Þráhyggja frjálshyggjunnar

Unga fólkið okkar hefur alist upp við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar en einnig að spilling meðal stjórnmálamanna, embættismanna og viðskiptajöfra sé eins sjálfsögð og veðrið úti. Það hefur horft á stjórnvald sem setur lög sem það brýtur í skjóli valds yfir stofnunum sem á að draga það til ábyrgðar. Þetta andrúmsloft hefur læðst inn í grunngildi ungmenna og hamlað siðferðisþroska. Framferðið hefur miðað að því að draga úr mætti þjóðarinnar.

Ég var að horfa á Silfur Egils. Einar Már kom með gagnlega greiningu á ástandinu sem hér ríkti á tímum góðærisins, t.d. aðför að jafnréttinu. Jón Baldvin sem talar mjög skýrt að venju og dregur fram sjónarmið sem þarf að taka tillit til. Þetta eru gáfaðir menn sem byggja afstöðu sína á skilningi og reynslu fremur en utanbókarlærðum frösum sem svo margir byggja afstöðu sína á.

Málpípur stjórnmálaflokkanna voru mættar í fyrsta hluta þáttarins og þar kvað við sama sönginn. Sömu áróðurstilburðir og tilraunir til þess að stjórna því hvað sé eðlilegt eða viðeigandi í stöðunni. Víst þarf að slökkva eldanna sem nú loga en það er ekki það sama og takast á við ábyrgð á því að hafa upprunalega kveikt þá. Endalaust ganga útsendarar ríkisstjórnarinnar fram og reyna að berja inn í fólk að ótímabært sé að rannsaka eða að takast á við ábyrgð.

Þessi þráhyggja sem gegnumsýrir allan málflutning stjórnvalda vekur auðvitað tortryggni. Hvað er verið að fela?

Hvað tekur nú við með þetta fólk við stjórntauminn? Hvað verður um velferðarkerfið í þessu óheiðarlega og sjálfhverfa andrúmslofti sem virðist nú svífa yfir vötnum stjórnmálanna?

Nú er verið að bjarga elítunni á kostnað afkomenda okkar sem eiga að borga skuldirnar.

Spilling meðal stjórnvaldsklíkunnar hefur fyrir löngu síðan fengið staðfestingu sem eðlilegt fyrirbæri. Þetta hefur leitt til þess að mjög erfitt hefur verið að fá hljómgrunn fyrir gagnrýni á það framferði sem hér hefur verið ríkjandi. Einar Már varar við þeim fasisma sem getur vaxið upp úr þessu hugarástandi.

Ef við viljum ekki fá yfir okkur fasisma þá þarf að breyta grunngildum og spilling á að vera ólýðandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill sá Silfur Egils með svipuðum augum.

Magnús Sigurðsson, 19.10.2008 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband