Fúnar stoðir

Bankahrunið er afleiðing af vondum ákvörðunum, kerfi sem er galopið fyrir misnotkun og menningu þöggunar.

Við þurfum að líta tuttugu ár til baka og skoða hvernig ákvarðanir stjórnmálamanna og löggjöf hefur hrundið af stað atburðarrás sem endaði með hruni, ekki bara bankahruni heldur hruni stjórnmála, menningar og trausts. Niðurrifið var framið í skjóli leyndar og blekkinga.

Það er lítil eftirsjá eftir stjórnmálum sem kunna ekki fótum sínum forráð, menningu sem krefst þess að hvíslað sé í hornum og trausti á aðilum sem ekki hafa áunnið sér það með hæfni eða heilindum.

Hrunið hefur þó í för með sér að byggja þarf upp á rústum þess gamla. Skipta þarf út stjórnmálum sem glatað hafa gildi sínu vegna ótrúverðugleika. Endurhanna þarf kerfi sem byggir á fúnum stoðum.

Byggja þarf á heilsteyptri framtíðarsýn við mótun nýrrar stjórnarskrár. Sjálfbærni, atvinnufrelsi og gæfa komandi kynslóða þarf að vera leiðarljós við gerð nýrrar stjórnarskrár.

Stjórnvöld hafa fyrir og eftir hrun lagt þungann á að bjarga útbelgdu fjármálakerfi en fjármálakerfi skapa ekki verðmæti. Það gerir atvinnulífið hins vegar, framleiðslugreinar og þekkingarfyrirtæki. Ofuráhersla á björgun fjármálakerfis hefur skapað ójafnvægi sem ógnar afkomu núverandi og komandi kynslóða.

Mín framtíðarsýn er að byggja upp samfélag þar sem þjóðarhagur er tekinn fram yfir sérhagsmuni klíkustétta sem tryggt hafa sér einokun í aðgangi að náttúruauðlindum.

Mín framtíðarsýn er að byggja upp kerfi sem tryggir endurnýjun í stjórnmálum, sem gefur kjósendum kost á að velja einstaklinga sem þeir treysta í kosningum.

Mín framtíðarsýn er að skila náttúru landsins í góðu ásigkomulagi til afkomenda okkar.

Það er hægt að hafa veruleg áhrif á þá þætti sem ég hef talið upp hér með vandaðri stjórnarskrá. Grundvöllur framfara er þó félagsleg uppbygging í samfélagi. Menning sem umber gagnrýna umræðu og hvetur til skoðanaskipta. Því þannig lærum við sem félagsverur. Þannig verður til þekking sem við getum nýtt okkur í baráttunni um lífsbjargir og frelsi. Þekking sem er hreyfiafl framfara og lýðræðis.

 


mbl.is Fjörugar umræður í Salnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góð færsla hjá þér hafðu þakkir fyrir.

Sigurður Haraldsson, 27.10.2010 kl. 00:48

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk ég er búin að senda betri útgáfu á svipuna

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 27.10.2010 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband