Með heill þjóðar að leiðarljósi?

Tilgangur stýrivaxtahækkunar er að ná meiri fjármunum út úr fjölskyldum og fyrirtækjum og færa þá inn í bankakerfið. Hærra hlutfall tekna mun ráðstafað vegna kostnaðar af skuldum en áður og eftir situr minna til að ráðstafa til annarra þarfa.

Þetta þýðir einkaneysla minnkar og staða bankanna styrkist auk þess sem fjölda heimila og fyrirtækja er stefnt í þrot. Gjaldþrotin er fórnarkostnaður sem færður er til þess að staða banka megi styrkjast og draga megi úr einkaneyslu.

Samdráttur í einkaneyslu (á vöru sem á sér uppruna erlendis) dregur úr viðskiptahalla sem í venjulegu árferði myndi bæta gjaldeyrisvaraforðann og styrkja krónuna. Samdráttur verður þá einnig á ýmsu sem ekki hefur áhrif á viðskiptahalla s.s. þjónustu. Það hefur þann ókost að skattstofn minnkar og hið opinbera hefur minna úr að spila.

Opinber neysla er neysla sem hið opinbera greiðir fyrir en hún mun einnig dragast saman vegna þess að tekjur hins opinbera hafa dregist saman. Þetta hefur enn jákvæð áhrif á viðskiptahallann en þýðir fyrir almenning að neysla hans á þessu sviði mun einnig minnka. Það verður minna til skiptanna.

Nú horfi ég á stjórnmálamenn koma fram og tala hvern ofan í annan um að stýrivaxtahækkun sé sú fórn sem þurfi að færa. Þeir sem verða gjaldþrota nú eru fórnarlömb þessara manna sem áttu að vera að vinna vinnuna sína en voru, afsakið, að koma vinum sínum fyrir í stöður hjá hinu opinbera í stað þess að ráða hæfa einstaklinga til starfa. Þeir hafa notað stöður í ráðuneytum og stofnunum sem skiptimynt fyrir stuðning fyrir kosningar. Og kæru landsmenn fyrir þetta eru þið nú að borga, þ.e.a.s. þið sem skuldið og þið sem fáið ekki feitu tékkana.

Þegar þjóðin stendur frammi fyrir efnahagshruni er mjög lítil þekking í stjórnsýslunni til þess að takast á við þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er ekki vegna þess að ekki eru til ágætir íslenskir sérfræðingar. Nei þetta er vegna þess að íslenskir sérfræðingar hafa ekki fengið að njóta sín vegna pabbadrengjanna sem fengu störfin sem þeir réðu ekki við. Íslenskir sérfræðingar eru því annað hvort flúnir til útlanda eða eru í undirmálsstörfum.

Það sem alvarlegast er við þetta er að í stað þess að sterkir einstaklingar hafi mæst í stjórnsýslunni og byggt upp „kúltúr" þekkingar sem er sérstök fyrir íslenskar aðstæður hefur stjórnsýslan einkennst af einstakri vitsmunaþurrð. Atburðarrás síðustu vikna ber sterkan vott um þetta.

Stjórnmálamennirnir gerðu sig að athlægi um heim allan vegna þess að í þeirra ranni er engin heilsteypt ráðgjöf, engar „strategíur" og engin heilindi.

Og ég fullyrði að þetta fólk hefur ekki heill almennings að leiðarljósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Þetta er sko grafalvarlegt mál allt, og ekki fer það batnandi á næstu dögum. Knús til þín.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 7.11.2008 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband