2010-10-02
...OG EGGIN FLJÚGA
Á rölti mínu um Austurvöll við setningu Alþingis hitti ég fræðimann frá Cambridge háskóla sem er hér staddur vegna rannsóknar á afleiðingum þess þegar húsnæðisbólur springa. Ég ræddi við hann í smástund og hann sagði mér frá því að í Bandaríkjunum hefði húsnæði fólks farið á uppboð og verið keypt fyrir smánarverð af fólki sem hefur aðgang að fjármagni og leigt síðan fólki sem hefur misst húsnæði sitt. Bólan var í raun gríðarleg eignatilfærsla frá millistéttarfólki til yfirstéttarinnar. Millistéttin færðist með þessu niður plan á lágstéttarinnar, þeirra fátæku og eignalausu. Vandinn hefur verið að fólk áttar sig venjulega ekki á ferlinu fyrr en skaðinn er skeður. Vaknar upp þegar það er búið að missa allt sitt og spyr; hvers vegna tók ég ekki þátt í mótmælunum?
Stjórnmálamenn
Stjórnmálamenn og embættismenn hafa hinsvegar betri yfirsýn og geta haft áhrif á atburðarrásina. Þeir geta valið aðrar leiðir sem skila annarri niðurstöðu. Þeir hafa hins vegar valið að gera það ekki en þráast eigi að síður við að kalla sig norræna velferðarstjórn. Í baráttu sinni fyrir að öðlast traust alþjóðasamfélagsins hefur ríkisstjórnin troðið á almenningi og svikið kjósendur. Hátíðarhöld við setningu Alþingis báru af þessu keim. Hlýðni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn birtist í því að nýju bankarnir voru fjármagnaðir með hundruð milljarða úr vösum skattgreiðenda og síðan gefnir erlendum kröfuhöfum. Markmiðið er endurreisa bankanna með því að viðhalda stökkbreyttum skuldum almennings. Til þess að tryggja eiginfjárstöðu bankanna er friðhelgi fjölskyldulífsins fótum troðin með uppboði á heimilum og niðurrifi fyrirtækja. Skjaldborg hefur hins vegar verið slegið um fjölskyldu Halldórs Ásgrímssonar sem fær nú milljarðagjafir frá Landsbankanum.
Réttarkerfið í landinu er lítið annað en rekald sem sveiflast eftir hagsmunum valdhafa og alþjóðafjármálakerfis. Orðið forsendubrestur þykir eingöngu eiga við þegar það þjónar bankakerfinu. Ráðherrar úr hrunstjórninni tóku sér dómsvald á alþingi og sýknuðu meðráðherra sem keyrðu landið í þrot annað hvort að vítaverðum kjánaskap eða af ásetningi.
Setningarhátíð
Sóðaskapurinn fyrir utan Alþingi við setningarathöfn var táknrænn fyrir sóðaskapinn inni á alþingi og þau ummerki sem hann skilur eftir sig um allt samfélagsið. Mótmælin á Austurvelli báru þess vott að nýjir tímar séu að hefjast á Íslandi. Þetta eru tímar reiðinnar og tímar vonleysis en líka tímar háværrar kröfu um athafnir til þess að bæta ástandið. Valdhafarnir hafa hvatt til æðruleysis en mæta nú eggjakasti og eru hrópaðir niður fyrir störf sín á alþingi.
Það var ámátlegt að horfa upp á þingmenn hlaupa álútna undir eggjakasti og lauma sér bakdyriameginn inn á alþingi. Reisn þessarar hátíðar var engin. Virðingin engin. Birtingarmynd ónýts alþingi og ónýtrar kirkju sem engu þjónar öðru en að viðhalda sjálfu sér.
Viðhorf þingmanna
Ragnheiður Ríkarðsdóttir er döpur vegna þess að stjórnmálamenn njóta ekki friðhelgi. Fáar yfirlýsingar hafa borist um depurð þingmanna vegna þess að verið er að brjóta niður síðustu leyfar velferðar í landinu og að sýslumaður skuli reglulega rjúfa friðhelgi íslenskra heimila. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þykir sorglegt að dagurinn skyldi ekki reynast ánægjudagur fyrir þingmenn. Séra Hjálmar telur að kirkjan hefði átt að njóta meiri virðingar á þessum degi. Kirkjan sem varið hefur kynferðislegt ofbeldi og brugðist söfnuði sínum. Einn af forsprökkum hátíðarhaldanna var biskupinn sem óátalið lét kynferðislegt ofbeldi í guðshúsi. Aðgerðaleysi kirkjunnar gerði guðshúsið að ógnvekjandi stað fyrir fórnarlömb ofbeldis. Virðing er tilfinning sem verður til vegna góðrar reynslu en ekki vegna kröfu um virðingu.
Tími Jóhönnu er greinilega að líða undir lok. Friðþægingartal um velferðaríki, sáttmála og endurreisn dugar ekki lengur til þess að sefa reiði þeirra sem nú blæðir. Valdhafar hafa reynt að gera mótmælendur að óvini þjóðarinnar með því að kalla mótmæli ofbeldi sem er rangnefni en hið raunverulega ofbeldið hefur hins vegar verið aðgangsharka að skuldurum og fyrirvinnum í þessu landi.
Á mótmælunum fyrir framan Alþingi var andrúmsloftið magnþrungið og reiðin lá í loftinu. Nýtt fólk er að mótmæla. Þetta er fólk sem er reitt en grundvelli að eðilegu lífi á Íslandi hefur verið kippt undan því. Tugir þúsunda hafa misst atvinnu, enn fleiri eru í raun öreigar og margir eru að missa ástvini úr landi. Það er eitthvað súrrealískt við að stjórnmálamenn pirrist yfir því að fá ekki að éta snitturnar sínar í friði við þessar aðstæður.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
Stjórnsýslufræðingur
Fjárlögin uppkast fremur en stefnumörkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2010 kl. 10:57 | Facebook
Athugasemdir
Flott Jakobína.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 2.10.2010 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.