanborðs neitaði á annað ár að svara fyrir það hvert Icesave peningarnir hefður farið.
(http://www.ruv.is/frett/icesave-peningar-til-kaupthings)
Beint í gin óreiðumannanna.
Ýmsar útskýringar, sem settar voru fram af leigupennum um það hvert fjármunirnir runnu, voru lygi.
Þvílík snilld.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.