Hræddir samfylkingarmenn!

Samfylkingin á stóran hlut í efnahagshruni Íslands vegna þess að hún var í ríkisstjórn árin 2007 og 2008 og brást ekki við aðvörunum. Hver ráðherranna ber mestu sökina? Ingibjörg Sólrún, Össur, Björgvin? Það sætir furðu að stjórnmálamenn eins og Össur og Björgvin skuli ætlast til þess að fá að starfa áfram sem þingmenn með þvílíkan feril á bakinu! Sumir kunna ekki að skammast sín! Með þessum orðum er ekki dregið úr ábyrgð sjálfstæðismanna! Hvorugur flokkurinn hefur beðið þjóðina fyrirgefningar! Það er rétt að muna það og muna það lengi!

 

Hvað leggur Samfylkingin svo til til að koma þjóðinni út úr hörmungunum? Ekkert. Alls ekki neitt! Samfylkingin hefur enga framtíðarsýn fyrir íslensku þjóðina. Það er sama að hverju er spurt þau svara: Evrópusambandið! Í sjö mánuði hefur Samfylkingin ekkert lagt til sem getur hjálpað Íslendingum út úr erfiðleikunum sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn steyptu þjóðinni í.

 

Hræddir við að standa á eigin fótum elur Samfylkingin á ótta meðal Íslendinga um að þeir komist ekki áfram án Evrópusambandsins. Skelfingu lostin við að þurfa að standa þolendum sínum, íslenskri alþýðu, skil á ræfildómnum sem þingmenn Samfylkingarinnar sýndu í síðustu ríkisstjórn ala þeir nú stöðugt á ótta. Kinnroðalaust halda frambjóðendur Samfylkingarinnar því fram að Íslendingar geti fengið undanþágu frá lögum Evrópusambandsins, þvert á betri vitund.

 

Samfylkingin hefur ekkert í höndunum sem rennir stoðum undir fullyrðingar hennar um að aðild að Evrópusambandinu flytji lága vexti og lágt vöruverð inn í landið. Því síður hefur Samfylkingin nokkuð í höndunum um að Íslendingar geti samið sig frá sameiginlegri nýtingu Evrópusambandslanda á sjávarútvegsauðlind Íslands: Samfylkingin breytir ekki Rómarsáttmálanum. Hvenær samþykkir meirihluti Evrópusambandsins að gera aðrar náttúruauðlindir líka sameiginlegar?

 

Evrópusambandið er ekki góðgerðarfélag, það er ekki lýðræðislegt samband fullvalda ríkja, það er ekki samstarf frjálsra þjóða, það er ekki framtíðin.

 

Evrópusambandið er hræðslubandalag: Samband þjóða sem er stjórnað af hræddum stjórnmálamönnum. Finnar voru hræddir um að ná sér ekki upp úr kreppunni og þeir vantreystu nágrönnum sínum Rússum. Slóvenar voru hræddir við nágranna sína sem áttu í hatrömmu og blóðugu stríði eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur. Tékkar treystu ekki nágrönnum sínum eftir að pólitískt landslag í Austur-Evrópu gjörbreyttist með falli kommúnismans. Rúmenar, Pólverjar og Ungverjar eygðu peningastyrki við inngöngu. Frakkar og Þjóðverjar óttuðust stríð og stofnuðu til samstarfs sem síðar varð að Evrópusambandinu. Eystrasaltslöndin flúðu öll í ESB af ótta við Rússa. Danir naga sig í handarbökin yfir því að vera flæktir í regluverk Evrópusambandsins.

 

Það er nánast útilokað fyrir þjóð að segja sig úr Evrópusambandinu. Þjóðir afsala sér fullveldi til Evrópusambandins: Evrópusambandsþjóð getur ekki gert viðskiptasamning við land utan sambandsins. Evrópusambandið  stendur á brauðfótum, sbr. fréttir frá Ítalíu, Spáni, Írlandi, Austurríki og Lettlandi.

 

Hvað ætla hræddir samfylkingarmenn að gera þegar Íslendingar segja: Nei við ESB? Gerir Samfylkingin ráð fyrir þeim möguleika eða treystir hún á að henni takist að hræða Íslendinga nægilega mikið?

 

Þökk sé Samfylkingunni, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum að Íslendingar eiga ekki grænan eyri? Hefur Samfylkingin fengið lán hjá Evrópusambandinu fyrir aðildarviðræðum? Á að senda reikninginn til þjóðarinnar eins og hina reikninga?

 Samfylkingarfólk, hvað munu aðildarviðræður kosta? Eða á ekki að tala um kostnaðinn?

Bláfátækir byggðu Íslendingar upp gott og heiðarlegt samfélag á síðustu öld. Óheiðarlegir og vanhæfir stjórnmálamenn eyðilögðu samfélagið. Nú vilja þeir afhenda framtíðina andlitslausum embættismönnum Evrópusambandsins sem enginn hefur kosið. Sigríður frá Brattholti ein og sér bjargaði Gullfossi. Tökum hana okkur til fyrirmyndar. Samfylkingin getur flutt til Brussel.

 

Helga Garðarsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

ég er orðin voða þreytt á þessu tuði um að eina leiðin sé Evrópursambandið.  Ég lít á  þá sporgöngumenn sem landráðamenn ekkert minna.  Nú á að hamra járnið og koma okkur inn í þetta ómanneskjulega samband með góð eða illu.  Og hver segir að við fáum allt upp á borð í samningaviðræðum.  Erum við búin að gleyma Kárahnjukavirkjun þar sem óþægilegum málum var stungið undir stól, og þjóðin fékk bara að vita það sem hentaði stjórnvöldum, og hvar er ALLT UPP Á BORÐINU NÚNA STATT? Nei ég treysti ekki stjórnvöldum til að segja okkur satt ef við förum í aðildarviðræður.  Hreint út sagt tel ég að við verðum plötuð inn i þetta samband sem ég tel algjörlega óásættanlegt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2009 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband