Það sem skiptir máli í rústabjörgun

Ég sakna þess að sjá ekki umræðu um gjaldeyrishöftin sem grundvallast á þekkingu og skilningi á aðstæðum þjóðarbúsins. Miklir hagsmunir og stórir leikarar eru á þessu sviði þjóðmála. Mikið fjármagn, sumir segja um 1000 milljarðar bíða þess að komast úr landi og sumir kalla þetta óþolinmótt fé en aðrir snjóhengju. Eigendur jöklabréfa eru stórir leikendur á þessu sviði en lífeyrissjóðirnir hafa verið notaðir til þess að skera einhverja þeirra úr snörunni. Já, blessaðir lífeyrissjóðirnir eru mikils megnugir ef undan er skilið að þjóna eigendum sínum, þ.e. launþegum.

En hverjir eiga hið óþolinmóða fjármagn? Þetta er grundvallarspurning sem varðar það hverjum megi taka mark á sem tala fyrir afnámi gjaldeyrishafta eða einhliða upptöku gjaldmiðils. Það er ekkert leyndarmál að ríkisstjórnin hefur tekið um 1000 milljarða lán í erlendum gjaldmiðli sem geymdur er á bankareikningi að hluta eða öllu leyti í Bandaríkjunum. Þessi skuld ber háa vexti og vaxtamismunur er þungur baggi á ríkissjóði og grefur undan velferðarkerfinu.

Spilað með sparifé launþega

Fyrir hrun gerðu bankarnir framvirka gjaldeyrissamninga við lífeyrissjóðina. Í gegnum lífeyrissjóðina tóku launþegar á sig gengisáhættu og héldu uppi gengi krónunnar á sama tíma og eigendur bankanna voru að færa gjaldeyri út úr hagkerfinu til erlendra fjárfestinga. Við þetta má segja að myndast hafi gengisbóla. En bólurnar sem sprungu á Íslandi haustið 2008 voru margþættar.

Ef gjaldeyrishöftin væru afnumin í dag myndu eigendur óþolinmóða fjármagnsins sækja þá fjármuni sem ríkissjóður hefur tekið að láni í erlendum gjaldmiðli og koma þeim úr landi en það félli á skattgreiðendur að greiða höfuðstólinn sem er um 1000 milljarðar auk vaxtakostnaðar. Hin fámenna valdaelíta á Íslandi hefur komist upp með um langa hríð að grafa undan íslensku efnahagslífi með ítökum í sparifé landsmanna og með því að stjórnvöld hafa tryggt henni einokunarstöðu og skattaívilnanir sem leitt hefur til þess að fjármunir hafa sótt í þröngan farveg og í vasa hinna efnameiri. Staðan er þannig í dag að genginu er haldið uppi með gjaldeyrishöftum en raungengi krónunnar er töluvert lægra en hið skráða gengi og mun ekki rétta sig af á meðan óþolinmótt fé bíður átekta eða með öðrum orðum á meðan snjóhengjan vofir yfir þjóðarbúinu. Afnám gjaldeyrishafta myndi því þýða, miðað við núverandi stöðu þjóðarbúsins, gengishrun og óðaverðbólgu.

Að komast úr skuldabaslinu

Leið Íslands upp pittinum sem gerræðislegt atferli valdaelítunnar á fyrirhrunstímanum sökkti þjóðargbúinu í felur í sér að ná upp jákvæðum viðskiptajöfnuði. Til þess að ná upp jákvæðum viðskiptajöfnuði þurfa stjórnmálamenn að spyrja réttra spurninga og þora að standa með almenningi þegar það kemur að því að taka ákvarðanir.

Innflutningur á vöru og þjónustu og vextir af erlendum lánum er helsti bagginn á þjóðarbúinu hvað varðar viðskiptajöfnuð. Útflutningsgreinarnar eru helsta von þjóðarinnar um að afla megi gjaldeyris og greiða niður skuldir eða safna gjaldeyrisvaraforða. Sú staðreynd blasir við í dag að gjaldeyrsvarasjóðurinn er jafn tómur og hann var haustið 2008. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er eins og heimili margra Íslendinga bara þykjustunnieign sem er í raun eign lánadrottna. Eins og yfirveðsettar fasteignir draga úr lífsgæðum einstaklinga dregur hann úr lífsgæðum þjóðarinnar.

Samkvæmt því sem fram hefur komið ættu útflutningsgreinarnar að vera helsti máttarstólpi þjóðarinnar í baráttunni við að koma jafnvægi á gjaldeyrismálin. Ríkisstjórnir hafa frá hruni keypt alls konar ráðgjafa til þess að bæta ímynd sína og ekki hafa þær séð í botninn á ríkissjóði þegar flokkarnir eru að skammta sjálfum sér fé í formi styrkja til stjórnmálaflokka.

Ég spyr því hvers vegna er ekki hægt að kaupa almennilega greiningu á því hvernig helstu útflutningsatvinnuvegir skila arði til þjóðarbúsins. Nú er ég ekki að tala um hreinar útflutningstekjur eins og tölur um þær hafa birst í fjölmiðlum en túlkunin á þessum tölum lyktar af áróðri. Heldur myndi ég vilja sjá vandaða úttekt á því hvað verður eftir í ferlinu frá auðlind til útflutnings í þjóðarbúinu vegna stóriðju og sjávarútvegs. Hversu stórt hlutfall verður eftir meðal almennings og hversu stórt hlutfall leitar úr landi og í vasa eigenda stóriðju og kvóta.

Það er hægt að velja tvær leiðir til þess að slá á skuldir þjóðarbúsins en þær eru annars vegar að selja erlendum aðilum auðlindir eða hins vegar að tryggja þjóðarbúinu arð af auðlindunum. Ef fyrri leiðin er valin þá erum við að láta afkomendurna borga fyrir gerræði valdaelítunnar með því að gerast leiguliðar í eigin landi. Seinni leiðin er siðferðilega sterkari en valdaelítan berst gegn henni vegna þess að hún vill ekki skila neinu. Hún vill selja landið og skuldsetja þjóðina til þess að komast frá borði með ránsfenginn.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Höfundur er félagi í SAMSTÖÐU, flokks lýðræðis og velferðar


mbl.is Ráðstöfunartekjur rýrnuðu um 27%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband