Kunna hagfræðiprófessorar að reikna?

Viðtal var tekið við prófessorinn Friðrik Má Baldursson á RUV í dag.

Þar segir m.a.: Í dag nemur gjaldeyrisforði Íslendinga um 400 milljörðum króna sem eru að mestu lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lán frá Norðurlöndunum.

Nei Nei Nei.....

Seðlabankinn segir (nýjar upplýsingar en ég hringdi í hann í dag) að gjaldeyrisvaraforðinn sé 432 milljarðar en skuldir við AGS 110 milljarðar og skuldir við Norðurlöndin engar. Enda kemur fram á annarri frétt á RUV að gjaldeyrisvaraforðinn sé með betra móti.

Kaupþing kostaði prófessorstöðu Friðriks Má við Háskóla Íslands en Friðrik Már er meðhöfundur á skýrslu Porters en þeir fullyrtu að bankarnir væru í fínu lagi rétt fyrir bankahrun.

Ég bendi á það í pistlinum hér fyrir neðan að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist ekki kunna að reikna en það virðist eiga við um fleiri.

Seðlabankastjóri sem situr við endann á borðinnu á myndinni með fréttinni hannaði peningamálastefnu seðlabankans í seðlabankastjóratíð Finns Ingólfssonar en sú stefna er ein af forsendum hrunsins.


mbl.is Tveir vildu lækka vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS nýtur EKKI trausts og sýnir viðstöðulaust vitlausa útreikninga

Center for Economic Policy Research gagnrýnir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn harðlega en þar segir m.a.

Spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um verga landsframleiðslu í Argentínu síðan árið 1999 og Venezuela síðan 2003 fela í sér munstur mikilla mistaka sem gefa ástæðu til þess að spyrja alvarlegra spurnina um hlutleysi í mati sjóðsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ofmat verga landsframleiðslu í Argentínu fyrir árin 2000, 2001 og 2002 um 2.3, 8.1 og 13.5 prósent fyrir viðkomandi ár.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þrífst helst á áróðri en ekki kenningum sem standast nánari skoðun. Helstu áróðursfrasarnir eru:

Að nærvera AGS skapi traust.Þetta stenst engan veginn því Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er alræmdur fyrir slæm meðöl sín og litið á þjóðir sem lent hafa í klóm þeirra í alvarlegri hættu og valdalausar. Það eru helst hrægammar úr fjármálakerfinu sem elta AGS og hirða úr rústum samfélaga það sem verðmætt er sem treysta AGS til þess að þjóna sínum hagsmunum.

Að gríðarstór gjaldeyrisvaraforði sem tekinn er að láni styrki gjaldmiðil. Það hafa aldrei verið færð rök sem styðja í raun þessa kenningu enda undarlegt að gríðarlegar skuldir í gjaldmiðils efli hann.

Að blóðugur niðurskurður í velferðakerfi til þess að styrkja fjármálakerfi efli efnahag þjóðarbúsins. Reynslan annarsstaðar sýnir að þetta stenst ekki, t.d. í Argentínu og Venezuela.

 


Var háskólinn gerður að uppeldisstöð fyrir bankanna?

Gömul frétt á Vísi.is

Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur ákveðið að dr. Friðrik Már Baldursson, gegni stöðu prófessors með fulltingi Kaupþings. Þetta er í samræmi við samning sem HÍ og Kaupþing gerðu undir lok síðasta árs um ótímabundna kostun á stöðu prófessors í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Í tilkynningu segir að í samningnum felist meðal annars að heiti Kaupþings verði tengt við ákveðna stöðu prófessors eða dósents í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Slíkt fyrirkomulag er mjög algengt hjá háskólum í Bandaríkjunum og víðar. Það er hins vegar nýmæli á hér.

Friðrik Már var meðhöfundur greinar Richard Portes í Financial Times í fyrrasumar, þar sem lítið var gert úr viðvörunum Roberts Wade prófessors í stjórnmálahagfræði við London School of Economics um stöðu íslenskra efnahagsmála.

Og nú stígur Friðrik Már fram og telur sig til þess bæran að setja fram kenningar um stefnu Íslendinga í skuldasöfnun og gjaldeyrismálum. Er ekki rétti tíminn núna fyrir leigupenna bankanna að hafa hægt um sig?


mbl.is 176 milljarða halli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi Össur þessi málflutningur gengur ekki upp

Össur er einn af þeim stjórnmálamönnum sem var í miklu vinfengi við útrásarvíkinganna ásamt forsetanum. Nú virðist Össur dreyma um "endurreisn". Hann sér lausnir í forsendum sem settu þjóðarbúið á hausinn.

Össur vill meiri skuldasöfnun og þær leiðir sem AGS býður upp á en það eru ekki leiðir sem verja þjóðina heldur þvert á móti.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur mikið upp úr "stöðugleika". Leiðirnar að "stöðugleika" alþjóðagjaldeyrissjóðsins ýta mjög stórum hluta þjóðarinnar niður á fátækrastig. Ýmsir eru þó ekki í þessum hóp sem er í hættu núna vegna veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér. Meðal þeirra, geri ég ráð fyrir, sem ekki eiga á hættu að lenda í fátækragildru eru Össur, Jóhanna og Steingrímur.

Þeir sem vilja berjast gegn ofríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru þeir sem skilja að gott samfélag getur ekki verið byggt á því að færa stóran hluta þjóðarinnar niður á stig örbyrgðar. það skapar ekki einungis vandamál fyrir þá sem lenda í fátæktargildrunni heldur einnig fyrir alla þjóðina vegna þess að ýmis félagsleg vandamál skapast og hættur sem Íslendingar eiga ekki að venjast.


mbl.is Össur: Efnahagsbati í uppnámi vegna AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaólæsi og skortur á dómgreind tefur uppbyggingu Nýja Íslands

Notkun á orðinu endurreisn í sambandi við uppbyggingu eftir hrun er kannski skýrt dæmi um grunna hugsun um hvernig við tökumst á við verkefni hrunsins. Endurreisn þýðir jú að reisa eitthvað við sem hefur fallið. Það getur þó ekki verið verkefnið heldur þarf að endurskoða allt skipulag og byggja upp á nýjum forsendum.

Margt af því sem miður fór fyrstu mánuðina eftir hrun má rekja til þess að menn skildu ekki hvað þeir voru að gera og áttuðu sig ekki á samhengi fjárhæða og fámenni landsins. Auk þessa hefur það loðað við að þeir sem áttu aðild að atburðarrásinni sem leiddi til hrunsins hafa tekið ákvarðanir sem bera keim af því að reynt er að sópa spillingunni undir mottuna.

Því miður ráða kenningar sem eiga sér enga innistæðu í röklegu samhengi ríkan þátt í ákvörðunum og stefnu núverandi ríkisstjórnar. Þetta verður helst rakið til þess að menn eiga í miklum erfiðleikum með að losa sig við hugsunarhátt og forsendur sem leiddu til hrunsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt ASÍ og SA eru valdamestu aðilarnir í samfélaginu í dag og ræðst vanhæfni ríkisstjórnarinnar að hluta til af því að hún fylgir þessum aðilum að málum. Samþykkir hugmyndir þeirra gagnrýnislaust.

Við skoðun fjárlagafrumvarpsins kemur í ljós ýmislegt sem telja verður undarlegt í ljósi aðstæðna. Þetta skýrist af því geri ég ráð fyrir að stjórnvöld eru að verja valdamúranna. Verja þau tæki sem hafa stutt einstaklinga á ferð sinni upp valdastigann. Stjórnarráðið, alþingi, framlög til stjórnmálaflokka og utanríkisþjónustan er nánast látin ósnert í niðurskurðinum.

Menntakerfið er nánast látið ósnert en lítið hefur borið á umræðu um endurskipulagningu menntakerfisins í samræmi við breytta þörf sem fólki ætti að vera ljós ef það hefur framtíðarsýn og skynbragð á ástandinu.

Góðu fréttirnar í frumvarpinu er hugmyndin um auðlinda og umhverfisskatt sem margir bregðast illa við en er þó frumforsenda þess að samfélagið fari að dafna á ný.

Menn tala digurbarkalega um þörfina fyrir aðkomu erlenda fjárfesta en það er mantra hrunhugsunar. Erlendir fjárfestar hafa fram að þessu aðallega komið hingað til þess að fá sér frían málsverð. Skilja lítið annað eftir en mengun og skuldir handa þjóðinni. Staða Landsvirkjunar ber þessu vitni en skuldir stofnunarinnar hafa vaxið úr 25 milljörðum árið 2000 í 515 milljarða árið 2008.

Sú hugmynd virðist hafa tekið sér bólfestu meðal erlendra fjárfesta að á Íslandi sé hægt að fá hlutina ókeypis og græða mikið enda hafa hrægammarnir sést víða á ferð eftir bankahrunið og meðal annars tekist að hirða upp HS orku með stuðningi yfirvalda.

Það er tímabært að senda erlendum fjárfestum þau skilaboð að Íslendingar láti stjórnast af fleiru en talnaólæsi og dómgreindarskorti. Auk þess sem auðlinda- og umhverfisskattur felur í sér að tekið er eðlilegt gjald af þeim sem nýta auðlindirnar sendir það líka skilaboð til umheimsins sem fælir hrægammanna frá. Það getur ekki verið að við höfum áhuga á því að fá hingað gesti sem éta okkur út á gaddinn.


mbl.is Skilgetið afkvæmi hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband