2009-01-27
Fréttir frá Íslandi í Dagens Nyheter:
Það lá í loftinu í Reykjavík. Baráttuviljinn og reiðin gegn ríkisstjórninni og hinum valdamikla sjálfsstæðisflokki sérstaklega var of mikil til þess að hún gæti haldið völdum. Ekki einu sinni eftir að forsætisráðherrann Geir Haarde hafði lýst því yfir að það yrðu kosningar í maí en ekki árið 2011 eins og gert var ráð fyrir voru mótmælendur sáttir. Með krónu sem ekur í rússíbana, atvinnuleysi á uppleið og fallandi fasteignaverð voru mótmælendur tilbúnir til þess að mótmæla þar til þeir sáu árangur.
Í Reykjavík hitti ég marga íslendinga, fyrir framan alþingishúsið, sem voru undrandi og sögðu: og við sem mótmælum aldrei. En efnahagskreppan er svo alvarleg og upplýsingar ríkisstjórnarinnar af svo skornum skammti að þegar íslendingarnir byrjuðu að mótmæla gátu þeir ekki hætt fyrr en þeir fóru að eygja breytingar. Höfuð skyldu fjúka, framar öllu ríkisstjórnin og seðlabankinn. Trommurnar og slagorðin héldu áfram eins og í vímu.
Margir íslendingar eru mjög bitrir út í sjálfstæðisflokkinn sem hefur ríkt yfir íslenskum stjórnmálum í áratugi. Sjálfstæðismenn stýra líka seðlabankanum vegna þess að seðlabankastjórinn, Davíð Oddsson, er fyrrum formaður flokksins og forsætisráðherra til 13 ára. Hann er í dag mest hataði maður Íslands og honum er kennt um að hafa í tíð sinni sem forsætisráðherra lagt grunninn að kreppunni vegna allt of veikburða regluverks á sama tíma og efnahagurinn var gefinn laus og bankarnir voru einkavæddir. Bankarnir uxu ótrúlega hratt og urðu fljótlega tíu sinnum verg þjóðarframleiðsla landsins. En það kom í ljós að verðmætin voru uppblásin og þegar fjármálakreppan og skuldirnar féllu hrundu þrír stærstu bankarnir og voru yfirteknir af ríkinu.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú orðin tákn vináttuspillingar og leyniuppgjöra á íslandi. Allir tala um hin nánu tengsl sem réðu milli stjórnmálamanna og bankamanna sem grunn að fjárhagshruni landsins. Á eynni sem hýsir rúmlega 300.000 íbúa þýða sambönd allt og fyrir þá sem hafa viljað ná árangri hafa sambönd við sjálfstæðisflokkinn verið forsenda frama.
Maður verður að vera flokksbundinn til þess að geta klifrað metorðastigann. Þetta byrjaði strax 1890 þegar maður þurfti að vera flokksbundinn til þess að fá lán í Landsbankanum sagði Hallfríður Þórarins, mannfræðingur, þegar ég hitti hana á mótmælum á laugardaginn.
Hún og fjöldi manns talar um að samfélag viðskiptamanna og stjórnmálamanna sé svo spyrt saman að eingin geti þvingað neinn til þess að sleppa takinu. Ef einn fellur þá falla allir.
En Geir varð að lokum að kasta inn handklæðinu. Það er spurning hvað gerist núna. Sterkasti flokkurinn núna eru í raun vinstri grænir samkvæmt skoðanakönnunum og margir velta því fyrir sér hvort þeir myndi nú stjórn með samfylkingu. En samfylkingin sem hefur setið við völd með sjálfstæðisflokknum hefur fengið útreið vegna kreppunnar.
Haarde stakk upp á því þegar hann fór frá völdum á mánudag að mynduð yrði samsteypustjórn þar til kosningar verða í maí og að einhver úr hans flokki skyldi taka við ráðherraembættinu. En það er spurning hvort að íslendingar sem gera kröfu um breytingar sættist á það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:47 | Facebook
Athugasemdir
Gott mál að fólk erlendis fái að sjá að íslenskur almenningur láti til sín taka. Feldi stjórnina - það er sko ekkert smáafrek
Arinbjörn Kúld, 27.1.2009 kl. 01:59
Við getum verið stolt
Hólmdís Hjartardóttir, 27.1.2009 kl. 03:18
Þarna er farið með rangt mál. Davíð er ekki mest hataði Íslendingurinn: Hann er umdeildur og ég er einn af þeim sem tel kallgreyið saklausan. Ég vill hinsvegar að hann fari frá til að flýta því að sátt náist í þjóðfélaginu.
Offari, 27.1.2009 kl. 08:46
Doddi er álíka saklaus og púkinn á fjósbitanum. Hann hótar okkur að koma í pólitík ef hann verði rekinn, hefur einhver heyrt nokkurn mann í jafn miklum sandkassaleik, þetta er með ólíkindum.
Það verður fylgst vel með nýju stjórninni, eins gott að hún sofni ekki á verðinum eins og sú sem nú fer frá. Aðgerða verður krafist, annars verður bylting sem ekki verður kennd við appelsínugulan lit, það er klárt. Nú vitum við að það erum við sem höfum völdin í okkar höndum. Við sváfum allt of lengi á verðinum en höfum loksins lært að það erum við sem erum fólkið í landinu og lýðræðið er tekið í okkar hendur og ég á ekki von á því að við gefum það aftur í hendur misvitra manna.
Rut Sumarliðadóttir, 27.1.2009 kl. 11:11
Glöggt er gestsaugað. Með samtaka mætti steyptum við heilli ríkisstjórn af stóli og við munum halda áfram þar til nýtt lýðveldi kemst á koppinn.
Sigrún Jónsdóttir, 27.1.2009 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.