Stjórnmálamenn eru nú orðnir svo vanir því að lifa eftir öfgum ný-frjálshyggjunnar sem predikar afskiptaleysi yfirvalda að þá skortir nú allt hugarflug til þess að grípa til aðgerða sem gagnast við núverandi aðstæður.
Við fixum með lánum, hækkum stýrivexti en atvinnulífið getur bara beðið. Atvinnulífið skapar verðmætin. Það þarf að styrkja stoðir fyrirtækja sem eru að skapa verðmæti og afla gjaldeyris. Hvernig þjóna vaxtahækkanir þessu markmiði? Það er auðvelt að svara því, þær gera það ekki heldur auka á vandann.
Undanfarin ár hefur athyglin beinst að atvinnu sem þjónar skipulagsheildum sem ekki hafa verið að skapa raunveruleg verðmæti fyrir þjóðina. Þessar skipulagsheildir sem áttu að þjóna viðskiptalífinu gleymdu hlutverki sínu. Í stað þess að þjóna hagsæld þjóðarinnar fóru þær að draga til sín arðinn af atvinnuvegum og skilur þá nú eftir í skuldum.
Háir vextir hér á landi hafa hvatt til innflutnings á fjármagni og framboð fjármagns verið langt umfram það sem þjóðarbúið þolir. Einstaklingar hafa takmarkaða yfirsýn og haga sér eftir ummerkjum í sínu nánasta umhverfi. Yfirvöld, ef þau eru starfi sínu vaxin, eiga hins vegar að hafa yfirsýn grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir slagsíðu í atvinnulífinu.
Þegar athyglinni er beint að einu þýðir það oft að annað er vanrækt. Yfirvöld hafa verið svo upptekin af því að mynda þétta valdaklíku sem býr við þægindi og öryggi að þau hafa gleymt fyrir hvern þau eru að vinna. Ákvarðanir sem lutu að bönkunum miðuðu að því að halda skrímslinu lifandi. Auðvaldsskrímslið þjónaði valdaklíkunni sem leyfði því að éta börnin.
Í dag eru það útflutningsatvinnuvegirnir sem skipta máli. Það verður að beina athyglinni að þeim. Það hefur ekki verið deilt um þetta. En aðgerðir í dag verða að miða að því að ekkert fari forgörðum í ringulreiðinni sem ríkir nú.
Atvinnuvegir og fyrirtæki eru eins og dýr skógarins. Annað hvort aðlagast þau ástandinu eða deyja. Gripið er til aðgerða í fyrirtækjum. Fólki er sagt upp og endurráðið á lægri launum ef það er nauðsynlegt. Stjórnendur grípa til aðgerða til þess að halda fyrirtækjum lifandi og einhverju verður fórnað í þeim tilgangi.
En hvað þá með velferðarkerfið. Undanfarna áratugi hefur verið byggt upp bákn sem nærist á almennum borgurum en þetta bákn er ekki að þjóna almenningi sem skyldi. Stjórnvöld hafa gert stofnanir landsins að varðhundum valdhafa og stilla þar upp sínu fólki sem vanrækir almenning en ræktar húsbóndahollustu við yfirvöld.
Það þarf að hreinsa rækilega til hjá hinu opinbera. Aðlaga þarf laun og vertakagreiðslur að því ástandi sem ríkir nú. Endurskoða þarf regluverk stofnana með það í huga að þær fari að þjóna almenningi. Stofnanir sem hafa eftirlitshlutverk eiga að vera óháðar valdhöfum.
Jafnrétti hefur verið fótum troðið á Íslandi. Misbeiting valds hefur tekið á sig mynd réttmætis í því hugarfari sem ríkt hefur í fílabeinsturnum valdsins. Uppgjafartónn er í þeim sem misrétti eru beittir. Þetta er bara svona er sagt. En nei þetta er bara ekki svona. Það eru einhverjir sem gera þetta svona.
Þessir þættir eru samofnir þ.e.a.s. atvinnulíf, velferð og jafnrétti og móta stoðir nútímasamfélags. Í höndum stjórnvalda hafa þessir þættir verið fótum troðnir og afleiðingin er öllum ljós.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.