Ég hef eins og margur sinnt mínu daglega lífi og ekki velt því fyrir mér hvernig heimurinn hefur verið að þróast. Jú vissulega hef ég orðið vör við samfélagsbreytingar sem mér hugnuðust ekki. Ég hef orðið vör við yfirgang heimsvaldsafla og ekki líkaði mér þegar Bush náði kjöri í Bandaríkjunum á sínum tíma.
Skaðræðisþróun varð einnig á Íslandi undafarna áratugi. Öfl sundrungar tóku til að riðla því fátæka skipulagi sem þó var á hlutunum.
Þessar hugrenningar voru frekar í jaðri minnar vitundar og höfðu ekki nægilega sterk áhrif til þess að verða hvati að því að ég risi upp og gerði eitthvað í málinu. Það var ekki fyrr en óþverrinn heltist yfir mína eigin persónu í formi bankahrunsins sem ég vaknaði almennilega upp og sagði við sjálfa mig að nú væri komið nóg.
Hugtakið siðmenning (civilization) hefur merkingu sem vert er að draga inn í umræðuna við aðstæður sem skapast í kjölfar bankahrunsins. Hugtakið er frekar óskýrt en ég ætla að skoða skilgreiningu Wikipetia og prjóna síðan minn skilning út frá henni.
Einn skilningur á siðmenningu er að hana megi skilja frá annarri menningu vegna félagslegs margbreytileika, skipulags og fjölbreyttrar og menningalegrar starfsemi. Hugtakið siðmenning er þó oftar notað á gildishlaðnari hátt þar sem orðið tekur á sig merkingu borgarmenningar og teflt fram sem menningu æðri öðrum og villtari menningum. Oft gefur notkun hugtaksins til kynna merkingu um yfirburði í menningu eða siðferðislega yfirburði tiltekinna hópa. Siðmenning getur því vísað til vandaðrar hugsunar, siða eða smekks.
Hugtakið siðmenningu tel ég heppilegt að nota í víðri merkingu og telja einnig að það hafi jákvæða skírskotun til samfélags manna.
Ég ætla því gefa því þá merkingu í minni umræðu að siðmenning endurspegli siðmenntað samfélag sem er skipulagt með tilliti til almennrar velferðar. Almennt gildismat í siðmenningu hyllir vandaða hugsun, skýra framsetningu á hugtökum og umræðu sem felur í sér gagnsæi og skilning.
Þegar ég lít til umræðu í fjölmiðlum, umræðu á pólitískum vettvangi og hegðun í stjórnsýslu og viðskiptalífi skynja ég hnignandi siðmenningu.
Íslensk siðmenning hefur ekki verið upp á marga fiska í þeirri merkingu hugtaksins sem ég gef því hér. Það er gagngert unnið gegn "menntun" á íslandi en áróður og þjálfun þess í stað kallað menntun. Kenningar sem vinna gegn almannahag eru settar fram kinnroðalaust, fólk hiklaust útskúfað af vinnumarkaði ef það segir hug sinn eða lætur í ljós vantrú á falskenningunum.
Fólk sem tekur upp á því að tengja saman upplýsingar í því skyni að skapa þekkingu og auka skilning á samfélaginu er hiklaust ofsótt.
Á Íslandi hefur þróast mesta mismunun sem þekkist í hinum vestræna heimi í aðgangi að veraldlegum gæðum. Óréttlátur aðstöðumunur telst sjálfsagður og honum viðhaldið með leyndarhyggju og þöggun.
Það er fyrst og fremst á ábyrgð okkar sjálfra að berjast og rísa upp gegn þessu. Meðan almenningur tekur gagnrýnilaust á móti forheimskutali stjórnmálamanna mun þjóðin heftast í þroska.
Aukin þroski þjóðar og siðmenning vex með opinni umræðu, gangsæi, virðingu fyrir merkingu hugtaka, virðingu fyrir sköpun þekkingar og eflingu skilnings á samfélagsgerð. Þátttaka almennings í mótun samfélagsins er grundvöllur að betra samfélagi.
Bendi á ágætan pistil hér
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:26 | Facebook
Athugasemdir
TAkk fyrir góða grein, og hlekk á grein vaktarinnar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.9.2009 kl. 01:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.