2010-01-20
Höfnum skuldaánauð
ESB þingmaðurinn sem kom fram með Evu Joly í Silfrinu kallaði Icesave SKULDAÁNAUÐ.
Grein í MBL í gær:
Í frumskóginum verja dýrin afkvæmi sín og tryggja þeim lífsviðurværi. Það er í eðli þeirra. Mannskepnan hefur líka tilhneigingu til þess að verja afkvæmi sín en þegar siðmenntun hnignar og fátækt sverfur að verða afkvæmin oft illa úti.
Ég er ekki sérfræðingur í siðmennt en velti því fyrir mér hvað hugtakið feli í sér. Er það ekki fyrsta skylda hvers manns sem vill teljast siðaður að verja afkvæmi sín, verja velferð komandi kynslóðar og ganga ekki á rétt hennar?
Um þetta snýst kjarni Icesave. Icesave samningurinn felur í sér í raun að firra núverandi kynslóð vandræðum með því að koma þeim yfir á komandi kynslóðir. Þess vegna er frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave siðlaust. Ríkisvaldið hefur tekið þá stefnu að hræða almenning til þess að taka stöðu með þessu siðleysi. Ríkisvaldið vísar gjarnan til dulúðugrar dómsdagsspár ef skuldir bankamanna verða ekki gerðar að skuldum barna okkar. Með þessu er ríkisvaldið að reyna að höfða til óæðri hneigða mannsins sem spretta af hræðslu við hið óþekkta.
Ákafi sumra einstaklinga að leggja óviðráðlegan skuldaklafa á komandi kynslóðir er í ætt við hjátrú. Ef gengið er á þessa einstaklinga um ástæður þess að leggja skuli þessar byrðar á komandi kynslóðir er fátt um skynsamleg svör. Illa ígrunduð hræðsla og þjónkun við foringja brýst upp á yfirborðið. Sektarkennd yfir að hafa ekki lapið dauðann úr skel á góðæristímabilinu gerir einnig vart við sig. En ekkert af þessu réttlætir að gera komandi kynslóðir að skuldaþrælum Breta og Hollendinga.
Það er ofar eðlilegum skilningi hvers vegna ríkisstjórninni er svo mikilvægt að fallast á túlkun Breta og Hollendinga á Icesave vandanum. Hverjum þeim sem kynnt hefur sér atburðarrásina og staðreyndir málsins er ljóst að Bretar og Hollendingar hafa rangtúlkað málið til þess að tryggja eigin hagsmuni. Við slíkar aðstæður ætti það að vera hlutverk íslenskra valdamanna að verja þjóðin en þeir hafa brugðist hlutverki sínu og stillt sér í lið með Bretum og Hollendingum gegn íslensku þjóðinni.
Gríðarleg áróðursherferð hófst eftir hrun íslenska efnahagskerfisins sem miðaði að því að gera þjóðina auðmjúka og efla sektarkennd hennar. Sektarkenndin átti að tryggja að þjóðin beygði sig undir að selja framtíð afkomendanna fyrir velferð Gordons Brown.
Í áróðrinum var höfðað til stolts Íslendinga og að þeir þyrftu að afla sér trausts í alþjóðasamfélaginu. Staðreynd málsins er hins vegar sú að sá sem selur börnin sín aflar sér ekki trausts með þeim gjörningi nema þá traust þeirra sem aðhyllast slíka gjörninga og hafa hag af slíku. Hinir siðmenntuðu sem hafa aðra sýn á tilveruna. Þeir eru ekki tilbúnir til þess að gera hina saklausu að fórnarlömbum græðginnar og munu ekki sjá upphefð í því að Íslendingar beygi sig undir þennan ósóma.
Stolt Íslendinga og stolt komandi kyslóða verður eingöngu tryggt með því að íslenska þjóðin hafni Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu
Kosið 6. mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:21 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr. Má ég stela þessu og birta á mínu bloggi líka, ég mun að sjálfsögðu segja hver skrifaði þessa færslu?
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.1.2010 kl. 02:09
Velkomið Jóna Kolbrún
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.1.2010 kl. 02:14
Góður pistill, Jakobína.
Elle_, 20.1.2010 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.