Slappleiki

 Rannsóknaskýrslan átti að endurreisa traust þjóðarinnar á stjórnmálamönnum og fjármálakerfi. Því miður er slappleikinn í framvindu þessarar skýrslu vart til þess fallinn að byggja upp traust.

Ekki hefur Jóhanna verið að ávinna sér traust

Bjarni Ben tengist nú persónulega stærsta ráni Íslandssögunar

*********

Minni á eftirfarandi

Grein sem skrifuð var í desember 2008

Fyrir skömmu voru sett lög á Alþingi „um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða."

Lögin hafa það markmið að byggja upp traust en greinagerð með lögunum segir "Samfélagslegur ávinningur rannsóknarinnar felst í því að byggja upp traust og benda á hvernig koma megi í veg fyrir að hliðstæð áföll hendi aftur. Þessi ávinningur vegur mun þyngra en sá kostnaður sem gera má ráð fyrir að hljótist af starfi nefndarinnar." Almenningi er kunnugt að forsætisráðherra réði til starfa sérlegan ráðgjafa Bjarna Ármannssonar sem hafði það hlutverk að skipuleggja strategíur sem miðuðu að því að endurvekja traust þjóðarinnar og erlendra aðila á ríkisstjórn sem hefur stýrt þjóðarbúinu í þrot.

Ætla má að kostnaður af þessum aðgerðum hlaupi á hundruðum milljóna en tölur um það hafa ekki verið birtar. Gjarnan hefur verið talað um að tilgangurinn með því að setja á fót þessa rannsóknanefnd sé að fá sannleikann upp á borðið. Það hefur aldrei verið hlutverk dómskerfisins að leita sannleikans heldur að draga fram atriði sem falla innan ramma langanna. Því felst sérfræðiþekking lögfræðinga og dómara í því að máta atriði, atburði og athafnir inn í lagaramman en leitin að „sannleik" eða samhengi hlutanna hefur öðru fremur verið viðfangsefni fræðasamfélags á sviði félags- og hugvísinda. Rannsóknin þarf standast skoðun vísindanna á því hvað telst til vísindalegra vinnubragða og að raunverulegur vilji sé til þess að leita hans ellegar mun hún verða skoðuð sem enn eitt áróðursbragð ríkisstjórnarinnar.

Rannsóknarefndin á samkvæmt lögunum að skipast þannig:

  1. Einn dómara Hæstaréttar Íslands samkvæmt ákvörðun dómara réttarins og skal hann vera formaður nefndarinnar.
  2. Umboðsmaður Alþingis.
  3. Hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða háskólamenntaður sérfræðingur, sem hefur víðtæka þekkingu á efnahagsmálum og/eða starfsemi fjármálamarkaða, skipaður af forsætisnefnd Alþingis (sem Sturla Böðvarsson leiðir).

Nefndin skal skipuð tveimur lögfræðingum og endurskoðanda eða hagfræðingi. Sagan segir að Páll Hreinsson hæstaréttardómari verði valinn til forystu í nefndinni. Hann er fyrrverandi aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og í starfsferilsskrá  má sjá að hann hefur starfað ómælt fyrir fyrrum menntamálaráðherra og núverandi dómsmálaráðherra.

Lögin mæla þó fyrir „um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar óháðra og sérfróðra einstaklinga sem er ætlað að vinna að rannsókn á ástæðum hruns bankanna og efnahagsáfallanna og leggja mat á hvort mistök hafi verið gerð við stjórn efnahagsmála og eftirlit með bönkunum". Einnig segir í greinagerð með lögunum að „þeir sem eru fengnir til að stjórna rannsókninni eigi að vera sjálfstæðir og óháðir og búa yfir reynslu og þekkingu til að stýra þessari viðamiklu rannsókn". Þetta vekur spurningar um það hvort að þingmenn þeir sem semja lögin með Sturlu Böðvarsson í fararbroddi trúi því að svona texti sé lesinn gagnrýnislaust. Hví eru ekki fengnir óháðir aðilar úr fræðasamfélaginu til þess að stýra rannsókninni ef tilgangur hennar er að vekja traust?

Í greinargerð með lögunum segir:

Eins og aðrar mannlegar athafnir var starfsemi bankanna [ekki minnst á ríkisstjórn og embættismenn hér] reist á ákveðnum gildum eða siðferði sem hægt er að greina með kenningum og aðferðum hug- og mannvísinda. Nauðsynlegt er að kortleggja þetta í tengslum við rannsókn á falli þeirra, m.a. með því að greina með hvaða hætti leiðandi aðilar í fjármálastarfsemi [enn ekki minnst á ríkisstjórn og embættismenn!] hafa tjáð sig um siðferðileg álitamál tengd viðskiptum. Þetta tengist einnig ríkjandi áherslum í menntun stjórnenda og annarra sem starfa á þessu sviði með tilliti til siðferðislegrar hugsunar og ábyrgðar. Veikleikar á þessum sviðum kunna að eiga þátt í því að þeir riðuðu til falls og þess vegna er ráðgert að rannsaka þessa þætti sérstaklega, sbr. 3. mgr.

Síðan segir:

Miðað er við að framkvæmd þessarar rannsóknar verði í höndum sérstaks vinnuhóps hugvísindamanna, sbr. 3. mgr. 2. gr. Hópurinn gæti þá m.a. skoðað hvort íslenskt fjármálalíf hafi einhverja sérstöðu í þessu tilliti í samanburði við nágrannalöndin, svo sem varðandi hugmyndir um siðareglur og önnur siðferðileg viðmið í viðskiptum og samfélagslega ábyrgð.

Þrátt fyrir að ofangreindur texti taki fyrir grundvallaratriði rannsóknarinnar hugnast Alþingi ekki að setja sérfræðinga á þessu sviði yfir rannsóknina heldur velur til þess aðila sem hafa litla innsýn í hugtök eins og siðferði og ríkjandi gildi. Um þennan þátt rannsóknarinnar er heldur ekki kveðið skýrt á um í lögunum.

Settur verður á laggirnar vinnuhópur sagnfræðinga, félagsfræðinga, heimspeki- og stjórnmálafræðinga en um störf þeirra segir: „Ráðgert er að þessi hópur hafi aðgang að þeim upplýsingum sem nefndin aflar og þýðingu hafa fyrir þennan þátt rannsóknarinnar, sbr. 3. mgr. 4. gr., og fulltrúi hans geti í samráði við formann nefndarinnar tekið þátt í skýrslutökum, sbr. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins." Samkvæmt þessu á nefndin (skósveinar ríkisvaldsins) að hafa alvald í rannsókninni en ofangreindir sérfræðingar að skoða það sem þeim er skammtað af nefndinni. 

Nefndinni er í lögunum veitt undanþága frá lögum sem kveða á um að störf skulu auglýst opinberlega. Nefndin getur því handpikkað einstaklinga henni þóknanlega til starfanna.

Lögunum er ætlað að rannsaka aðdraganda og orsök falls bankanna og er sérlaga talað um að rannsókninni ljúki við setningu neyðarlaganna. Hvað með neyðarlögin? Hví er ekki kveðið á um að rannsaka skuli þátt þeirra í þeirri hyldýpislægð sem þjóðin er lent í? Hvað með umdeildar ákvarðanir ráðamanna eftir setningu neyðarlaganna og tengda atburði? Á að skauta fram hjá meintum afglöpum valdhafanna? Hvað með meint innherjaviðskipti og önnur misferli ráðherra og ráðuneytisstjóra? Verða þau sett undir smásjánna? Nær rannsóknin yfir brask valdhafa með hlutabréf og annað og háar skuldsetningar í tengslum við þess háttar viðskipti?

Tengsl valdhafanna við fjármálaöflin hafa verið brennidepli umræðunnar og gert þessa aðila tortryggilega. Lögin beina ekki athygli rannsakenda sérstaklega að þessari samfléttun hagsmuna sem leitt hefur til ótrúlegrar spillingar. Talað er um í lögunum að valdhafar hafi sofið á verðinum. Með þessu er verið að gera þátt þeirra óvirkan en það má spyrja hvort hann hafi ekki heldur verið framsækinn. Það er erfitt að gera sér í hugarlund að valdhafar hafi ekki tekið eftir því að vextir og afborgarnir af erlendum lánum voru orðnir 213% af útflutningstekjum árið 2007 en þá hlaupa þeir til og gerast kynningarfulltrúar fjármálaaflanna á erlendri grundu. Alþingi hefur forræði yfir rannsókninni en það er alkunn staðreynd að meirihluti þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi eru strengjabrúður valdhafanna vegna flokkshagsmuna.

Ríkisvaldið og fjármálaöflin liggja nú undir ámæli þjóðarinnar um spillingu. Viðbrögð ríkisvaldsins er að setja af stað rannsókn sem er byggð upp með þeim hætti að draga má í efa að það sé gert af heilindum. Niðurstöðurnar verða ótrúverðugar og grunsamlegar en munu kosta almenna skattborgara drjúgan skilding.

Hvers vegna þorir ríkisstjórnin ekki að kveða til óháða og samfélagsgagnrýna aðila innan þekkingarsamfélagsins til þess að stýra þessari rannsókn? Þessi rannsókn mun ekki endurreisa traust þjóðarinnar. Ríkisstjórnin vanmetur þjóðina. Þjóðin er ekki tilbúin að kyngja meiri áróðri og vafasömum málatilbúnaði.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

 

Páll Hreinsson virðist vera í miklu áliti hjá valdhöfum. Hann hefur verið skipaður í forsvar fyrir hvítþvottarnefnd ríkisstjórnarinnar, Páll hefur unnið fjölmörg störf fyrir dómsmálaráðherra en hefur greinilega notið dálætis Valgerðar Sverrisdóttir líka því samkvæmt Gunnari Axel fól Valgerður Páli að semja lögfræðiálit um stöðu stofnfjáreigenda og þeirri spurningu svarað hvort þeim væri heimilt að selja hluti sína á frjálsum markaði.

Gunnar Axel bendir á að Páll varð við beiðni Valgerðar og skilaði henni niðurstöðu sem var fjármálaheiminum að skapi. Páll komst að þeirri einkennilegu niðurstöðu að það stríddi gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að setja hömlur á frjálsa sölu stofnfjárhluta í sparisjóðum. Að þessari niðurstöðu komst Páll þrátt fyrir að stofnfjáreigendurnir hefðu aldrei greitt fyrir hluti sína með það í huga að þeim fylgdu slík réttindi, þrátt fyrir að samþykktir sjóðanna kvæðu skýrt á um að stofnfjáreign fylgdi engin bein eignarréttindi yfir sparisjóðunum, þrátt fyrir að um væri að ræða aldargamlar stofnanir sem alla tíð hefðu verið reknar sem sjálfseignarstofnanir í eigu almennings. Páll lagði ofuráherslu á eignarréttindi einstaklinga umfram eignarréttindi almennings, líkt og þau ættu ekki undir neinum kringumstæðum rétt á sér. Í áliti hans fólst sterk pólitísk rétthugsun í anda þeirrar stefnu sem þáverandi stjórnarherrar vildu innleiða í íslenskt samfélag.


mbl.is Óbreytt áform um kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er skelfilegt allt saman.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.2.2010 kl. 17:24

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þetta minnir mig á orð Guðmundar Ólafssonar hagfræðings, en hann sagði oft þegar honum blöskraði ástandið í þjóðfélaginu , að það yrði að skipta um þjóð hér. Þetta eru orð að sönnu. Mjög fáir ganga með óflekkað mannorð frá þessu hruni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.2.2010 kl. 17:50

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Störf þessarar rannsóknarnefndar og skýrsla (ef hún kemur) munu sannfæra mig um það sem ég hef verið ódeigur við að minnast á. Hún mun verða nefnd skýrsla um hvítþvott embættismanna á öðrum embættismönnum. Öllum má nú vera orðið ljóst að enginn hávaði verður gerður innan þessa kerfis hverjar sem niðurstöður verða.

 Spurning: Hvernig réttarhöld og hverjir verða dómstólarnir? Kannski þeir sömu dómstólar sem velktust með Baugsmálið eitt og sér í 5 ár og skiluðu 3ja mánaða skilorðsbundnum dómi um ég man ekki lengur hvað né fyrir hvað?

Hefur dómstólum verið fjölgað eða þeir styrktir vegna yfirvofandi ákæra á hendur einhverjum meintum sakamönnum í gámavís? Og vegna fésýslubrota og glæpsamlegrar vanrækslu sem ullu stærsta bankahruni heimsbyggðarinnar?

Enginn undirbúningur er sýnilegur sem bendir til yfirvofandi réttarhalda yfir milljarðaþjófum sem myndir hafa verið birtar af í blöðum og verið hafa aðalleikendur í heimildarmyndum um hrunið og aðdraganda þess.

Andlit þessara kvikinda eru landsþekkt fyrir löngu. Og myndir af þeim jafn kunnuglegar á hverju heimili eins og myndir af börnum og foreldrum. Reyndar ekki alveg jafn geðþekkar.

Sekt þessara drullusokka er orðin hverju mannsbarni ljós fyrir mörgum mánuðum. Og það sama á við um þá sem stóðu vaktir í stjórnsýslunni, sem og þá sem skrifuðu handritið.

En frá Kerfinu berast alltaf sömu kristilegu ábendingarnar: "Allir eru sýknir þar til sekt þeirra er sönnuð og staðfest fyrir dómstólum." 

Árni Gunnarsson, 19.2.2010 kl. 21:54

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hræðilegt er eina orðið sem mér dettur í hug. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.2.2010 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband