Almenningur blekktur

Fréttir af eignum á móti skuldum innistæðureikninga Iceve og Kaupþings hafa verið vægast sagt undarlegar. Sagt er að eignir séu til fyrir skuldum. Sagt er að ekki sé hægt að fá viðhlýtandi verð fyrir eignirnar. Humm, humm hvað þýðir þetta?

Andvirði eigna bankanna ræðst af því hvaða verð er hægt að fá fyrir eignirnar í dag. Verðmyndun verður til við sölu en ekki mat á eignunum eða skráðum tölum í ársreikningi. Í tölum ársreiknings eru loftbólurnar títtnefndu.

Yfirvöld segjast ætla að bíða með að selja eignirnar þar til viðunandi verð fáist fyrir þær. Á meðan ætla þeir að greiða úr vasa almennings hundruð milljarða í vexti til þjóða sem hýstu þessa innlánsreikninga.

Spáð er langvarandi kreppu í heiminum. það er því allsendis óvíst að þessar eignir hækki og allt eins víst að verð þeirra eigi eftir að lækka. Gera stjórnvöld sér kannski von um að loftbólur í ársreikningum hlýti lögmálum loftbóla og hjaðni með tímanum?

Gríðarleg áhætta er tekin fyrir hönd þjóðarinnar með því að samþykkja skuldbindingar við ESB þjóðirnar. Áhættan er slík að hún ögrar fullveldi þjóðarinnar.

ESB þvinguðu ráðamenn og þeir létu þvinga sig. Raunveruleg ábyrgð þjóðarinnar á þessum reikningum er ekki til staðar enda hafa menn ekki verið tilbúnir til þess að fara dómsstólaleiðina.

Þessi bolabrögð voru höfð í frammi til þess að redda trausti Evrópubúa á bankakerfið í Evrópu. Gríðarlegt vald hvílir að baki bankakerfinu og fyrir því lúffaði Geir Haarde og teflir auðlindunum og sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.

Hvers vegna hefur Geir Haarde ekki hagsmuni þjóðarinnar í huga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Svo skipta þeir með sér eignum hægri vinstri(einkavinavæðingin) og láta Fjármálaeftirlitið blessa yfir það hér heima!

Vilborg Traustadóttir, 10.12.2008 kl. 16:41

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú hefur eins og svo margir aðrir sökkt þér í áhyggjur vegna skuldbindinga við Bretana. Þær áhyggjur tel ég næsta óþarfar og svo er hitt að gert var mikið úr þessu máli í fjölmiðlum, að mínu mati meira en efni stóðu til. Það er eins og fleira í öllum þessum málatilbúnaði að sumt er talað um en annað ekki. Það er eins og allir fjölmiðlar varist það eins og heitan graut, að ræða um þau mistök sem gerð hafa verið í stjórnarháttum á Íslandi. Þar er ég að tala um þau bolabrögð sem Seðlabankastjóri hefur beitt gangvart þeim sem vöruðu við blikum í kerfinu. Kaupþing vildi fá að gera upp í Evrum, en fékk ekki. Sagt var frá hótun Davíðs við Kaupþing í Markaðnum hjá BINA um daginn. Ekki sú frétt fengið umfjöllun fjölmiðla. Landsbankinn var á síðustu metrunum að stofna Útibú í Bretlandi og Björgólfur Thor bar fram ásakanir á aðgerðir Selabankans, hvar er umfjöllun um það.

Davíð dreifir dylgjum og hálfsögðum sannleik, hvað er gert ekkert.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.12.2008 kl. 16:47

3 Smámynd: Rannveig H

Jakobína það er líka furðulegt hvað Háskólar bera stíft út boðskap ESB .Bifröst hefur verið þekkt fyrir það og prófessorar það stundað trúboðið. Háskóli Íslands fylgir orðið fast á eftir með að fá fyrirlesara utan úr heimi sem boða það eina rétta ef ekki duga stjórnmálafræðingar og Evrópusérfræðingar skólans.

Rannveig H, 10.12.2008 kl. 17:24

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Hólmfríður.  Á einhverjum tímapunkti þarftu að vakna.  Fjögurra ára tvíburar mínir erfa þetta land í fyllingu tímans.  Þeir eiga rétt á sama heilbrigðis og menntakerfi og foreldrar þeirra.  Þeim er alveg nákvæmlega sama um Davíð og gjörðir hans.  Ef þú trúir mér ekki þá skaltu spyrja þá.  Jakobína er að ræða um framtíðina, útfrá því ástandi sem er.  Og hvaða ákvarðanir eru teknar til að koma okkur útúr þessarri krísu. 

Þú hefur ekki áhyggjur af Icesave skuldbindingunum.  Gott og vel.  Hvað kemur það málunum við?.  Veist þú eitthvað sem aðrir vita ekki?.  T.d. meira en Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sem áætlar 240  milljarða auk vaxta, sem gætu þá hlaupið hátt í þessa tölu þegar allt er uppgert.  Samt veit enginn hvort breskir dómsstólar samþykki forgang innlána í þrotabú Landsbankans í Bretlandi.  Síðan veit enginn hvernig heimskreppan á eftir að leika tryggingarbréf bankans og aðrar eigur hans.  Þar til núna að þú tjáir þig.  En það er engin huggun fyrir drengina mína.  Þeir vilja að skattpeningar foreldra þeirra fari í að reka þjóðfélagið og til að mennta þá og lækna þegar þess þarf.  Ekki í að greiða skuldir annarra þjóða.

Við eigum að greiða Icesave segir þú og það verður ekki mikið mál.  Það fyrra er rangt og það seinna er í besta falli vafasamt og jafnvel þó svo væri þá kemur það málinu ekki við.  Að greiða Icesave brýtur allavega tvenn grundvallaratriði. 

Það er brot á fullveldi þjóðarinnar að kúga hana til fjárskuldbindinga sem hún á  sannanlega ekki að greiða við núverandi aðstæður.  Að brjóta á fullveldi þjóða er eitt af grundvallarbrotum alþjóðaréttar.

Það er brot á stjórnarskránni að ríkisstjórn og Alþingi samþykki fjárkröfur þar sem upphæð þeirra er ekki þekkt.  Innantómur orðavaðall um að kanski þurfum við ekki að borga svo mikið breytir ekki þessarri staðreynd.  Ef Alþingi vill samþykkja þennan samning þá þarf fyrst að breyta stjórnarskránni og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu.  Verði það ekki gert er undirskrift Icesave samkomulagsins ekki pappírsins virði og ný lögmæt stjórn í fullu rétti til að rifta því.

Að lokum þetta.  Ef eignir Landsbankans duga fyrir skuldbindingum Icesave þá er rökréttast að semja við bretana að þeir ráðstafi þeim eftir bestu samvisku.  Afhverju heldur þú Hólmfríður að bretar velji ekki þá einföldu leið og sleppi þar með þessarri milliríkjadeilu við bandalagsþjóð sína?  Hefur það kanski eitthvað með það að gera að pappírseignir eru lítils virði í núinu og munu verða það næstu árin?  En eitt er víst að þegar velferðarkerfið hrynur vegna IFM afarkostana og erlendra afborgana þá mun ekki lengur duga að benda á Davíð.  Sökin er annarra.   Og um það er Jakobína að fjalla.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.12.2008 kl. 22:37

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir Ómar. Mér veitir ekki af bandamönnum í þessari umfjöllun.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.12.2008 kl. 22:54

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Mín var ánægjan Jakobína. 

Ég var reyndar hættur að rífa mig og var farinn að lesa um baráttu Gandalfs gráa við ill öfl.  Ég skynja að þið konurnar eru að samstilla ykkur og þá kemur vonin. 

Ég efa það ekki að Hólmfríður vill vel og ég er þess fullviss að einn daginn verði þið í sama liðinu.  En hvort sem það er viljandi eða óviljandi þá er hún að reyna að drepa niður andófsumræðuna með þeirri tækni sem Davíð kenndi við smjörklípuaðferð.   Ég hef tekið eftir því að stjórnarliðar eru farnir að upplifa vatnaskil í umræðunni  og þeir eru að verða undir.  ESB draumurinn og Davíðs grílan er hætt að virka.  Gagnsókn fótgönguliða stjórnarsinna sést víða á netinu og hún fellst mikið í því að véfengja bæði almennar staðreyndir og heilbrigða skynsemi fólks.  Kasta umræðunni á dreif og reyna þannig að kæfa andófið í fæðingu.  Við erum nefnilega svo vitlaus, bara venjulegt fólks sem hvorki veit  hvað okkur er fyrir bestu né hvernig líf við viljum bjóða börnum okkar uppá. 

Bloggið þitt er of gott til að slíkar takteringar megi skemma það og ég skora á lesendur þína að láta miklu meira í sér heyra og tjá um leið sínar skoðanir.   Við fæddumst nefnilega öll með sama brjóstvit og ráðamenn okkar og þeir hafa fengið sitt tækifæri og núna er komið að okkur að tjá okkur um hvernig framtíð við viljum.  Við, sem deilum þeirri lífsýn með þér að núna skiptir það eina máli hvernig framtíð við búum börnum okkar og við eigum að leggja allt í sölurnar til að sú framtíð verði björt og mannvænleg, við eigum að fylkja okkur um þig og þína líka í bloggheiminum og gera ykkar síður af mest lesna bloggum landsins.  Taglhnýtingar fortíðarinnar fá alltof mikla athygli og það mætti halda að þeir væru flestir steingeldir og sæu enga framtíð aðra en velmegun sinnar ístru.  Svo enn og aftur, gangi þér allt í haginn og miklar þakkir fyrir þitt góða blogg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.12.2008 kl. 23:39

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðvitað eru þessar bjartsýnisræður um eignir bankanna innistæðulaust blaður eins og flest það sem ráðherrar okkar segja þessa dagana. Oft í viku gefst okkur að lesa greinar eftir innlenda og erlenda hagspekinga og eftirlaunamenn úr fjármála- og hagdeildum þar sem næstum hver ályktun þessara gripa í stjórnsýslufjósinu eru hraktar til grunna og gerðar hlægilegar. Upp úr öllu stendur í mínum huga að þegar neyð okkar varðandi erlend gjaldeyrislán var hvað brýnust voru það ríki ESB sem beittu sér hvað harðast gegn því að okkur yrði komið til bjargar. Þrátt fyrir það eru þingmenn Samfylkingarinnar uppteknir við það eitt að komast sem oftast fram í sviðsljósið og boða umsókn í þetta bandalag hótana sem okkar eina bjargræði!

Og ég hlýt að spyrja hvað þessu valdi? Og mér er blátt áfram óskiljanleg sú staða sem þessi furðulega hjörð er að sýna í fylgiskönnunum. Erum við Íslendingar búnir að sættast við þá tilhugsun að okkur sé fyrirmunað að stjórna eigin málum í einu auðugasta landi heimsins þann veg að þjóðin komist af án afskipta annara þjóða?

Árni Gunnarsson, 11.12.2008 kl. 00:05

8 identicon

Sæl og þakka þér fyrir samtalið. Smáviðbót vegna meintra eigna. Jafnvel þótt í ljós komi að bankarnir eigi enn eignir þá er alls óvíst hve stór eða lítill hluti þeirra kemur upp í skuldir við ríkissjóð vegna þess að ríkissjóður á ekki forgangskröfu í bú bankanna. En þannig tala menn gjarnan. Ríkið situr við sama borð og aðrir kröfuhafar. Það getur því allt eins farið svo að 5% af eignunum komi upp í kröfur ríkisins.

Helga (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 01:16

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég tek undir með Ómari og Jakobínu í upphafsfærslunni. Alþingi er búið að samþykkja að fela ríkis(ó)stjórninni að leiða Icesave-deiluna til lykta.

ALÞINGI ER BÚIÐ AÐ SKRIFA UNDIR ÓÚTFYLLTA ÁVÍSUN HANDA RÍKISSTJÓRNINNI. SKATTGREIÐENDUR LANDSINS ERU SÍÐAN ÁBYRGÐARMENN.

Hefur stjórnin sýnt að hún er traustsins verð að fara með fjármuni þjóðarbúsins? Búin að veðsetja næstu kynslóðir skattgreiðenda?

Halló! Vaknið!

Theódór Norðkvist, 11.12.2008 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband