2009-05-13
Sérhagsmunir eða velferð almennings?
Ekki verður séð að almenn velmegun í samfélaginu hafi verið meginmarkmið með efnahagsstjórn valdhafanna á undanförnum áratugum. Þeir sem vilja réttlæta afleitt stjórnarfar á Íslandi spyrja gjarnan já, en nutum við ekki góðærisins? Við þá vil ég segja það var ekkert góðæri á Íslandi.
Raunveruleg efling verðmætasköpunar var ekki til staðar en það skildu valdhafarnir ekki og kölluðu ástandið þess vegna góðæri. Ásýnd velmegunar var sköpuð með skuldasöfnun. Valdhafarnir skildu ekki að raunveruleg auðlegð byggir á bættri eignastöðu en ekki skuldasöfnun. Enn eimir eftir af þessum hugsunarhætti hjá mörgum en þeir telja meiri skuldir styðji endurreisn Íslands.
Sérhagsmunagæsla á kostnað velferðar
Stjórnvöld á Íslandi hafa kappkostað að bæta velmegun tiltekins hóps en ekki gætt að hagsmunum fjöldans. Þau hafa misnotað hagtæki á borð við krónuna og verðtrygginguna til þess að rétta af halla fjármagnseigenda og auðvalds á kostnað launþega og skuldara. Áhættan af slælegri efnahagsstjórn og náttúrulegum áföllum er færð af áhættusæknum fjárfestum og með valdboði á launþega sem oftar en ekki eru launþegar vegna þess að þeir eru ekki áhættusæknir.
Stjórnvöld hafa íþyngt láglauna- og millitekjufólki með hærri skattabyrðum en fjármagnseigendum og auðmönnum/konum. Flækjustig hagstjórnar er of hátt til þess að almenningur átti sig alltaf á þessu fyrirbæri en stjórnvöld hafa ekki gert þetta óvart. Þjónkun valdhafanna hefur verið við hina gjafmildu auk þess sem hagsmunaþræðir hafa legið á milli stjórnarráðs og viðskiptalífs. Krónan og verðtryggingin eru ennþá í fullu starfi fyrir valdhafanna og í þjónustu fjármagnseigenda.
Stjórnarfar á Íslandi og hefur gjarnan verið kennt við kleptocraty og oligarcy. Misnotkun á stjórnarráðinu og stofnunum ríkisins einkennir svona stjórnarfar og leiðir smám saman til fátæktar hins almenna borgara sem ekki hefur aðgang að nægtaborðum oligarkanna og kleptokratanna. Sviksemi valdhafanna við almenning á Íslandi á sér djúpar rætur og liggur meðal annars í lénsherraveldi sem hefur verið við lýði lengi.
Skipting gæðanna
Almenningur hefur ekki haft nægilega innsýn til þess að bregðast við síaukinni ásókn fámenns hóps í verðmætin sem skapast í landinu. Hagfræðilegri rentu af auðlindunum hefur verið sópað í vasa afmarkaðs hóps einstaklinga og erlendra auðhringa en almenningur skilin eftir stórskuldugur.
Einokun og sérstaða fárra hefur þrifist lengi á Íslandi. Dæmi um þetta er hvernig nýliðar í bændastétt hafa þurft að kaupa sig inn í styrkjakerfi, einokun Íslenskra aðalverktaka á verkefnum fyrir varnarliðið, kvótaframsal, einkavinavæðing og leynimakk í samningagerð við orkusölu til stóriðju. Um fimmtíu ríkisfyrirtæki voru einkavædd síðastliðin tuttugu ár og hefur farið hljótt um flestar einkavæðingarnar. Á síðasta ári var heilbrigðiskerfið komið í brennidepil.
Áhersla á stóriðju dregur úr sköpunarkrafti
Verstu svik valdhafanna við almenning voru þó hvernig þeir eyðilögðu heilbrigt atvinnuumhverfi og fjölbreytni í atvinnusköpun í byggðum landsins. Margbreytni í atvinnusköpun hefur gildi í sjálfu sér og dregur úr áhættu. Ef atvinnulíf er einhæft má lítið út af bregða til þess að allt hrynji. Þrátt fyrir bitra reynslu virðast valdhafar ekki hafa skilið þetta ennþá en hugmyndir þeirra um endurreisn virðast fyrst og síðast felast í byggingu fleiri álvera. Því fleiri álver sem rísa á Íslandi því háðari verður þjóðarbúið alþjóðafyrirtækjum.
Orkan og fjármagnið var sett í að byggja upp fábreytt atvinnulíf sem skilaði ofurgróða til fámenns hóps og erlendra fjárfesta. Fjármálakerfi, stóriðja og kvótabrask dró allan mátt úr öðru framtaki. Starfsemi sem skilar atvinnu og launum til einstaklinga og tekjum í ríkissjóð en litlum gróða í vasa lénsherranna eða erlendra auðhringja hefur ekki fengið að dafna. Dæmi eru um að frumkvöðlar hafi þurft að flýja land með hugmyndir sínar. Nýsköpun í atvinnulífi hefur verið drepin niður með okurverði aðfanga og einokun milliliða.
Nýtt Ísland nær ekki að rísa úr brunarústunum nema að hagsmunir lénsherra og auðvaldsinna verði undir í baráttunni sem nú geisar um gæðin en almenningur og byggðir landsins njóti réttlætis. Snúa þarf af þeirri leið að leyna almenning hagsmunatengslum sem koma í veg fyrir heilbrigða ákvörðunartöku og samfélagslegan ávinning.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
blessuð Jakobína.
Meira að segja Tahtcher fattaði þessi einföldu sannindi að þú byggi rekki upp velmegun með örfáum stórverkssmiðjum. En kallinn í Rúmeníu, Sjálfseskú eða þannig , átti erfiðar með að fatta þessi einföldu sannindi.
En takk fyrir góðan pistil og kveðjur í bæinn.
Ómar.
Ómar Geirsson, 13.5.2009 kl. 14:26
Matthías Ásgeirsson, 13.5.2009 kl. 14:32
Mattías!
þetta er fyrst og fremst ríkasta 1% fjölskyldna, sem fór úr því að hafa 4.2% af heildar tekjum árið 1993 í það að hafa 19.8 % af tekjum landsmanna árið 2007.
Auðvaldið skuldar vissulega mikið en það hefur töklin og haldirnar í ákvarðanatöku eins og sést ef skoðuð er þróunn tekjuskiptingar á árunum 1993 - 2007
Benedikt G. Ofeigsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 14:45
Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því, en það hefur töluvert breyst frá árinu 2007!
Matthías Ásgeirsson, 13.5.2009 kl. 15:49
Matthías en hefur þú tekið eftir því að lítið hefur breyst frá því í haust þegar bankarnir hrundu nema þá helst til hins verra.
Áróðurinn hefur sennilega aldrei verið eins svæsinn og forheimskandi.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.5.2009 kl. 15:54
Cháseskú eða hvað hann hér endaði æfi sýna á aðfangadag framan við nokkra byssukjafta sem að lokum geltu að honum og eiginkonu hans. Þannig fór um sjóferð þá.
Arinbjörn Kúld, 13.5.2009 kl. 17:13
Flott grein hjá þér Jakobína.
Ég hef hvergi séð neitt í stefnumálum nýtilkominnar stjórnar þar sem er tekið á því að breyta þessu með stóriðjuna! Þvert á móti á að halda á sömu braut (gróði til fámenns hóps) en ekki á að gera neitt til að auka framleiðni og verðmætasköpunar út um allt land. Því aðeins þannig er hægt að rétta þjóðarbúið út úr skuldahalanaum. Aukin verðmætasköpun sem nýtist (líka) með framleiðsluvörum sem við gætum selt erlendis.
Atvinnusköpun hjá þeim virðist svo mikið eiga að snúast um Álver, halda áfram byggingum og sprotafyrirtækjum.
Sprotinn er svo sem í lagi ef skapar einhver störf. En það er bara engin verðmætasköpun fyrir Ísland í hinu.
Ég er alltof svo til í einhverja baráttu
Ertu tilbúinn að setja saman alvöru nákvæma málefnaskrá stjórnar hins nýja-lýðveldis: Nýja Íslans?
Ég væri tilbúinn að vinna með þér að þessu. Afhverju ekki Nýja Ísland að gera svona eins og þessi málefnapakk frá nýju ríkisstjórninni?
Gerum áætlanir þar sem við sínum fram á hvað hægt væri að gera! Allt fráA til Ö.
Guðni Karl Harðarson, 13.5.2009 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.