2012-02-17
Misjöfn örlög manna
Eldri karlar eru meirihluti þeirra sem mótaði samfélag sem einkennist af mismunum og misnotkun á völdum. Í nýlegri frétt af könnun um fátækt í Evrópu kemur fram að mun stærri hópur barna á Íslandi býr í fjölskyldum sem lifa undir fátæktarmörkum en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Í upphafi fólst spillingin aðalega í því að tryggja stjórnmálamönnum og fjölskyldum þeirra einokunarstöðu í viðskiptalífinu. Síðan komust menn upp með að setja lög sem færðu alla áhættuna af lánaviðskiptum yfir á lánþega. Rétturinn til þess að veiða fiskinn í sjónum var færður í fárra hendur. Æði rann á menn og þeir gáfu vinum sínum ríkisbankanna. Hrokinn og hybrisminn var orðinn botnlaus. Þeir máttu allt. Lagaumhverfi var hannað til þess að standa vörð um arðránið.
Flestir þeirra sem frömdu alvarlegustu glæpina á fyrirhrunstímabilinu virðast þó ætla að sleppa. Baldur er þó undanskilinn ásamt fleirum.
Vandinn er meðal annars að sjálfstæðisFlokkurinn hefur um langa hríð lögleitt alls konar glæpastarfsemi með aðstoð þeirra flokka sem setið hafa með þeim í stjórn. Ég birti eftirfarandi pistil á feisbókinni um RÉTTARRÍKIÐ.
Réttarríkið
Í valdatíð sjálfstæðisFlokksins var réttarríkið hannað utan um arðránsmafíuna. Réttarríkið fer mjúkum höndum um stjórnmálamenn sem þyggja mútur. Það kallar ekki á ábyrgð stjórnenda sem skuldsetja fyrirtæki um hundruð milljarða og standa ekki við endurgreiðslur. Það kallar ekki á ábyrgð stjórnenda lífeyrissjóðanna sem héldu uppi háu gengi krónunnar með framvirkum samningum og studdu með því að arðrán var framið í skjóli nætur þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn var tæmdur.
Réttarríkið er sniðið að þörfum forréttindastéttar sem hefur einokunarrétt á rentunni af sjávarauðlindinni. Réttarríkið hunsar mannréttindi, hefur skert atvinnufrelsi og hefur haft að engu frumbyggjarétt í byggðum landsins. Í skjóli reglna réttarríkisins eru aðalega menn og stundum konur valin til embætta í krafti klíkutengsla. Réttarríkið lætur sig litlu varða um öryggi neytenda og styður það að innihald eiturefna í neysluvöru sé haldið leyndu fyrir neytendum.
Okurlánastarfsemi á íbúðamarkaði er lögleidd á Íslandi. Réttarkerfið hefur ekki ráðið við að draga menn til ábyrgðar fyrir samráð á olíumarkaði. En gríðarlegur kostnaður hefur hlotist af samráði á fákeppnismarkaði fyrir minni og meðalstór fyritæki og fjölskyldurnar í landinu. Stórar verslunarkeðjur beita birgja þvingunum í krafti stærðar sinnar. Klíkuráðningar í hæstarétt þykja ekki tiltökumál og dómar á Íslandi bera það með sér að dómskerfið dregur taum valdsins og mannréttindi eru hunsuð.
Ráðherrar sjálfstæðisFlokksins hafa gengið erinda aðila með þrönga hagsmuni og hafa komið hagsmunamálum þeirra í gegnum þingið og þau hlotið gildi sem lög.
Flokkarnir
Núverandi ríkisstjórn tók við rústum þess sem kalla má eðlilegt réttarríki. Margir bundu vonir við að menn myndu bretta upp ermarnar í kjölfar kosninga árið 2009 og reisa við hér það sem kalla mætti norrænt velferðarsamfélag. En ríkisstjórn Jóhönnu brást í þeim efnum. Inngróin ölmusuhyggjan og þjónkun við fjármagnið hefur ekki leyft miklar breytingar.
Ég velti því stundum fyrir mér hvort að stefnumál stjórnmálaflokkanna séu blekking ein. Stjórnmálaflokkarnir virðast vera stofnanir sem veita sérhagsmunahópum farveg til valda. Í prófkjörum mæta hópar sem eru forsvarsmenn þröngra hagsmuna inn í alla flokkanna og hefja blekkingaleikinn. Stefna flokksins skiptir þá litlu máli en þeir berjast um að komast inn og síðan fyrir að koma þröngum sérhagsmunum í gegnum þingið. Þessu er stjórnað annars vegar með því að senda rétta fólkið og hins vegar með veglegum gjöfum til kandídata. Þetta getur skýrt þá óværð sem ríkir jafnan innan flokkanna. Dæmi um svona hópa eru LÍÚ, Engeyjarættin og vinir Björgólfs Thors.
Þöggun
Bankahrunið hafði eitt gott í för með sér fyrir íslenska þjóð. Í áratugi hefur valdastéttin innrætt þöggun. Með ofbeldi, uppeldi, hótunum og áróðurfrösum eins og samsæriskenningar hefur fólki verið kennt að þegja. Eftir bankahrunið losnaði almenningur að einhverju leyti úr viðjum þöggunar þótt vissulega megi segja að umræðan megi þroskast og beinast meir að málefnum en liðshyggju. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir forréttindastéttina. Enda geysist hún nú fram á völlinn og gefur álit í pistlum og spjallþáttum.
Málfrelsi er þessum aðilum ógnun enda þarf hátt stig meðvitundarleysis þjóðarinnar til þess að hægt sé að arðræna hana eins og raun ber vitni. Vopn valdhafanna hafa verið leynimakk, blekkingar og þöggun. Til þess að stemma stigum við umræðunni sem ógnar forréttindastéttinni er tjón forréttindastéttarinnar gert að tjóni almennings en í skrifum Helga Jóhannessonar lögfræðings segir hann um umræðuna að: risið hafa upp draugar sem eru að valda þjóðfélagi okkar meira tjóni en hrunið sjálft gerði. Þjóðfélagið okkar í máli Helga er þó ekki þjóðfélagið mitt enda telst ég til almúgans sem er óvarinn af réttarríkinu. Þjóðfélagið okkar sem Helgi vitnar í er hinn myrki kimi þjóðarsálarinnar sem hann talar fyrir.
Valdastéttinni ógnað
Skrif Helga bergmála helstu nöldursstef formanns sjálfstæðisFlokkins um þessar mundir. Eitt helsta áhyggjuefni Helga er að vegið sé að rótum réttarríkisins. Vissulega er umræðan að draga fram helstu drætti af þeirri ómynd sem Helgi vill kalla réttarríki. Helgi gerir að umtalsefni áhyggjur sínar af því að hinir 300 sem bera réttarstöðu grunaðra hjá sérstökum saksóknara fái ekki atvinnu og gagnrýnir að menn séu settir í þessa stöðu. Guðbjörn Guðbjörnsson bendir hinsvegar á á bloggi sínu, réttilega, að 10 til 15 þúsund manns hafa misst atvinnu frá hruni eða flúið land án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Helgi virðist hafa litlar áhyggjur af þessum hópi enda kannski um að ræða fólk sem réttarríki Helga er ekki ætlað að vernda.
Grein Helga er þó afhjúpandi. Dregnir eru saman hagsmunir manna sem grunaðir eru um glæpi, hagsmunir núverandi formanns sjálfstæðisFlokksins og hagsmunir fyrrverandi forsætisráðherra stjálfstæðisFlokksins og bökuð úr því ein kaka. Greinin er eins og játning innan úr hinum helgu véum Valhallar að þar eigi arðránsmafían uppruna sinn.
Dómur yfir Baldri staðfestur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:58 | Facebook
Athugasemdir
Gagnrýni Helga snýst um að í æsingnum eftir hrunið missi fólk sjónar á grundvallaratriðum á borð við að sanna þurfi sekt manna áður en þeir eru dæmdir, ekki sé hægt að breyta lögum aftur í tímann til að klekkja á einstaklingum bara af því maður er á móti þeim og að upphrópanir og samsæriskenningar jafngildi ekki staðreyndum. Þetta eru grundvallaratriði í hverju réttarríki. Þau veita öllum sömu vernd og skiptir ekki máli hvaða stétt þeir tilheyra eða hvaða stöðu þeir gegna.
Þeir tímar hafa komið í sumum löndum að grundvallarreglum réttarríkisins hefur verið vikið til hliðar. Á tímum frönsku ógnarstjórnarinnar nægði að fólk væri grunsamlegt á svipinn til að það væri dregið fyrir dómstól götunnar og drepið með köldu blóði. Flestir þeir sem í hugaræsingi sínum vilja nú afnema réttarríkið vegna þess að það verndar líka þá sem þeim er illa við hugsa einfaldlega ekki nógu skýrt. Þeir gera sér ekki grein fyrir að á endanum gætu þeir sjálfir þurft sárlega á þeirri vernd að halda sem réttarríkið, sem þeir í hugsanaþokunni hatast nú við, veitir þeim. Á endanum át franska ógnarstjórnin börnin sín og það hafa reyndar flestar slíkar byltingar gert.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.2.2012 kl. 14:55
Takk fyrir góðan pistil, Jakobína.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 15:04
Þorsteinn Sigurlaugsson: Frasinn saklaus uns sekt er sönnuð hefur í sjálfu sér mjög litla merkingu og er gróflega misnotaður. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búin að raða sínum mönnum í stóla framkvæmdarvaldsins þá má auðveldlega stýra því hvað sektir eru sannaðar og hvaða sektir eru ósannaðar. Grundvallarreglan heldur því ekki í spilltu umhverfi á borð við það sem hér ríkti á fyrirhrunstímabilinu.
Að lögin gangi jafnt yfir alla eru bara draumórar naums huga sem ekki sér fram úr bókstafskreddum til þess að skoða veruleikann sem fólk býr við.
Íslenska þjóðin býr í einangrun og því hefur verið auðvelt að telja hluta hennar trú um að hún búi við eðlilegt eða sanngjarnt réttarfar en því fer fjarri lagi.
Réttarríkið byggir ekki á innantómum frösum eða hræðsluáróðri eins og þeim sem birtist í athugasemt þinni. Réttrríkið tryggir jafnvægi á milli valdhafa og hins almenna borgara en því fer fjarri að svo hafi verið á Íslandi. Þegar lögin mismuna einstaklingum, þegar dómstólar eru vinavæddir og þegar ráðherrar hafa skipað varðhunda sína inn í stofnanir og embætti þá er réttarríkið ekki til lengur.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.2.2012 kl. 16:11
Hvað áttu við þegar þú segir að það hafi litla merkingu að fólk sé saklaust þar til sekt þess er sönnuð?
Hvað kemur framkvæmdavaldið sönnun sektar við, er það ekki dómstóla að skera úr um slíkt?
Hvers vegna heldur þú því fram að það séu draumórar að allir séu jafnir fyrir lögum? Hefur þú einhverjar sannanir fyrir því, einhver dæmi?
Hvers vegna fullyrðir þú að íslenska þjóðin sé einangruð?
Af hverju heldur þú að réttarríkið snúist um að tryggja eitthvert jafnvægi þegar allir vita að það snýst um að tryggja almennum borgurum vernd gagnvart valdhöfum?
Hvers vegna fullyrðir þú að lögin mismuni einstaklingum? Hvaða lög eru það sem mismuna einstaklingum?
Hefur þú yfir höfuð hugsað út í einhverjar af þessum spurningum og gert tilraun til að svara þeim af skynsemi og heiðarleika?
Þorsteinn Siglaugsson, 17.2.2012 kl. 23:24
Ef mál eru ekki rannsökuð þá er engin hætta á að sekt sé sönnuð.
Því er það þannig að ef þeir sem skipa stöður og embætti eru ekki trúir hlutverki sínu þá missir þessi frasi gildi sitt. Því miður hefur þetta verið raunin á Íslandi. Það er ekki sama hver gengur inn um dyrnar á lögreglustöðinni jón eða séra jón. Mál eru því oft dauð frá byrjun.
Það eru eingöngu þeir sem eru vel fjáðir sem geta sótt rétt sinn. Þetta er sérstaklega alvarlegt á Íslandi þar sem dómar hæstaréttar taka yfirleitt stöðu með valdinu og einstaklingar hafa oft þurft að leita réttar síns hjá erlendum dómstólum hvers niðurstöður eru svo hunsaðar af íslenska ríkinu.
Menn eins og t.d. Bjarni Ben líta á það sem ofsóknir að vafningssamar gjörðir þeirra séu rannsakaðar en keyra svo með frasann saklausir uns sekt er sönnuð. Hlægilegt ekki satt? Má ekki rannsaka en það er frumforsenda þess að brot séu sönnuð.
Líttu á landakortið. Láttu þér ekki detta í hug að fólk læri á lífið í gegnum tölvur. Einangrunin felst meðal annars í því að fjölmiðlun hefur verið gagnrýnislaus og áróðurskennd. Fjölmiðlafólk almennt illa menntað. Valkostir fólks ekki fjölbreyttir.
Orðaskak. Auðvitað ríkir jafnvægi ef réttarríkið tryggir borgurum vernd gegn valdinu. Ójafnvægið á Íslandi var slíkt að allt hrundi á endanum.
Lög um kvótakerfið mismuna einstaklingum.
Mismunun er ekki bara lögboðin á Íslandi. Hún er ennfremur tryggð með því að valdhafar hunsa stjórnsýslu- og jafnréttislög og jafnvel stjórnarskrána.
Ég held að það komi fram einhvers staðar hér á síðunni að ég er stjórnsýslufræðingur. Hef lokið við fjögurra ára menntun í þeim fræðum í Gautaborg. Síðasta spurning þín er því hrokafull og kannski táknræn fyrir þá sem verja þann ófögnuð sem valdakerfið á Íslandi er.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.2.2012 kl. 01:45
Til Þorsteins. Þegar maður hefur misst tenginguna við raunveruleikan sem stærsti hluti þjóðarinnar lifir í, verða til skoðanir sem eru næstum einfeldningslegar í augum fólk sem lifir í þessum alvöru raunveruleika dagsdaglega.
Þér er alveg óhætt að trúa því sem Jakopína segir því það er allt satt. Ef þú hefur áhuga á sjálfum raunveruleikanum, vertu heiðarlegur ef þú mátt, þorir eða hefur nokkurn annan áhuga á samfélaginu enn að græða á því...
Allt venjulegt fólk tekur þessu sem þú skrifar Þorsteinn, eins og að þú annaðhvort hæðist að því, eða sért svona hræðilega einföld sál sem lifir í einangruðum draumaheimi. Vonandi ertu bara einföld sál og heiðarleg...
Óskar Arnórsson, 18.2.2012 kl. 08:17
Ég held að það þjóni litlum tilgangi að reyna að fá þig til að hugsa skýrt. Bara svarið við fyrstu spurningu minni, hvað þú meinir með því að sú grundvallarregla réttarríkisins að maður sé saklaus þar til sekt hans er sönnuð sé merkingarlaus, sýnir hversu moðkennd hugsun þín er. Svarið tengist nefnilega spurningunni ekki neitt. Aðeins er fullyrt að sekum mönnum sé forðað undan dómi, sem er einfaldlega allt annað mál og kemur spurningunni ekkert við.
Þú virðist álíta skólagöngu þína gera þig merkilegri en annað fólk. Sama mátti sjá í ótrúlega ruddalegri árás þinni á Sighvat Björgvinsson í Fréttablaðinu um daginn. Því miður sleppur ýmislegt í gegnum nálaraugu háskólanna, sérstaklega í hinum moðkenndari fræðigreinum. Hér höfum við lifandi dæmi um það, því miður.
Þorsteinn Siglaugsson, 19.2.2012 kl. 00:57
Þorsteinn þú er greinilega að grípa til þeirra lágkúrulegu aðferðar sem einkennir fólk með vondan málstað, að ráðast á persónuna. Það má svo sem ýmislegt að mér finna en það að ég þurfi þína aðstoð til þess að hugsa skýrt missir algjörlega marks. Ein af ástæðunum fyrir því að ég gat lokið við að skrifa doktorsritgerð er sú að ég á ekki í nokkrum vandræðum með að hugsa skýrt. Frasinn saklaus uns sekt er sönnuð virkar einfaldlega ekki nema til staðar sé kerfi sem styður rannsókn, ákæra og dómsmeðferð og að þetta kerfi virði alla að jöfnu sem er svo sannarlega ekki reyndin á Íslandi.
Það er einstaklega heppilegt fyrir valdið að nota þennan frasa sem gefur til kynna að glæpurinn sé ekki framinn fyrr en við dómsuppkvaðningu. Með því að nota þennan frasa er verið að slengja því framan í fólk að þeim komi glæpirnir ekkert við fyrr en þeir hafi farið í gegnum maskínu valdsins.
Ég vil að þú svarir einni spurningu og gerir það skýrt: Ber þá fórnarlambið engan skaða fyrr en sekt er sönnuð.
Ég veit ekki hvort að þú gerir þér grein fyrir því að í réttarríki hefur ríkið lögvarinn rétt til þess að beita ofbeldi. Þegar einstaklingarnir sem stýra kerfinu eru spilltir þá fer þetta ofbeldi úr böndunum, sbr. bankahrunið og búsáhaldabyltinguna.
Ég held að þú sért betra dæmi um fólk sem sleppur ómenntað út úr menntakerfinu en ég. Frasanotkun hefur ekki þótt sérleg vísbending um rannsakandi og gagnrýninn huga. Ég bendi þér á að lesa Max Weber og Albert Schultz. Max er upphafsmaður að hugtakinu "ideal types" og Schultz gerir því síðan ágæt skil með constructivískri nálgun. Ef þú vilt síðan auka skilning þinn á valdinu bendi ég þér á franska félagsfræðinginn Foucault.
Þú afhjúpar vel hroka þinn þegar þú gefur í skyn að þú sér betur hæfur til þess að meta verk mín en Háskóli Ísland sem gaf mér 9 fyrir mastersverkefnið mitt og erlendir háskólar sem hafa samþykkt mín lokaverkefni. Annað lokaverkefni mitt í Gautaborg (Kand.Mag.) verkefnið studdist við megindlega aðferðafræði sem er aðferðafræði raunvísindanna. Hitt verkefnið sem ég lauk við í viðskiptafræði er kandidatsritgerð. Doktorsverkefni mitt er í ferli við erlendan háskóla og valdir eru viðurkenndir sérfræðingar sem eru í fararbroddi á sviðinu í prófnefnd og ekkert er gefið eftir í prófferlinu/vörninni. Umsögnin sem verkið hefur fengið er að það sé vel unnið og gegnum hugsað (skýr hugsun).
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 11:22
Ps. Reyndar hefur Bjarni Benediktsson notað þennan frasa þannig að menn séu ógrunaðir þar til sekt er sönnuð. Það má jafnvel túlka málflutning hans þannig að ekki megi ræða gjörninga hans nema þær hafi farið í gegn um maskínu valdsins.
Allur hans málflutningur beinist að því að ráðast á málfrelsi og skoðanafrelsi en að halda athyglinni frá þeirri atburðarrás sem menn vilja ræða en hann vill ekki að sé rædd.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 11:44
Ég nenni nú eiginlega ekki að eiga við þig orðastað. Mér leiðist að rökræða við fólk sem getur ekki rökrætt, sbr dæmið sem ég nefndi að ofan.
Ég skal svara spurningu þinni: Fórnarlamb glæps verður vitanlega fyrir skaða um leið og glæpurinn er framinn. Hvernig það á að réttlæta refsingar án dóms og laga (eins og mér sýnist þú vilja) fæ ég ekki séð. Ef hugsun þín væri skýr skildir þú vitanlega að verði krafan um sönnun sektar felld úr gildi verður enginn lengur öruggur fyrir ofbeldi ríkisvaldsins. Tilgangur réttarríkisins er að veita almenningi þetta öryggi. Vitanlega getur spilling þrifist og vitanlega eru mannanna verk ekki fullkomin, en hvernig það á að réttlæta afnám grundvallarmannréttinda og lágmarksöryggis gagnvart ríkisvaldinu er útilokað að sjá
Þetta skilur allt bærilega skynsamt fólk. Bið ég þig nú vel að lifa.
Þorsteinn Siglaugsson, 19.2.2012 kl. 14:55
Ég verð að játa að innlit þín benda til annars en að þú nennir ekki að eiga við mig orðastað. Ég er ekki hrifin af því að fara í persónuna en ég verð þó að benda þér á það að þú þurfir að læra að lesa þér til skilnings ef þú mistúlkar texta minn þannig að ég sé hlynnt því að mönnum sé refsað án dóms og laga. Ég er ekki að ræða refsingar eða dóma. Ég er að ræða hugtakanotkun. Hugtakið "saklaus uns sekt er sönnuð" sem er gróflega misnotað. Ég hvergi í mínum texta vikið að því að refsa ætti mönnum án sannana. Ég hef hvergi rekist á það að nokkur kona eða maður sé hlynntir því að krafan um sönnun sektar sé felld úr gildi. Það þýðir þó ekki að boðlegt sé að menn feli sig á bak við frasa.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 15:12
Grein Helga Jóhannessonar er einmitt um mikilvægi þess að haldið sé við grunnreglur réttarfarsins og forðast að dæma menn án þess að sekt þeirra sé sönnuð. Hvað hefur þú þá við málflutning hans að athuga, sértu sammála því?
Þorsteinn Siglaugsson, 19.2.2012 kl. 16:38
Ég er að segja að þessi frasi sé misnotaður eða notaður í samhengi þar sem hann á ekki við. Helgi tekur sem dæmi menn sem hafa stöðu grunaðra á meðan rannsókn stendur yfir. Hvernig er hægt að dæma menn ef það má ekki rannsaka þá.
Ekkert af dæmunum sem Helgi nefnir er maður sem hefur verið dæmdur án sönnunar.
Menn (sjálfstæðisMenn) virðast vera að reyna að búa til þann skilning að ekki megi rannsaka athafnir manna fyrr en sekt þeirra er sönnuð.
Hugmyndafræði sem er verið að reyna að koma inn í þjóðarsálina eftir að hundruðir sjálfstæðismanna eru grunaðir um glæpi eftir að hafa sett þjóðarbúið á hausinn.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 17:06
Hvernig er hægt að dæma menn ef það má ekki rannsaka þá. Á að vera öllu heldur: hvernig er hægt að sanna sekt manna ef ekki má rannsaka athafnir þeirra?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 17:08
Það hefur enginn gert athugasemd við að mál séu rannsökuð. Það hafa verið gerðar athugasemdir við að mál séu í rannsókn árum saman án þess að neinar líkur séu á ákæru. Þetta sjá lögmenn þeirra sem til rannsóknar eru best og því kannski ekki óeðlilegt að þeir tjái sig um það.
Þú hefur fullyrt hér hvað eftir annað að Bjarni Ben sé á móti því að einhver mál séu rannsökuð. Ég hef ekki séð það, þótt ég vilji ekki taka neina afstöðu til hans mála að öðru leyti. Það hefur enginn séð það. Það hefur enginn heyrt það heldur. En samt sem áður fullyrðir þú slíkt. Það skiptir þig kannski ekki miklu máli hvort þú segir satt eða lýgur. Það er auðvitað svo póstmódernískt og smart að bera takmarkaða virðingu fyrir sannleikanum, ekki satt?
En þú ættir kannski að reyna að rifja það upp þegar þú bölsótast yfir glæpum þess einstaklings að það eina sem hann hefur verið sakaður um er að skrifa undir einhverja lánasamninga í umboði annarra. Af þessu dregur þú vægast sagt víðtækar ályktanir og er þá minna sagt en mætti.
Þorsteinn Siglaugsson, 19.2.2012 kl. 21:43
Bjarni Ben er ekki á móti því að einhver mál séu rannsökuð. Bjarni Ben er á móti því að sín mál séu rannsökuð eða það hefur hann alla vega sagt opinberlega.
Hvað varðar mál Bjarna þá skil ég ekki hvað þú átt við með í umboði annarra. Í umboði Hverra?
Var hann ekki að skrifa undir fyrir hönd Vafnings og var hann ekki stjórnarmaður eða stjórnarformaður vafnings.
Var tilgangurinn ekki að fara á svig við útlánareglur Glitnis?
Var tilgangurinn ekki að koma í veg fyrir að Morgan Stanley tækju veðið sem var hlutabréf í Glitni og settu þau á markað og sem ylli því að hlutabréfaverð lækkaði?
Var þetta ekki markaðsmisnotkun?
Var vitneskja Bjarna um þetta ekki innherjavitneskja?
Seldi Bjarni ekki hlutabréfin sín í sama mánuði?
Getur Bjarni sem lögfræðingur og stjórnarformaður borið fyrir sig grandaleysi?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2012 kl. 23:27
Stórmerkileg umræða og gaman að fylgjast með þessu. Væri Þorsteinn í framboði fengi hann ekki mitt atkvæði. Einfaldlega vegna þess að ég myndi ekki treysta honum sem pólitíkusi. Sem einstaklingi ábyggilega, enn aldrei til fara með mitt umboð. Ég myndi hinsvegar treysta Jakobínu á þing....
Valhallarmafían má eiga það að þeir fylgja næstum alltaf lögunum. Lögum sem þeir setja sjálfir sér til þæginda. Þetta gengur allt vel og Sjálfstæðismenn eru sumir svo gjörsamlega meðvitundarlausir að þeir trúa því sjálfir að þeir séu saklausir af öllu.
Þeir lifa í öðrum veruleika enn venjulegt fólk, veröld sem er fullt af hroka, stærlæti og mikið af monti.
Skipulögð glæpastarfsemi gerist varla betri enn hún er á Íslandi. Verðtryggingarsvindl, sala og veðsettning á óveiddum fiski er hægt að finna alla leið til banka í Tokyo, olíusamráð og endalaus önnur þvæla. Bankar eru eftirlitslausir og gjörspilltir, seldir til súpergangstera þegar buið er að fylla þá með skatta- og lífeyrissjóðspeningum.
Málið er að allir glæpir eru spurning um spillt og illt hugarfar og ekki hvaða reglum er fylgt. Heldur með hvaða hugarfari hlutirnir eru gerðir.
Hvorki Bjarni Ben né sjálfstæðismenn yfirleitt eru neitt á því að hætta rányrkjunni í formi kvótakerfis eða verðtryggingunni því Sjálfstæðisflokkurinn er orðin háður glæpaverkum sínum , "tekjum sínum" eða þjófagóssi eins og það heitir á réttu máli. Það þarf ekkert að sanna neitt frekar að þetta eru glæpir. Enn þetta eru "löglegir glæpir" enn afleiðingarnar eru jafn hroðalegar.
Fólk verður ekkert fínt á því einu að geta skipulagt rán á þjóðinni og afsakað síðan bullið með lögum og pólitík. Það sem er gott við bankahrunið að fólk hefur fengið áhuga á því hvaða fólk er eiginlega við stjórn þessa lands. Og pólitíkusar eru skoðaðir útfrá hvernig manneskur þeir eru og ekki hversu duglegir að fylgja lögum og reglum sem þeir settu flestir sjálfir.
Langar biðraðir eru á Íslandi eftir mat, hópur fátækra verður stærri vegna frekju, nísku og hugarfars þeirra sem stjórna. Það þarf ákveðna tegund af grimmd til að hafa völdin og horfa upp á þessa þjóðarskömm sem þetta er.
Enn yfirvöldum er alveg sama og hefur alltaf verið. Það virðist engu máli skipta hvort stjórnin séu kommúnistar eða Sjálfstæðismenn. Peningavöldin sem standa fyrir utan ráða raunverulega málum hvaða Ríksstjórna sem er. Þess vegna er allt tal um lýðræði út í loftið, meðan ástandið er svona sjúkt í landinu.
Menn verða ekki dæmdir fyrir að vera með sjúkt og spillt hugarfar. Ekki dæmdir fyrir að vera lyglaupar heldur. Fólk þarf samt að hjálpast að við að hreinsa út svona fólk úr öllu embættismannakerfinu eins og það leggur sig.
Fólk af þessari sort er oft illskeytt, hrokafullt og gráðugt. Eitt einkenni þeirra er níska. Bara venjuleg gamaldags níska sem kemur upp um það aftur og aftur....svo eru mörg önnur einkenni sem hægt er að draga fram eins og drottnunargirni, sjúkleg forvitni og margt annað ....
Óskar Arnórsson, 19.2.2012 kl. 23:54
Þakka þér fyrir Óskar, Kjarnyrt og vel mælt.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 00:02
Ég veit ekki hvaðan þú hefur þær upplýsingar að Bjarni eða einhver annar hafi andmælt því að mál væru rannsökuð. Þú hefur þær væntanlega frá sömu heimild og þær upplýsingar þínar að hann hafi setið í stjórn Vafnings. Það gerði hann ekki. Sé sú stjórnarseta rótin að ásökunum þínum stendur ekki mikið eftir af þeim því miður. Og ekki virðist nú mikið standa eftir af fimbulfambinu um grein Helga Jóhannessonar, þegar á endanum kemur í ljós að þú treystir þér ekki til þess, þegar upp er staðið, að fara gegn þeim grundvallarmannréttindum að ekki sé hægt að dæma fólk nema sekt þess hafi verið sönnuð. Það hvort Helgi nefni einhverja menn sem hafi verið dæmdir án sönnunar kemur máli þessu einfaldlega ekkert við. Gagnrýni hans snýst um að í því fjölmiðlafári sem nú stendur yfir sé nauðsynlegt að dómstólar og rannsakendur standi í lappirnar og forðist að láta æsingalið á borð við þig og fleiri, sem vaða fram með ósannindi og dylgjur, hafa áhrif á sig.
Já, Óskar, ég held að það væri snilldarbragð að fá einmitt svona fólk inn á Alþingi. Fólk sem veður fram með innstæðulausar ásakanir gagnvart nafngreindum einstaklingum og er ófært um að hugsa heila hugsun til enda. Það eru fáeinir slíkir þar fyrir. Þeim veitir væntanlega ekki af félagsskapnum.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2012 kl. 09:37
Við lifum í ólíkum heimum Þorsteinn. Annaðhvort sækja sérstakir persónuleikar í þennan"gerfiheim Alþingis" eða þeir verða svona af sjálfum félagskapnum. Ég kalla Alþingisheimin fyrir "gerfiheim" af sérstakri ástæðu.
Og þú eiginlega staðfestir þennan "gerfiheim" sem ég er að tala um Þorsteinn með þínum skrifum. Ég held að vandamálið sé oft sú afneitun sem miklir peningar búa til hjá fólki á raunveruleikanum. Málið er að venjulegt fólk á Íslandi er oftast alveg sama ef yfirvöld og gráðugir viðskiptamenn leika sér að peningum þeirra.
Enn þegar græðgin er orðin svo mikil að fólk er svift tilverurétti sínum í þúsundavís, koma viðbrögð sem ekki er séð fyrir endan á. Bjarni er symbol fyrir spillingunna í Valhöll og hjá Sjálfstæðisflokknum almennt. Þetta vafningamál og lánamál eru næstum smámál við allt annað sem hefur tengst hans fólki í gegnum tíman.
Það þarf ekki endilega að vera um bein lögbrot að ræða, þó það sé líka til. Enda verða mál ekki löguð á Íslandi með því að elta alla sem brotið hafa af sér. Til þess er spillingarástandið of alvarlegt og of víðtækt. Það þarf til hugarfarsbreyting sem þarf að koma frá hverjum og einum. Suma verður bara að stoppa með öllum ráðum og þá vonandi sjá hinir að sér.
Það þarf ótrúlega samtryggingu til að hafa þetta svona gjörspillt og andstyggilegt. Bara sem dæmi þá tók það Mafíuna á Ítalíu áratugi að skilja að þeir voru glæpasamtök. Það var ekki fyrr enn synir gömlu mannan fóru að selja eiturlyf að pólitíkusar snéru baki við Mafíunni.
Það er að sjálfsögðu rétt að það á ekki ljúga upp á fólk og draga vitlausar ályktanir. Ég get ekki séð að Jakobina geri það nokkurstaðar. Hún leggur þetta fram mjög skýrt og ákveðið. Þú aftur á móti reynir að nota þokukennda frasa og villandi áherslur þegar þú ert að andmæla henni.
Fólk sem vinnur að heilindum á Alþingi kemst líklegast ekkert áfram með sín sjónarmið. Grimmd þeirra sem sitja og vakta sérhagsmuni sýna á Alþingi eru bæði sleipir og illvígir.
Þeir eru margir hverjir Alþingismennirnir okkar frábærir leikarar sem ég held að fólk sé farið að sjá í gegnum núna. Það kemur í ljós í næstu kosningum.
Óskar Arnórsson, 20.2.2012 kl. 11:32
Hverjir eru þessir þokukenndu frasar og villandi áherslur?
Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2012 kl. 12:22
Sjálfstæðismenn rífa bara kjaft þegar Vafningsmálið er rætt og Bjarni líka. Rökin eru það er búið að útskýra þetta og því má ekki ræða þetta. Jæja ég ætla ekki að hlýða fyrirmælum sjálfstæðisFlokksins og ræði þetta mál þegar mér sýnist og held því áfram þangað til mér eru allir þræðir málsins ljósir.
Helgi þú nefnir ekki hvernig Bjarni tengist stjórn Vafnings. Var hann stjórnaarmaður í móðurfélaginu?
Var faðir hans í stjórn eða stjórnarformaður vafning?
Hver var forstjói Vafnings?
Var Vafningur skúffufyrirtæki.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 12:29
Að lokum vil ég hvetja fólk sérstaklega þá sem hafa kosið sjálfstæðisflokkinn til þess að kjósa eitt af þeim nýju stjórnmálaöflum sem eru að bjóða fram.
Boðorðið fyrir næstu kosningar ætti að vera: Fjórflokkinn í stjórnarandstöðu.
Eingöngu þannig getum við fengið samfélag sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 12:32
Þorsteinn þú spyrð: hverjir eru þessir þokukenndu frasar og villandi áherslur?
Í fyrsta lagi: Þú ert margoft búin að ráðast á mína persónu í stað þess að halda þér við málefnið. Þetta er nokkuð algegnt í vörnum sjálfstæðisManna sem hafa lélegan málstað að verja. Þeir hafa lært að beina athyglinni frá málefninu með því að ráðast á andstæðinginn og oft með rætnu andlegu ofbeldi.
Í öðru lagi: Í stað þess að verjast því sem ég segi þá ferðu að búa til eitthvað nýtt sem þú heldur fram að ég hafi sagt. Eitthvað sem þú telur að þú getir ráðist á en þetta sýnir einmitt að þú treystir þér ekki til að verjast því sem ég segi og er rétt.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 12:43
Búa til hvað nýtt, væna mín? Ráðast á þína persónu? Það hef ég einmitt ekki gert, ólíkt þér. Ég dreg aðeins ályktanir af því sem þú segir og þeim ofstopafulla og röklausa málflutningi sem þú beitir. Þvert á móti hef ég reynt að beina athygli þinni að kjarna málsins og jafnframt að benda á þær rangfærslur sem þú hefur uppi. Þú virðist halda að rökræða snúist um að varpa fram fullyrðingum án þess að kynna sér mál og það nægi til rökstuðnings að vísa í hvaða próf maður hafi klárað í skólanum.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2012 kl. 13:37
Að kalla málflutning minn ofstopafullan og röklausan er einmitt aðferð andlegs ofbeldis. Gera lítið úr mótherjanum í stað þess að halda sig við málefnið. Lítill sómi að þessu.
Ég vil líka benda þér á Þorsteinn að þú kallar spurningar fullyrðingar sem er eitt af þeim tækjum sem þú notar til þess að leiða umræðuna á villigötur. Og aftur aðferð hins rökþrota manns.
Hvers vegna svarar þú ekki spurningum mínum?
Þola svörin ekki dagsbirtuna?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 13:46
Bíð bara eftir að þú kastir stóru bombunni: Samsæriskenningar.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 13:48
Þetta er nú bara að verða fyndið. Fullyrðingar ("var hann kannski ekki... ?!!") orðnar að spurningum. Og nú er það orðið andlegt ofbeldi að gagnrýna málflutning þinn. Ég held að ég láti hér staðar numið.
Ps. Ég svara vitanlega ekki spurningum sem ég veit ekki svörin við. Það er kannski munurinn á okkur.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2012 kl. 14:09
Munurinn á okkur er að ég vil svar við spurningum sem þú og aðrir sjálfstæðisMenn vilja ekki að sé svarað.
Málflutningur þinn hér er álíka átakanlegur og snökt Bjarna.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 14:22
Sjáðu til Þorsteinn. Það er svo langt á milli hvernig við hugsum að þú myndir líklegast ekki skilja hvað ég væri að fara. Ég skal samt reyna.
Mér finnst pólitíkusar og þú núna "blanda kortunum" í umræðunni og "gefa undan stokknum" eins og það er kallað þegar menn nota frasa eins og "Engin er sekur fyrr enn sekt hans" þegar málefnið er ekkert um það atriði.
Það á samt að reyna að láta það skipta máli. Það er "þokufrasi" og oft notaður í venjulegri "hundalógik" og að sjálfsögðu í pólitíkinni. Málið er að margir pólitíkusar falla í þá gryfju að vera óskaplega gáfaðir. Svo eru þeir það ekki neitt, enn það vita þeir að sjálfsögðu ekki. Þeir bera sig saman við fólk sem er með sama hugsunarhátt og ef einhverjum verur á að vera ósammála, þá er sá hinns sami afgreiddur sem vitleysingur.
Það er eins og Snorri i betel sem kallar samkynhneigða fyrir synduga sem munu deyja ef þeir láti ekki af "ósiðum" sínum. Svo vitnar hann í Biblíunna máli sínu til stuðnings sem er samtímis sönnuninn um að hann hafi rétt fyrir sér og allir aðrir rangt. Það er margt líkt með trúarbrögðum og pólitík.
Og að nota þennan fræga frasa "engin er sekur þar til sekt hans er sönnuð" þegar talað er um spillingu á þennan hátt sem Jakobina skýrir svo rétt frá, er bara barnalegt og eingöngu til þess fallið að villa um í áherslum.
Það er ekkert óréttlæti falið í að diskutera Bjarna Ben. Hann þarf á því að halda. Það er hroðaleg spilling í gangi á Íslandi og það síðasta sem þarf á að halda er að það komi menn og það sé ekkert hægt að "sanna" neina spillingu og þess vegna sé hún ekki til ...
Óskar Arnórsson, 20.2.2012 kl. 15:29
Málið snýst um að Helgi Jóhannesson lögmaður skrifaði grein þar sem hann varaði við því að fólk missti sjónar á grundvallarmannréttindum í æsingi sínum við að draga hina og þessa til ábyrgðar. Síðuhafi staðhæfði svo, til andsvars, í pistli sínum að réttarríkið væri "sniðið að þörfum forréttindastéttarinnar", "hunsa[ði] mannréttindi" og léti sig litlu varða öryggi neytenda, svo eitthvað sé nefnt. Kvaðst hún jafnframt "óvarin af réttarríkinu".
Allur þessi vaðall bendir ekki til annars en að síðuhafi hafi einfaldlega ekki hugmynd um hvað réttarríki er.
Það sem ég hef reynt að leiða henni, og eftir atvikum þér, fyrir sjónir er að réttarríki er einfaldlega ríki þar sem ákveðin grundvallarmannréttindi eru varin og að hvernig sem allt veltist verðum við að forðast að ýta þessum mannréttindum til hliðar. Það gildir jafnt á tímum þegar spilling veður uppi og þegar hún er í lágmarki. Ég hef jafnframt bent á að þegar grunnréttindum hefur verið ýtt til hliðar, gjarna í kjölfar þjóðfélagsbyltinga, hefur spillingin einmitt farið úr hófi fram enda er þá ekkert sem verndar fólk fyrir ofríki valdhafanna.
Þér finnst þessi varnaðarorð aðeins vera innantómir frasar. Skoðun þín er röng, en viljir þú hanga á henni verður svo að vera.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.2.2012 kl. 17:54
Ég benti þér Þorsteinn á að lesa Max Weber og nálgun hans á hugtakið ideal types. Ég sé að þú hefur ekki farið að ráðum mínum.
Án þess að vísa sérstaklega til Webers þá rúma hugtök sjaldan þann flókna veruleika sem stendur að baki hugtökunum. Eru einföldun á hinum empíriska veruleika.
Nú virðast þú og ýmsir sjálfstæðismenn hafa tekið sér forræði yfir hugtakinu réttarríki. Viljið einfalda merkingu þess á þann hátt að það gegni fyrst og fremst því hlutverki að vernda hvítflibbaglæpamenn. Að mannréttindi skipti ekki máli nema forréttindastéttin eigi í hlut.
Ég tel mig ekki vera varða af réttarríkinu á meðan sífellt er brotið á þjóðinni og hún nýtur ekki stjórnarskrárvarins réttar vegna spillingar valdhafa.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.2.2012 kl. 19:15
Þú leggur mér orð í munn, væna mín, og það er ekki í fyrsta sinn: Ég hef hvergi sagt að réttarríkið eigi aðeins að vernda hvítflibbaglæpamenn eða mannréttindi eigi aðeins við forréttindastéttina. Nú veit ég ekki hvort um vísvitandi ósannindi er að ræða hjá þér, eða hvort rökleiðsla þín er á þá leið að eigi réttarríkið að vernda alla, meðal annars þá sem grunaðir eru um hvítflibbaglæpi, hljóti það að merkja að það eigi aðeins að vernda þá. En það er sama hvor skýringin er rétt, þú ert ekki viðræðuhæf.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.2.2012 kl. 12:27
Þorsteinn, ég hef einfaldlega ekki séð þig eða aðra sjálfstæðismenn rjúka upp til handa og fóta þegar mannréttindi eru brotin á almenningi. Jú ég dreg mínar ályktanir af þessu.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.2.2012 kl. 13:47
Sú staðreynd að verðtrygging er enn lögleg á Íslandi er nóg sönnun um að Ísland er ekkert réttarríki...svo eru endalaus önnur mál sem styðja þá staðreynd eins og kvótasvindlinð og dæmalaus lánamál án nokkura veða .... þetta myndi aldrei vera liðið í neinu alvöru réttarríki...
Óskar Arnórsson, 21.2.2012 kl. 16:55
Amen
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.2.2012 kl. 19:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.