Hvar er fagmennskan í hagfræðilegum útreikningum á kostnaði í heilbrigðiskerfinu?

Í fréttum stöðvar tvö var sagt að rándýrt tysabri lyf kosti 5 milljónir fyrir einn sjúkling í eitt ár.

MS sjúklingar sem fá tysabri hætta að taka önnur lyf þegar þeir eru meðhöndlaðir með tysabri.

Tysabri kostar um 270 þúsund á mánuði en lyf sem MS sjúklingar eru á fyrir og hætta að taka kosta yfir 100 þúsund á mánuði.

Lyfið er gefið fólki sem er með virkan kastasjúkdóm og fá eitt til tvö köst á ári. Þegar MS sjúklingur fær kast er hann lagður inn á sjúkrahús í nokkra klukkutíma á dag í þrjá daga í steralyfgjöf en ef sjúklingurinn er mikið fatlaður eða veikur innlögn í nokkra daga. Sjúklingar sem frá tysabri fara á sjúkrahús einu sinni í mánuði í tvo til þrjá klukkutíma.

Það er því ljóst að nettókostnaður vegna lyfjagjafar er mun lægri en gefið er í skyn.

Fyrir utan það sem tekið er fram hér að ofan dregur lyfið úr fötlun, heldur fólki vinnufæru og sparar umönnun og hjálpartæki sem eru rándýr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Meðan Tysabri er ennþá glænýtt lyf og í hæsta verðflokki (eins og búast má við að það verði fyrstu misserin) þá er hæpið að hægt sé að reikna sig upp í að sjálfur lyfja- og sjúkralegukostnaðurinn verði lægri. Ætli meirihluti steralyfjagjafanna sé ekki á dagdeild, þannig að sjúklingarnir leggjast ekki inn á meðan. Það er líka hæpið að slá því föstu að tysabri dragi svo mjög úr steragjöfum að það geti náð upp í verðmuninn á gömlu og nýju lyfjunum.

Ef hins vegar er reiknað með í dæmið að tysabri virkar best sem fyrirbyggjandi lyf og getur haldið fólki á vinnumarkaði eða utan sjúkrastofnanna - þá er líklegt að reikningsdæmið fari að líta betur út.

En er ekki stóra málið sjálft grunnprinsipið: hvort við viljum tryggja sjúklingunum okkar bestu mögulegu lyf - þótt það kunni að kosta okkur meira en lakari lyfin?

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 19:54

2 Smámynd: TARA

Ég er ekki fróð um þetta lyf, en allir ættu að eiga rétt á góðri umönnun og bestu fáanlegum lyfjum, burtséð frá kostnaði !!

TARA, 23.3.2009 kl. 20:29

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sem betur fer þekki ég ekki MS sjúkdóminn nema af afspurn og þá úr fjölmiðlum. Þekki reyndar einn sjúkling mjög lítið, hef hitt hann í fjölskylduboðum og þá eiga sér ekki stað nein trúnaðarsamtöl.

Þetta nýja lyf er vissulega til þess að vekja vonir þeirra sem eru með sjúkdóminn og ekki veitir af. Mér finnst afar hæpið að ætla að það sé af "sparðanaðarástæðum" sem lyfið er ekki gefið. Heldur hitt að þetta er enn á tilraunastigi og þá er farið afar varlega.

Sá á netinu að dauðsföll erlendis hafi hægt á ferlinu. Heilbrigðisráðherra er að skoða málið ég og hef fulla trú á að það sé faglega gert. Mér finnst mjög óvarlegt að dæma um svona mál. Þarna er að sjalfsögðu miklar tilfinningar í spilinu sem er afar eðlilegt. Vona svo sannarlega að sem allra flestir fái tækifæri til að not lyfið og það gefi góðann bata

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 22:50

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Lyfið er búið að vera á markaði í mörg ár og hæpið að segja að það sé á tilraunastigi.

Fréttir af dauðsföllum eru frekar ýktar og eiginlega til skammar. Ég veit til dæmis ekki til þess að eitt einasta dauðsfall hafi orðið af völdum lyfsins í Evrópu.

Ef lyfið væri eins hættulegt og menn vilja vera láta þá væru ekki 45 einstaklingar að fá lyfið og alls ekki þeir, í þeim hóp, sem ekki uppfylla skilyrði tysabri verkefnisins.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.3.2009 kl. 22:57

5 identicon

Vandamálið varðandi hættuna af notkun Tysabri er nokkuð snúið. Það hafa vissulega orðið nokkur dauðsföll og mörg dæmi um að fólk hafi fengið slæm ofnæmisviðbrögð við lyfinu, enda er ákveðið hlutfall MS-fólks sem þolir ekki notkun þess. Slíkar uppákomur hafa átt sér stað við notkun lyfsins hér á landi.

Þessi vandamál, gera það að verkum aðmjög strangar kröfur eru gerðar varðandi notkun lyfsins - bæði af yfirvöldum og ekki síður af framleiðandanum sjálfum. Þessar kröfur framleiðandans eru líklega óþarflega strangar, en fyrirtækið er að baktryggja sig fyrir mögulegum málsóknum eins og tíðkast t.d. í Bandaríkjunum. Það er því vandséð að LSH gæti ákveðið að slá af öryggiskröfum.

Þessar kröfur fela meðal annars í sér að Tysabri má ekki gefa nema inni á viðurkenndu sjúkrahúsi, með tiltæka bráðaskurðstofu og undir leiðsögn fagfólks. Þess vegna kemur ekki til greina að gefa lyfið annars staðar en í Reykjavík.

Þetta þýðir að sjúklingar sem eru að fá Tysabri taka frá talsverðan mannskap og rými á taugadeildinni á Landsspítalanum og veruleg aukning á fjölda þeirra sem lyfið fá myndi kalla á aukið rými og mannahald. Það eru ÞESSI útgjöld sem mér sýnist að standi í stjórnendum spítalans, frekar en sjálfur lyfjakostnaðurinn.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 23:14

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hergaganaiðnaðurinn býr til stríð til að losna við framleiðsluvöruna og til þess að ljúga það fram kostar hann grimmt sérstakar pólitískar skækjur í svokölluðu lýðræði sem er ekkert annað en sölumennska. Lyfjaiðnaðurinn vinnur mikið til á sama grundvelli. Það er byrjað að dæla óþverra í ungbörn skömmu eftir fæðingu og það sem veikt er fyrir deyr fljótlega eða fær einhver hræðileg uppdráttarsýnróm eða verður einhverft og síðan stefnir hröðum skrefum í að hreinlega allir fái krabbamein. Lausnin er síðan enn meiri lyfjamokstur sem drepur enn fleiri osfrv. Þetta er frábær svikamylla og varin í bak og fyrir af pólitískum skækjum, ruslveitum og pólitískum rétttrúnaði.

Baldur Fjölnisson, 23.3.2009 kl. 23:27

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Stefán þessi varúð sem þú talar um gildir hún ekki líka um lyfjagjöf vegna krabbameins, vegna hjartaþræðinga o.s.frv. Er það ekki í eðli heilbrigðisþjónustu að sýna varúð og vera með vel þjálfað starfslið. Ég get ekki séð að þessi meðferð sé nokkuð öðruvísi en aðrar hvað það varðar.

Mér finnst málflutningur þinn satt að segja mjög ótrúverðugur. Vilt þú útskýra nánar hvað þú meinar með "talsverðan mannskap" en hver MS sjúklingur þarf eingöngu að taka upp tvo til þrjá klukkutíma á mánuði. Þessi fullyrðing um rými er hjákátleg. Hvaða sjúklingar þurfa ekki rými?

Ég hef það eftir frekar öruggum heimildum að einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrði verkefnisins hafi fengið lyfið. Ég þekki það þó ekki frá fyrstu hendi og set því við það þann fyrirvara en það væri þó gott að fá skýr svör við því.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.3.2009 kl. 23:49

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er ekki eitthvað óhugnanlegt við að forgangsraða sjúklingum við líknandi meðhöndlun? Það minnir mig á samfélög sem mig langar ekki til að flytja inn í þessa umræðu. Mér sýnist að við getum ekki sætt okkur við annað en að allir þeir sjúklingar sem teljast hafa gagn af notkun þess fái það skilyrðislaust.

Jafnvel það að vera synjað um lyfið af fræðilegum ástæðum hljóta að verða sjúklingi erfið skilaboð. Hvað þá að vera ekki talinn verðugur.

Árni Gunnarsson, 24.3.2009 kl. 00:03

9 identicon

Ég ætla nú rétt að vona að athugasemdir mínar við þessa færslu hafi ekki verið túlkaðar á þann hátt að ég sé einhver sérstakur varðhundur kerfisins. Konan mín er með MS og hefur í gegnum störf á vegum félagsins og ÖBÍ haft talsverð samskipti við fjölda fólks sem ýmist notar þetta lyf eða er á biðlista. Ég held að það sé óhætt að segja að nær allir MS-sjúklingar hafi fylgst lengi spenntir með fréttum af Tysabri.

En í því er líka hluti af vandamálinu fólginn. Sumir taugalæknar hafa bundið gríðarlega miklar vonir við Tysabri og jafnvel talað um það sem töfralyf. Þar sem fólk má ekki hafa notað önnur MS-lyf í marga mánuði áður en lyfjameðferð hefst, þá voru sumir sjúklingar hættir lyfjameðferð í samráði við sína lækna til að geta hafið töku nýja lyfsins - áður en þeir voru búnir að fá staðfestingu á að röðin kæmi bráðum að þeim. Vitaskuld urðu vonbrigði sumra úr þessum hópi gríðarleg þegar í ljós kom að hægar gekk að hefja lyfjagjöf en vonast hafði verið til.

Við þessar aðstæður er ekki skrítið þótt lítið þurfi til að sögur komist á kreik um að hinn og þessi hafi "komist framfyrir" á lista eða að valið hafi verið fólk sem ekki "uppfylli skilyrði verkefnisins". Í mörgum tilvikum getur verið um eðlilegar ástæður að ræða.

Eitt af skilyrðunum hérna heima er t.d. að viðkomandi hafi prófað önnur MS-lyf án árangurs - þess vegna verða ýmsir hissa þegar fréttist af fólki sem komið er í Tysabri-röðina án þess að hafa reynt öll hin lyfin. Það getur hins vegar átt sér þá einföldu skýringu að sum hinna MS-lyfjanna geta ýtt undir þunglyndi. Þess vegna er rökrétt að fólk með þekkta sögu þunglyndis fái aðra meðhöndlun, en þar sem menn eru ekki mikið að flíka geðrænum vandamálum sínum virkar þetta á umheiminn eins og einhver klíkuskapur.

Annað sem getur spilað inn í er þáttur einstakra lækna. Það eru ekki sjúklingarnir sjálfir sem sækja um að komast á Tysabri heldur taugalæknarnir þeirra. Sumir taugalæknar hafa gengið mjög hart fram í að sækja um fyrir velflesta sína sjúklinga, aðrir eru varfærnari og sækja helst bara um fyrir þá sem virðast klæðskerasniðnir að skilyrðum verkefnisins. Þetta getur líka ýtt undir sögur um að menn sitji ekki við sama borð.

Það erfiðasta í málinu er þó mannúðarþátturinn. Árni Gunnarsson spyr hér að ofan hvílík grimmd sé fólgin í því að forgangsraða fólki í líknandi meðhöndlun? Málið er hins vegar, að Tysabri er ekki líknandi lyf. Rannsóknir á lyfinu og upplýsingar frá framleiðanda þess leiða í ljós að Tysabri hefur mesta virkni ef það er gefið fólki sem fær sjúkdóminn í köstum sem ganga til baka, en ekki þeim sem eru með stöðuga hrörnun.

Það þýðir að hinn "fullkomni" MS-sjúklingur fyrir Tysabri - bæði út frá sjónarmiðum heilsuhagfræðinnar og virkni lyfsins sjálfs - væri ungt fólk sem er tiltölulega vel haldið af sjúkdómnum. Þetta er fólk sem lifir jafnvel mjög hversdagslegu lífi, stundar vinnu og ber ekki sjúkdóminn utan á sér. Með réttri notkun á Tysabri standa vonir til að hægt væri að halda þessum hópi á góðu róli stóran hluta ævinnar til mikilla hagsbóta fyrir einstaklingana og þjóðfélagið.

En vandinn er að þetta kalda hagfræðilega mat er grimmdarlegt. Það er ákaflega erfitt fyrir heilbrigðiskerfið að segja við fólk sem er illa haldið af sínum sjúkdómi og hefur bundið vonir við nýtt "töfralyf" í mörg ár, að það sé "of veikt" til að fá meðferð. Fyrir vikið sýnist manni að inn í prógramið hafi verið tekið mikið veikt fólk sem fellur ekki sem best að skilyrðum lyfjagjafarinnar. Það er eiginlega ekki hægt annað en að hafa skilning á því, enda ansi kaldrifjað að neita fólki um síðasta hálmstráið.

Varðandi mannafla- og aðstöðuleysið á taugadeildinni, þá eru þetta einfaldlega þær upplýsingar sem starfsfólk deildarinnar gefur. Taugadeildin í Fossvogi er undirmönnuð og hefur lítið pláss. Það er ástæðan fyrir að svo margir sem eru í steragjöf eru látnir taka þá á dagdeild í stað þess að innritast - þótt steragjöf gefi yfirleitt betri árangur við innlögn. Starfsfólk taugadeildarinnar hefur staðhæft það í einkasamtölum að skortur á starfsfólki skipti ekki minna máli en lyfjakostnaðurinn varðandi það hversu hægt hefur gengið að innleiða Tysabri (ef hægt er að tala um að það hafi gengið hægt - í ljósi þess að ekkert land er með hærra hlutfall MS-fólks á þessu lyfi en Ísland).

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband