Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti verið að þingmenn og ráðherrar skilji ekki efnahagslegt samhengi Icesave málsins. Ég hef tekið það sem sjálfsagðan hlut að þingmenn og ráðherrar skildu efnahagslegt eðli skaðans af bankahruninu eins og það lýtur að Bretum.
Ég hef verið nokkuð grimm í gagnrýni minni á stjórnvöld en spyr mig nú hvort það geti verið að þau hafi ekki forsendur til þess að skilja skaða Breta sem er mun minni, vegna efnahagslegs samhengis, en ætla mætti.
Til þess að einfalda málið ætla ég eingöngu að tala um breska samninginn.
Ég hef dregið þá ályktun að fjármunirnir sem lagðir voru inn á innlánsreikninga Icesave hafi aldrei borist til Íslands. Þetta hefur aldrei verið upplýst en er mjög þýðingarmikið fyrir mat á skaða Breta.
Þessum fjármunum var aldrei hleypt inn í íslenskt efnahagskerfi og hafa þess vegna ekki verið í neinni vinnu á Íslandi almenningi til hagsbóta.
Mín ályktun er að þessir fjármunir séu í vinnu í bresku hagkerfi í umboði þeirra sem voru í aðstöðu til þess að taka lán í Landsbankanum.
Það liggur fyrir að ríki mega ekki veita tryggingarsjóðum innlána ríkisábyrgð skv tilskipun ESB.
Icesave samningur Breta er kallaður "loan agreement" og er samningur um lán til tryggingarsjóðsins en ekki til ríkisins. Gott og vel en Bretar gera kröfu um að ríkisábyrgð sé á þessu láni.
Jóhanna Sigurðardóttir kallar það sem Bretar kalla "loan agreement" "compensation" í bréfi sínu til Financial Times.
Þá komum við að kjarna málsins: hvert er eðli skaða hins breska ríkissjóðs?
Ef Icesave innistæðurnar eru í vinnu í Bretlandi eins og ég get mér til er skaði breska ríkisins ekki nema brot af þeim útgjöldum sem það hefur þurft að standa undir vegna bóta til innistæðueigenda þar í landi einfaldlega vegna þess að peningarnir hafa runnið út í hið breska hagkerfi og eru að skila sköttum og gjöldum þar, auka atvinnustig og gera annað sem peningar gera í hagkerfum. Upphaflegar innistæður runnu út í hið breska hagkefri og bæturnar til innistæðueigenda gera það líka.
Fyrir utan það að samningurinn sem Bretar vilja kalla "loan agreement" gerir ráð fyrir að Bretar muni hagnast á vaxtamun mun breska ríkið hagnast á því að auknu fjármagni er spýtt inn í þeirra hagkerfi frá Íslandi.
Það þarf því að hafna þessari ríkisábyrgð og kanna betur forsendur fyrir skaða breska ríkisins. Það er grundvallaratriði að upplýst sér hvert fjármagnið streymdi og hvaða efnahagslögsaga er með þessa fjármuni í vinnu.
Bestu kveðjur
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.