Hvaða sjónarmið eiga rétt á sér

Mánuðum saman hefur Icesave-málinu verið troðið inn í kerfi pólitískrar hugsunar.

Vísað hefur verið í álit ónafngreindra aðila sem eignaðir eru kostir sem engin rök eru færð fyrir.

Bjartsýnisspár hafa þann ágalla að þær tak fyrir varúð. Orðið bjartsýni hefur jákvæðan hljóm vegna þess að þeir sem eru bjartsýnir eru jákvæðir og hugaðir. Hinir svartsýnu eru sakaðir um úrtölur. Í hagfræðilegu tilliti leiðir of mikil bjartsýni til glannaskapar og taps en of mikil svartsýni til aðgerðaleysis.  Einhversstaðar í þessu dæmi ætti að vera pláss fyrir raunhæf sjónarmið sem leiða til hæfilegrar varfærni.

Staðan sem komin er upp, í efnahagskerfi og stjórnarfari landsins, er óvenjuleg og á sér enga samsvörun í Íslandssögunni og varla margar í sögu annarra landa.

Ástandinu í efnahag landsins má helst líka við ástand þar sem spilltir einræðisherrar hafa ríkt um langa hríð. Allir sjóðir hafa verið tæmdir og landið stórskuldugt.

Íslendingar eru í dag hræddir og áhyggjufullir. Það sem vekur mestar áhyggjur landsmanna er að þeir sem hafa farið um rænandi og ruplandi í skjóli viðskipta, stjórnmálavalds og embætta berjast nú hart fyrir því að halda áfram á sömu braut.

Gríðarlegar lántökur og friðþæging við alþjóðlegt fjármálakerfi þjóna fyrst og fremst þeim sem vilja halda áfram þar sem frá var horfið haustið 2008.

Íslenskur almenningur mun ekki njóta góðs af þessum lántökum heldur mun honum gert að greiða lánin og vexti af þeim á meðan aðrir munu nýta sér kosti þessarar lántöku. Fátækir Íslendingar munu tryggja fámennum hóp gott líf í London eða á Manhattan.

Sjónarmið um réttlæti og félagslega aðstöðu hafa fengið lita athygli í deilum um Icesave og fengið lítið vægi í þeim áróðri sem beint hefur verið að þjóðinni. Gjarnan er einblínt á einn þátt í einu og heildarmyndin hunsuð.

Orðfæri eins og umbætur í efnahag landsins eru gjarnan notuð en lítið gert til þess að skilgreina nánar í hverju þessar umbætur felist eða hverjum þeim þjóni.

Sú stefna í ríkisfjármálum sem er haldið uppi núna er stefna ný-frjálshyggjunnar sem beinist að því að bjarga auðmönnum og fjármálakerfi á kostnað almennings.

Skjaldborg samfylkingarinnar er komin til London.


mbl.is Nefnd vinnur að breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband