Vangeta afhjúpast í kreppu

Ég ber mikla virðingu fyrir menntun, þekkingu og hæfni. Ég treysti til dæmis fáum betur til þess að leiðbeina mér og þjóna í flugvél en Jóhönnu Sigurðardóttur. Steingrímur J. Sigfússon gæti trúlega undir góðri handleiðslu reyndra manna rannsakað setlög eða annað það sem heyrir undir jarðvísindin. Össuri Skarphéðinssyni myndi trúlega farnast ágætlega í rækjueldi eða rannsóknum á kynlífi fiska.

Margir hafa viljað halda því fram að almenningur væri hatursfullur eða reiður þegar hann gagnrýnir stjórnmála-, embættis- eða bankamenn. Ég tel að þetta sé megn misskilningur. Almenningur er öðru fremur ráðvilltur yfir rænuleysi embættis- og stjórnmálamanna og jafnvel ennfremur skeytingaleysi og glæpahneigð bankamanna.

Atburðirnir haustið 2008 afhjúpuðu vangetu og rænuleysi stjórnmálamanna. Dýralæknirinn sem átti að þjóna fjármálaráðuneytinu virðist hvorki hafa skilið tölur né haft skynbragð á einföldustu hagfræði.

Lögfræðingar í ráðuneytum og bönkum höfðu annað hvort ekki rænu, vilja eða vitsmuni til þess að bregðast við gengdarlausum ólöglegum útlánum.

Í utanríkisráðuneytinu virðist annað hvort hafa skort þekkingu, vilja eða dug til þess að hanna fjármálakerfi sem sér við fjárdrætti. Hvorki sagnfræðingurinn né fiskeldisfræðingurinn sáu við því. Tugir milljóna lentu því í vasa starfsmanns sem ekki virðist hafa búið yfir betra siðferði en bankastjórarnir. Stjórnendur ráðuneytisins virðast þó ekki vera farnir að velta því fyrir sér hvort þeir eigi ekki að fara að leita sér að starfið sem þeir ráða við.

Vangetan afhjúpast í kreppu 

Áður en maskínurnar hrundu mallaði vangetan undir yfirborðinu og almenningur stóð í þeirri trú að stjórnmálamennirnir hefðu skynbragð á því sem þeir voru að gera. Dómgreindarleysi og skortur á siðferði réði eigi að síður ferð. Þessir ágallar manna eru afsprengi þess að þeir taka að sér verkefni sem þeir hafa ekki þekkingu og þjálfum til þess að takast á við.

Sjálfstæðismenn hafa átt erfitt með að átta sig á því að þeir sköpuðu þá ringulreið sem ríkir í samfálaginu í dag. Í ábyrgðarleysi sínu og örvinglan benda þeir sífellt á jarðfræðinginn, flugfreyjuna og fiskeldisfræðinginn sem sökudólga óreiðunnar. Örvinglan sjálfstæðisforystunnar stafar ekki af iðrun heldur þörf þeirra til þess að halda uppi áframhaldandi niðurrifi samfélagsins og fróa græðgihneigðum sínum. Jarðfræðingurinn, flugfreyjan og fiskeldisfræðingurinn vita ekki sitt rjúkandi ráð í ringulreiðinni. Þau hafa tekið að sér verkefni sem þau hafa hvorki getu, siðferðisþrek né þekkingu til þess að takast á við. Almenningur,  hann er nánast ráðþrota.


Bloggfærslur 17. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband