2008-12-13
Rannsóknarnefnd- yfirklór og hvítþvottur
Traust á frumvarpi til laga um rannsóknarnefnd er lítið meðal þeirra sem eru hvað fróðastir um aðferðir og trúverðugleika rannsókna.
Eftirfarandi er úrdráttur úr yfirlýsingur sem ónefndur aðili hefur sent mér og hefur verið sendur öllum þingmönnum. Dæmi hver sem vill!
Hvergi er að finna í þessu frumvarpi að Alþingismenn vilji með yfirlýstum hætti setja traust sitt á vísindalegar rannsóknaraðferðir félags- og samfélagsgagnrýninna lögvísinda (critical legal theory) sem hæfa því viðfangsefni sem hér um ræðir.
Stjórnvöld gætu endurheimt það traust og þann trúverðugleika sem þau svo sárlega skortir með því að nýta sér þá þekkingu og mannauð sem finnst innan háskóla- og rannsóknarsamfélagsins.
En Alþingismönnum virðist hafa yfirsést þessi möguleiki. Þess í stað fara þeir þá leið að fela rannsóknina í hendur kerfisöldum teknókrötum /innanbúðarfólki og velja um leið að hafa lögfræðilega yfirvigt í nefndinni. Þessi tilhögun er til þess fallin að gefa henni yfirbragð réttarrannsóknar eða sakamálarannsóknar þar sem lítið eða ekkert tillit er tekið til víðara samhengis málsins í sögu, samfélagi og menningu. Hér vantar hins vegar að tryggt sé að upplýsinga sé aflað og skýringa leitað með víðtækari skírskotun og viðurkenndum vísindalegum aðferðum rannsóknarsamfélagsins á Íslandi.
Eitt af því sem réttlætir tilvist ríkisvalds yfirhöfuð í lýðræðisríkjum er að það tryggi almenningi aðgang að þekkingu og sannindum eins og þau gerast best hverju sinni.
Á þessari ögurstundu í lífi þjóðarinnar, þegar stjórnsýslan og fjármálakerfið liggur undir ámæli um spillungu er það daprara en orð fá lýst fyrir framtíðarhag landsins að slíkur aðgangur sé settur í uppnám með nefndarskipan í þessa rannsóknarnefnd. Enn og aftur er ekki verið að efast um að Páll Hreinsson sé vænsti maður. Hins vegar draga tengsl hans við æðstu valdamenn landsins ótvírætt úr nauðsynlegri og óumvéfengjanlegri óhlutdrægni.
Það sem blasir við almenningi - hvað sem stjórnmálamönnum kann að finnast - er ótrúverðugleiki og grunsemdir um að niðurstöður verði á þann veg að stjórnmálamenn og stjórnsýsla sleppi við alla ábyrgð á bankahruninu.
Með því að kveða óháða og samfélagsgagnrýna aðila innan þekkingarsamfélagsins til starfa fyrir þjóðina í þessu máli og fela þeim að leiða þessa rannsókn og þar með það mikilvæga verkefni að endurreisa traust og trúverðuleika í samfélaginu er verið að tryggja áreiðanleika rannsóknaraðferða, tiltrú á niðurstöðum rannsóknarinnar og ekki hvað síst tiltrú alþjóðasamfélagsins á íslenskri stjórnsýslu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2008 kl. 00:02 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Jakobína,
mjög merkileg skrif,
Eitt af því sem réttlætir tilvist ríkisvalds yfirhöfuð í lýðræðisríkjum er að það tryggi almenningi aðgang að þekkingu og sannindum eins og þau gerast best hverju sinni.
ég held að það renni illilega af manni við slíkan lestur, hingað til hefur lýðræðið verið notað til að skapa ákveðnum mönnum völd!!
Við þurfum að stuðla að frekari breytingum, því í raun hafa miklar breytingar gerst, þær hafa bara ekki enn spírað, en munu gera það.
Gunnar Skúli Ármannsson, 13.12.2008 kl. 23:22
Gunnar þetta er einmitt kjarni málsins.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.12.2008 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.