Landsfaðirinn bregst

Það blandast fáum hugur um að þjóðin er lent á villigötum. Ég hlutstaði á mál Páls Skúlasonar í sjónvarpinu í kvöld og er um margt sammála hans skilningi á ástandinu sem þjóðin er lent í.

Fólk hefur tilhneigingu til þess að tileinka sér kerfi hugsunar en það er í raun andstæða gagnrýnnar hugsunar. Við nennum ekki að vera sífellt að taka ferska afstöðu til atburða eða þess sem mætir okkur í lífinu og hneigjumst þess vegna að tiltekinni hugmyndafræði sem stýrir viðbrögðum okkar. Ef við göngum of langt í því að lúta hugmyndakerfum sem segja okkur hvernig við eigum að hugsa ræður þýlyndi við kerfið för og við missum sjónar af réttlæti og jafnræði.

Hugmyndafræði reglu- og aðhaldsleysis hefur ráðið för. Valdhafar hafa misskilið hlutverk sitt. Þeir líta á stjórnmálin sem sína persónulegu framabraut og hafa ekki skilning á því að stjórnmálin eiga að þjóna almenningi við gæslu almennra hagsmuna en ekki að vera tól ríkisstjórnarinnar til sérhagsmunagæslu.

Foringjar eru hættulegir þjóðinni. Stjórnmálin eiga að vera í vörslu almennings en ekki foringjanna. Þeir sem lúta foringjastjórn gera það vegna þess að þeir vilja að aðrir hugsi fyrir þá. Það er þægilegt að hvíla i kjöltu landsföðurins og trúa því að hann sé traustsins verður. Landsfeður bregðast, þeir fyllast valdagræðgi, fyllast ofurtrú á sjálfum sér og taka að sér verkefni sem þeir ráða ekki við. Sjálf tilvist landsföðurins byggist á hugmyndafræði sem er skaðleg þjóð.

Því þjóðin þarf að byggjast upp af einstaklingum sem nenna að hugsa og eru þátttakendur í mótun samfélagsgerðarinnar og smíði nýrra hugmynda. Einstaklinga á að meta af verðleikum en ekki þýlyndi þeirra við landsfeður og óholl hugmyndakerfi.

Ég er þó ekki sammála Páli um að stjórnvöld hafi lent óvart í því ástandi sem ríkir í dag. Stjórnvöld hafa markvisst drepið niður lýðræði og alla þátttöku almennings í stjórnmálum. Þeir sem hafa gagnrýnt eða verið óþægir hafa mátt sæta ofsóknun. Það þora því fáir að gagnrýna valdhafanna. Valdhafar hafa byggt upp kerfi í kring um valdið sem vart er hægt að brjótast í gegn um.

Það skýrir að þrátt fyrir gengdarlaust klúður valdhafanna og algjört vantraust almennings á þeim sitja þeir áfram og neita að axla ábyrgð. Þetta siðleysi valdhafanna er spilling jafnvel þótt siðleysi þeirra og festa í óhollu hugarfari meini þeim sjálfum að koma auga á það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband