Valdhafar fjármagnsins leika sér með sparnað launamanna

Ríkjandi elíta hefur náð yfirráðum yfir sparnaði launamanna.

Ég fjalla um þett í pistli sem var birtur á visir.is í gær

 

Hindra gjaldeyrishöft að næsta kynslóð sé étinn út á gaddinn?

Vísir Aðsendar greinar 10. maí 2012 17:01
Hindra gjaldeyrishöft að næsta kynslóð sé étinn út á gaddinn?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir skrifar:
Það er kannski tímabært að rifja upp hvers vegna gjaldeyrishöftin voru sett á Íslandi. Síðastliðin tuttugu ár hefur eigendum stærstu fyrirtækjanna í landinu tekist að ná yfirráðum yfir langflestum fjármálastofnunum og eru lífeyrissjóðir launþega ekki undanskildir. Á Íslandi er því ríkjandi fámenn elíta sem kalla má valdhafa fjármagnsins. Þetta er ekki fullyrðing gripin úr lausu lofti heldur styður rannsóknarritgerð um tengslanet íslenskra fyrirtækja sem Dr. Herdís Baldvinsdóttir er höfundur að þessa fullyrðingu.

Valdhafar fjármagnsins hafa ítök í öllum stærri stjórnmálaflokkum landsins og bera fé á stjórnmálamenn í gegn um fyrirtækin. Undanfarna áratugi hafa aðgerðir stjórnvalda og löggjöf miðað að því að auka farsæld valdhafa fjármagnsins á kostnað almennra borgara. Þeir sem tilheyra þessum kima eru svokallaðir sægreifar, stórbyggingaverktakar og stóriðja auk eigenda bankanna. Þeir eiga sér hagsmunasamtök, t.d. LÍÚ, SA og Viðskiptaráð sem hefur hreykt sér af því að hafa nánast stjórnað löggjöfinni fyrir hrun.

Góðir við fjármálafyrirtæki og verktaka

Fasteignabólan á Íslandi var hönnuð af stjórnmálamönnum. Áður en bankarnir voru einkavæddir var fasteignamat eigna hækkað, ólöglega, og þannig var búin til forsenda fyrir eignabólu. Hlutfall lána í fasteignakaupum var einnig hækkað og þjónaði sama málstað. En þessar aðgerðir hafa áhrif á verðbólgu til hækkunar. Aðgerðirnar þjónuðu fjármagninu og var stýrt af stjórnmálamönnum sem eru kostaðir af eigendum og valdhöfum fjármagnsins.

Með löggjöf hefur fámennum hóp verið tryggð valdastaða sem beinir frjámagni í þröngan farveg og í vasa fárra. Lög um verðtryggð lán taka alla áhættu af valdhöfum fjármagnsins og leggja alla áhættuna á lánþega. Þetta byggir undir ábyrgðalausa hegðun þeirra sem veita lán. Hinir margrómuðu kjölfestufjárfestar komu til sögunnar í byrjun aldarinnar og yfirtóku ríkisbankanna sem þeir keyrðu í þrot á sex árum. Kjölfestufjárfestarnir beindu fjármagni úr bönkunum og til fjárfestinga erlendis. Viðskilnaðurinn var galtómir bankar og argandi kröfuhafar sem réðust á íslenska þjóð með hryðjuverkalögum og hótunum. Ófriðurinn var hafinn.

Góðir við sægreifa

Kvótakerfið veitir sægreifum forréttindi sem þeir misnota. Í krafti valds sem stjórnmálamenn hafa framselt til þeirra hafa þeir skilið við heilu byggðalögin í örbyrgð og hafa í hótunum við ríkisvaldið sé valdi þeirra ógnað. Í nýjum lögum er tryggt tvöfalt kerfi eitt fyrir sægreifanna sem tryggður er nýtingaréttur til fjörtíu ára og annað fyrir smábátaeigendur sem búa við óvissu um rétt sinn til nýtingar sjávarauðlindarinnar. Það virðist ríkja pólitísk sátt um það að lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki sem keyptu kvóta (þjóðareign) af sægreifum verði sett í þrot.

Góðir við stóriðju

Stóriðjan á Íslandi skilar litlu til þjóðarbúsins. Að baki stóriðju er fjármálaformgerð sem þjóðarbúið tapar á. Þegar virkjanir og álver eru byggð eru tekin erlend lán til þess að standa undir mjög fjármagnsfrekum mannvirkjum. Við þetta aukast skuldir þjóðarbúsins en það hefur áhrif á lánshæfismat. Mikið fjármagn streymir úr landi vegna fjármagnskostnaðar við erlenda aðila og þetta dregur úr gildi krónunnar. Atvinnusköpun er sáralítil af rekstri virkjana og launakostnaður lítill. Virðisauki er reiknaður sem summa hagnaðar fyrir vaxtagreiðslur og launa. Af hagnaði landsvirkjunar fer 82% í vaxtakostnað til erlendra aðila. Þetta þýðir að virðisaukinn vegna stóriðju er hverfandi og skattheimtur litlar.

Umræðan um málefni kvótakerfis, stóriðju og lánamarkaðar er á villigötum vegna þess að hagsmunaaðilar hafa tryggt sér eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Stofnanir sem eiga að starfa af heilindum s.s. Seðlabanki Íslands og Háskóli Íslands eru oft handbendi valdhafa fjármagnsins í umræðunni.

Hið mikla arðrán fyrirhrunstímans kostað af launafólki og skattgreiðendum

Á fyrirhrunstímanum var gengi krónunar stýrt með því að stofnanir í eigu almennings og launþega, (t.d. lífeyrissjóðir og Landsvirkjun), gerðu framvirka gengissamninga og sköpuðu með því ásýnd eftirspurnar eftir íslenskri krónu. Þessar stofnanir tóku síðan á sig mikið gengistap þegar gengi krónunnar hrundi. Hluti af gengisáhættu var færð yfir á kaupendur fasteigna með því að veita þeim ólögleg myntkörfulán. Eigendur bankanna notuðu síðan hagstætt gengisumhverfi til þess að flytja fjármagn úr landi, fjárfesta í erlendri starfsemi og koma fjármagni fyrir í aflandsfélögum. Á sama tíma og eigendur og vinir eigenda bankanna fjárfestu í erlendum félögum héldu lífeyrissjóðirnir að sér höndum. Hannað var lagaumhverfi sem studdi þetta. En hönnuðir lagaumhverfisins eru þeir sömu og eru fjármagnaðir af valdhöfum fjármagnsins. Þessi flétta sýnir gríðarleg völd valdhafa fjármagnsins. Þeir náðu að beita fyrir sig löggjafarvaldinu og stjórnarmönnum stofnanna í erlendri fjárfestingaráráttu sinni og arðráni á launþegum landsins.

Mikið fjármagn vill úr landi. Gera má ráð fyrir því að þetta fé sé að miklu leiti afrakstur arðránssamfélagsins en sífellt er talað um erlenda eigendur þótt hvergi hafi verðið færð rök fyrir uppruna þessara aðila. Þetta fjármagn er af ýmsu tagi eins og t.d. arður til vogunarsjóða sem fengu bankanna út á skuldir sem þeir höfðu keypt fyrir ca 5% af nafnvirði, skuldabréf með kröfu á ríkissjóð sem tengjast viðskiptum með jöklabréf og innstæður á sparifjárreikningum sem var komið undan hruninu.

Staðan í dag er þessi: gengi krónunnar er haldið uppi með gjaldeyrishöftum og lánsfjármagni sem kostar ríkissjóð 30 til 50 milljarða á ári. Þetta er kostnaðurinn sem þjóðin ber af hegðun stjórnmálamanna, fjárfesta og embættismanna fyrir hrun. Krónan er í raun ónýt við óbreytt kerfi. Ríkisstjórnin hafnar aðgerðum og kerfisbreytingum sem myndu leysa þennan vanda og má ætla að það sé vegna þrýstings frá valdhöfum fjármagnsins.

Staðan getur versnað: verði látið undan þrýstingi þeirra sem vilja komast með fé úr landi þýðir það tvennt. Krónan hrynur eða/og allt að 1000 milljarða skuld fellur á skattgreiðendur. Landið verður í kjölfarið efnahagslega óbyggilegt fyrir komandi kynslóðir.

Ekki verður séð að stjórnmálamenn ætli að draga neinn lærdóm af hegðun sem hafði í för með sér algjört kerfishrun. Aðilar atvinnulífsins leika sér enn að sparnaði launamanna (Lífeyrissjóðunum), enn er heimilað í lögum að múta stjórnmálamönnum, fjölmiðlar eru í eigu þeirra sem mesta ábyrgð bera á því að hér varð algjört kerfishrun, enn er stefnt á meiri virkjanir og stóriðju sem skaða landið og stöðu þjóðarbúsins, verðtryggingin sem markvisst færir eignir frá fjölskyldum til fjármálafyrirtækja eru enn við lýði, sjávarauðlindin er enn einokuð af fáum aðilum og árásir á fjárhag fjölskyldna í gegn um fjármálakerfið eru viðvarandi.

Óttablandin virðing núverandi ráðamanna fyrir alþjóðafjármálakerfinu og ráðgjöfum þess hefur í för með sér að þeir þora ekki að grípa til róttækra aðgerða eða breyta kerfinu á þann hátt sem þjónar almenningi. Nýfrjálshyggjan og uppskrift ESB er hið ríkjandi viðmið. Hugmynd SAMSTÖÐU um upptöku nýkrónu býður upp á tækifæri til þess að losa um gjaldeyrishöftin án þess að það ógni afkomu næstu kynslóða.

Í stað þess að skoða heildaráhrifin af spillingunni sem er bein afleiðing af ítökum fjársterkra aðila í löggjöf landsins reyna menn sífellt að finna aðferðir til þess að fela orsakir hrunsins. Í umfjöllun er oft tekist á um aukaatriði, athyglinni er beint frá gerendum og svo er auðvitað sterkasta vopnið að etja þjóðinni saman.

Landsbyggðinni gegn höfuðborgarsvæðinu. Vinstri gegn hægri. Skuldurum gegn lífeyrisþegum (oft er það sama fólkið). Tvíhyggja á borð við þessa gefur til kynna tvö stríðand öfl og dregur ekki eingöngu úr samstöðu fólks í mikilvægum málefnum heldur dregur hún einnig úr gagnrýninni hugsun og skapar hindrun í skilningi fólks á samfélaginu. Í þægð við pólunarhugtök dreifist athyglin frá mikilvægum málefnum líðandi stundar. Hinir raunverulegir óvinir eru þó valdhafar fjármagnsins sem vilja ekki skila samfélagslegum arði til þjóðarinnar og stjórnmálamenn og fjölmiðlar sem ganga erinda þeirra.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur.
mbl.is Hóta ætti lífeyrissjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband