2009-01-05
Hvers vegna lét ég plata mig?
Ekkert fer eins mikið í taugarnar á mér og ef ég læt plata mig. Hvers vegna læt ég þá plata mig? Er ég svona vitlaus? Nei ég er ekkert vitlausari en gengur og gerist. Ég er eins og flestir íslendingar að því leyti að ég vil treysta fólki. Vantraust eða tortryggni er vond tilfinning. Sífelld tortryggni veldur kvíða og því viljum við trúa að við getum treyst þeim sem við þurfum að byggja á.
Nú stend ég frammi fyrir því að ég hef verið plötuð af stærðargráðu sem á sér ekki samsvörun í mínu lífi. Það er búið með lygum og prettum að skemma þjóðríkið, fósturjörðina sem börnin áttu að erfa. Með útsjónarsemi og klækjabrögðum hefur löggjafarvaldið eyðilagt lýðræðið. Úræðaleysi og hroki ráðamanna þjóðarinnar hafa leitt hana í skuldafen sem ekki á sér sinn líka. Með útsjónarsemi og klækjabrögðum hafa auðmenn eyðilagt getu þjóðarinnar til þess að sjá sér farborða.
Af ósvífni beita fjölmiðlar og þjóðkirkjan múgsefjun til þess að halda uppi þeirri ásýnd sem valdhafar óska. Biskup segir þjóðina vera í velferðarkreppu. Fjölmiðlar segja þjóðina vera í fjármálakreppu og Stöð tvö flytur skröksögur af skemmdarverkum mótmælenda og hvetur lögregluna til ofbeldisverka. Einstaklingar eru farnir að sæta ofsóknum vegna pólitískra skoðana.
Ástandið hefur fram að þessu fyrst og fremst verið hugmyndafræðilegt og þeir sem hafa tekið þátt í mótmælum hafa verið þeir sem keypt hafa hugmyndafræðina um að hér ríki ójöfnuður, óréttlæti og spilling. Aðrir munu þráast við að treysta valdhöfum og skynja ekki ástandið fyrir en það verður áþreifanlegt.
Traustið er þeim svo mikilvægt. Tilhugsunin um breytingar svo ógnvekjandi að þeir munu ekki söðla um fyrr en ástandið verður verra en tilhugsunin um hið óþekkta. Þegar að líða tekur á vorið munu sífleiri fara að finna áþreifanlega fyrir kreppunni sem er líka pólitísk, hugmyndfræðileg og siðferðileg og munu fylkja sér í hóp mótmælenda.
Það er þekkt í fræðum að það ástand sem er að skapast hér er öndvegis jarðvegur fyrir breytingar. Ástandið verður eftir sem áður sársaukafullt. Ástandið mun skaða marga einstaklinga. Ástandið mun líka skaða þjóðina, samfélag okkar í heild. Með aðgerðum sínum eru stjórnvöld að flæma ungt fólk úr landi og auka ójöfnuð meðal þeirra sem eftir sitja.
Stjórnvöld vilja taka af okkur eignir okkar svo þau geti selt okkur þær aftur eða leigt okkur þær. Stjórnvöld eru að skapa hér stétt fátæklinga sem kirkjan getur svo hreykt sér af því að aðstoða. Stjórnvöld eru að gera okkur að ölmusuþegnum í samfélagi ójöfnunar og gegn því munum við rísa.
Barátta valdaaflanna við að viðhalda sjálfum sér er þjóðinni dýrkeypt. Í skjóli nætur eru valdhafarnir að treysta velmegun sína með því að skuldsetja afkomendur okkar og gera fósturjörðina óbyggilega fyrir þá. Almenningur þarf að rísa upp og stöðva ósómann.
Þöggun hefur verið viðhöfð af hálfu yfirvalda um langa hrýð. Þeir sem hafa viljað mótmæla valdinu hafa verið útmálaðir sem lýðsskrumarar og kverúlantar á meðan kirkjan hefur prédikað æðruleysi.
Þjóðin þarf ekki æðruleysi. þjóðin þarf aðgerðir sem miða að því að koma valdhöfum frá og endurheimta lýðræði. Við viljum jöfnuð, jafnræði og réttlæti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:32 | Facebook
Athugasemdir
kolbrún Bára (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 06:28
Takk fyrir góðan pistil.
Þú og fleira gott fólk á eftir að hafa áhrif.
Hólmdís Hjartardóttir, 5.1.2009 kl. 06:54
Þetta er svona svipað og að vakna upp við það að landið hafi verið hertekið í leifturstríði eða komast að því að maður eigi ekkert í börnum sínum og makinn hafi lifað 2-3 földu lífi eða hvernig er eiginlega hægt að lýsa þessu??? Lygar á lygar ofan og þjóðfélagið byggt á dufti.
Arinbjörn Kúld, 5.1.2009 kl. 08:11
Frábær pistill, takk fyrir mig.
Sigrún Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 09:11
Þau eru ekki mín stjórnvöld. Stal þessari setningu frá Jenný Önnu, hún segir allt um hug minn til þeirra.
Ef þú ert vitlaus þá erum við öll hin alveg jafnvitlaus, við létum öll plata okkur.
Rut Sumarliðadóttir, 5.1.2009 kl. 12:29
Frábær lesning.
Við vorum öll vitlaus. Okkur leið ágætlega og ekki mátti trufla það.
"Þetta eru heldur ekki mín stjórnvöld". Setning allra Íslendinga.
Mér er samt lífsins ómögulegt að skilja af hverju helmingur þjóðarinnar kýs ennþá stjórnaflokkanna eins og skoðanakannanir sýna.
Halla Rut , 5.1.2009 kl. 15:50
Takk fyrir kommentin. Já Halla fólk virðist tregðast dálítið við að átta sig á því að með því að styðja flokkanna er það að styðja ástandið.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.1.2009 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.