2009-10-01
Þetta er dapurt
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja þessa færslu. Ég er nánast orðlaus. Ég hef oft velt fyrir mér undarlegri hegðun Jóhönnu og Steingríms undanfarna mánuði. Getur það verið að þau skötuhjú hafi blekkt þjóðina í hálft ár um vilja Norðmanna til þess að styðja Íslendinga í kjölfar bankahrunsins.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna Norðmenn hafi ekki rétt hjálparhönd. Hvers vegna Steingrímur kom með þau boð af fundi með fjármálaráðherra Norðmanna Kristínu Halvorsen að Norðmenn höfnuðu aðstoð við Íslendinga nema þeirri sem kæmi í gegn um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þetta hefur komið mér spánskt fyrir sjónir vegna þess í fyrsta lagi að hagsmunir Norðmanna eru samtvinnaðir við hagsmuni Íslendinga og í öðru lagi vegna þess að Norðmenn bera bróðurþel til Íslendinga og kalla þá "vår broderfolket på Island ".
Hvað sem til er í því að Norðmenn vilji lána eða ekki lána þá hlýtur það að teljast undarlegt að ríkisstjórnin hafi ekki sótt formlega um aðstoð.
Áróðurinn hefur gengið skefjalaust yfir þjóðina sem er sífellt sökuð um alls konar ósóma og talið trú um að hún verði að taka á sig drápsklyfjar til þess að leiðrétta einhverja misgjörninga sem aldrei eru almennilega skýrðir.
Jóhanna kallaði ríkisstjórnina ríkisstjórn velferðar, jöfnuðar og félagshyggju. Ég hef þau skilaboð að færa Jóhönnu að ríkisstjórn getur ekki talist ríkisstjórn velferðar, jöfnuðar og félagshyggju bara af því að Jóhanna segir að hún sé það. Það eru verkin sem tala og ríkisstjórnin þarf að ávinna sér þessa eiginleika með verkum sínum en ekki lýðskrumi.
Verkin sem við þekkjum þessa ríkisstjórn af eru að fjármagna bankanna með óréttmætri innheimtu af fjölskyldufólki sem skuldar og skatttekjum sem þá eru teknar úr velferðakerfinu og afhenda þá síðan erlendum lánadrottnum.
Að horfa aðgerðarlaus upp á auðlindasölu og vega þannig að lífsgæðum komandi kynslóða.
Að hafa frá upphafi mætt kröfum almennings um leiðréttingar með hangandi hendi.
Að ráðgera að byggja upp orkufrekan iðnað þótt sýnt hafi verið fram á að hann færir þjóðarbúinu ekkert nema auknar skuldir.
Að lækka laun og nánast rífa niður velferðarkerfið.
Þessi ríkisstjórn hefur reynst gjörsamlega ónýt við að koma frá spilltum einstaklingum úr stjórnsýslu og meðal hennar sitja einstaklingar sem hafa tekið fullan þátt í spillingunni og þegið mútur.
Helsta myrkraverk þessarar ríkisstjórnar er þó að ganga fram með leyndarhyggju og blekkingar. Ljúga til um samskipti við aðrar þjóðir og berja niður sjálfsmynd þjóðarinnar með fullyrðingum um að hún hafi framið glæpi og sé ábyrg fyrir ósómanum sem hér hefur átt sér stað.
Sjálfstæðismenn og framsókn höguðu sér eins og verstu sóðar í umgengni sinni um hagsmuni þjóðarinnar, ríkiseigur, stofnanir og alþingi. Bankahrunið er myrkraverk sjálfstæðis- og framsóknarflokks en skaðræðið sem af því hefur hlotist verður líka að skrifast á samfylkinguna. Samfylkingin hefur sýnt eindæma getuleysi í aðdraganda hrunsins og með aðstoð Steingríms J Sigfússonar gert allt til þess að véla sjálfstæði og lífsgæði af þjóðinni í kjölfar hrunsins.
Ég verð að viðurkenna að ég get ekki með nokkru móti skilið þessa hegðun. Þetta fólk komst í þá aðstöðu að geta verið leiðandi í því að koma þjóðinni upp úr þeim erfiðleikum sem á henni dundu en í stað þess fóru einhverjar hagsmunavélar í gang og þau glopruðu frá sér tækifærinu til þess að láta gott af sér leiða.
Hlustið vel á það sem Ögmundur Jónasson sagði í Kastljósinu.
Það er til plan B.
Plan B felst í því að þjóðin rísi upp og segi NEI.
Við fórnum ekki framtíð barna okkar fyrir skammtímavandamál.
Enginn bilbugur á stjórninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:45 | Facebook
Athugasemdir
Stígum fyrsta skrefið í plani B á Austurvelli á morgun kl. 13.
Þeir sem komast ekki á Austurvöll geta flaggið fána "vonar og samstöðu".
http://www.facebook.com/profile.php?id=100000173687131&ref=profile#/event.php?eid=151720227232&ref=mf
Helga (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 03:04
Það var beðið um aðstoð. Henni var hafnað. Halvorsen lýsti yfir að Norðmenn myndu ekki borga fyrir „hægritilraunir“ Íslendinga. Nýja boðið kemur frá formanni Miðflokksins. Það boð er umboðslaust uns annað kemur í ljós.
Arngrímur (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 03:21
Spurningin er hvort farið var formlega fram á aðstoð. Ef ekki hefur verið farið formlega fram á aðstoð hefur sá sem svaraði óformlegum umleitunum ekki haft umboð til þess að hafa þeim.
Svona lagað fer ekki fram í spjalli milli gamalla vina. Það verður að fara í gegnum formlegt ferli til þess að niðurstaðan sé marktæk.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.10.2009 kl. 03:25
Það er það sem ég átti við. Samkvæmt mínum besta skilningi var formlega farið fram á aðstoð frá öllum norðurlandaþjóðunum, en svarið var alstaðar það sama. Icesave skal útaf borðinu fyrst. Þau þóttust trega það mjög, vinir okkar. En auðvitað er það alltsaman pólitík.
Arngrímur (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 03:33
Merkilegt að þræta bara fyrir þennan möguleika. Ég get ekki betur sér að ráðherrarnir þræti ekki fyrir að hafa ekki farið formlega leið.
Það myndi vera gríðalega verðmætt fyrir þjóðarbúið ef lánalínur myndu opnast og gera gjaldeyrisvaraforðalán óþarft.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.10.2009 kl. 03:44
Takk fyrir mjög góða grein, Jakobína! Samfélagslegt meðvitunarleysi þeirra Jóhönnu og Steingríms er reyndar orðið svo áþreifanlegt að maður getur ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að siðrofið hjá báðum sé þvílíkt að þau séu að í raun að þjóna einhverjum allt öðrum hagsmunum en þeim sem þau segjast vera að þjóna! Þau hafa tekið stöðu gegn þjóðinni eins og þeir sem settu okkur á hausinn tóku stöðu gegn krónunni á sínum tíma...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.10.2009 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.