Af rökvillum og vondum viðmiðum

Svar við grein Indriða á Smugunni:

Icesavesamningurinn felur í sér mannréttindabrot af mjög alvarlegum toga og byggist á því að hinn sterkari kúgar hinn veikari (veikgeðja í þessu tilviki) til þess að þjösnast á saklausu fókli, ganga á eignarrétt þess til að bæta fyrir afglöp breskra og hollenskra stjórnvalda og þjófnað misyndismanna.

Umræðan um Icesave hefur verið hlaðin rökvillu og vafasömum viðmiðum af hálfu þeirra sem vilja gera Íslendinga alþýðu að skattgreiðendum bresks og hollensks ríkissjóðs. Indriði Þorláksson skrifar á Smugunni að: vinsæl röksemd gegn því að Ísland standi við skuldbindingar sínar gagnvart breskum og hollenskum sparifjáreigendum á Icesave reikningunum og greiði þeim lágmarkstryggingu. Rökvillan í þessari setningu felst í því að Ísland er ekki skuldbundið gagnvart breskum og hollenskum sparifjárseigendum. Tryggingasjóður innstæðueigna er skuldbundinn gagnvart breskum og hollenskum sparifjárseigendum. Samkvæmt tilskipun ESB frá 1994 er óheimilt að veita bönkum eða tryggingasjóði innstæðna ríkisábyrgð. Í tilskipun ESB sem Íslendingar hafa innleitt segir: The system must not consist of a guarantee granted to a credit institution by a Member State itself or by any of its local or regional authorities.

Indrið líkir stöðu ríkissjóðs í Icesave deilunni við tryggingafélag og segir: Af þessu má sjá að sú röksemd sem nefnd er í upphafi að ekki eigi að að greiða skuldir einkaaðila fær ekki staðist fremur en það að tryggingafélag geti vísað tjónþola á tjónvald og sagt honum að rukka hann. Ég vil minna Inriða á að tryggingafélög bera enga skyldur gagnvart öðrum en þeim sem greiða viðkomandi tryggingafélagi iðgjöld. Samsvarandi má ætla að íslenskur ríkissjóður beri fyrst og fremst skyldur gagnvart þeim sem greiða skatt á Íslandi. Viðskiptavinir tryggingafélaga greiða viljugir iðgjöld vitandi það að þau munu fara til þess að bæta ófarir annarra sem einnig greiða iðgjöld í viðkomandi tryggingarfélag. Þetta er innifalið í sáttmálanum. Rök(villa) Indriða ber hinsvegar að því að íslenskir skattgreiðendur (greiðendur iðgjalds) eigi að greiða ófarir annarra sem ekki greiða skatt (iðgjald) í íslenskan ríkissjóð.

Indriða lætur að því liggja að þeir sem gagnrýna nauðungarsamninginn sem hann og Svavar fluttu til landsins séu á móti því að innstæðueigendur Icesave fái skaða sinn bættan. Þetta er rangtúlkun á kjarna deilunnar. Deilan felst fyrst og fremst í því hverjir eigi að bæta viðkomandi skaðann og að hvaða marki. Hverjir beri ábyrgð. Viðskiptavinir Icesave tóku áhættu en bresk stjórnvöld völdu að bæta þeim að fullu skaðann, þ.e. færa skaðann af þeim sem tóku áhættuna yfir á aðra sem ekki tóku áhættu og vissu ekki einu sinni af þessum viðskiptum. Þetta er óumdeilanlegt. Innstæðueigendur Icesave greiddu ekki skatt í íslenskan ríkissjóð heldur í hinn breska og í hinn hollenska. Innstæðueigendur Icesave hafa ekki á neinn hátt fjármagnað íslenskt eftirlitskerfi en nú er því haldið fram að þeir hafi átt kröfu á íslenska stjórnsýslu en eftirlitskerfin sem innstæðueigendur Icesave fjármögnuðu í Bretlandi beri enga ábyrgð. Þessi rökvilla felur í sér brot á meginreglu hugmyndafræði um skipulagsheildir, um samræmi í kerfum og um stjórnvaldsábyrgð.

Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að fjármálakerfi í einhverjum aðildaríkja njóti ekki samkeppnisforskots vegna þess að það njóti ríkisábyrgðar. Að öðru leyti er grein Indriða morandi í vafasömum viðmiðum. Hann segir: Þvert á móti er tryggingasjóði innstæðna beinlínis ætlað að greiða sparifjáreigendum innstæður þeirra þegar einkaaðilinn, þ.e. bankinn, bregst. Það er eini tilgangur sjóðanna og án þessa hlutverks eru þeir þarflausir og menn hafa vaðið í villu um tilgang þeirra vítt um lönd síðan í kreppunni miklu. Það leikur enginn vafi á ábyrgð tryggingasjóðs. Ábyrgð tryggingasjóðs hefur verið ótvíræð en það er hinsvegar ábyrgð hins íslenska ríkissjóðs sem hefur verið deiluefnið. Þetta innlegg Indriða er því ekki innlegg í deiluna og beinlínis villandi að láta að því liggja að þetta sé hluti deilunnar.

Indriði minnist ekki á hver bar ábyrgð á eftirliti með lausafjárstöðu í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi en hann upplýsir okkur kannski um það í næsta pistli sínum. Indriða er tíðrætt um ábyrgð íslenska ríkisins en athygli hans virðist afhuga ábyrgð breska eða hollenska ríkisins (ábyrgð þeirra tryggingafélaga sem tóku við iðgjaldinu ef við höldum okkur við samlíkinguna). Samkvæmt fréttaflutningi 2008 var bretum fullljóst um hættuna sem stafaði af íslenskri bankastarfsemi löngu fyrir bankahrun. Hollensk yfirvöld leyfðu opnun útibús Landsbankans þar í landi í maí 2008 aðeins nokkrum mánuðum fyrir bankahrun. Bæði hollenskum og breskum yfirvöldum var fullljóst að stærð bankakerfisins á Íslandi var margföld landsframleiðslan og tryggingarsjóður innstæðna á engan hátt í stakk búin til þess að standa undir tryggingu innstæðna við kerfishrun. Jafnframt hefur þeim átt að vera ljóst að íslenskur ríkissjóður væri ekki í stakk búin til þess að fjármagna tryggingarsjóð. Hollenskum og breskum yfirvöldum bar skylda til að tryggja hagsmuni borgara hvor í sínu landi með því að heimila EKKI ósjálfbæra bankastarfsemi íslensku bankanna þar í landi. Ég legg til að Indriði skrifi pistil og upplýsi íslenskan almenning um ábyrgðarhlutverk löggjafans, þ.e. ESB og ábyrgð yfirvalda í Hollandi og Bretlandi og beini sérstaklega athyglinni af klúðri þessara aðila í atburðarrásinni sem leiddi til hrunsins.

Indirði fer með villandi málflutning þegar hann lætur að því liggja að nauðungarsamningurinn sem hann og Svavar meðal annarra bera ábyrgð á tryggi eingöngu greiðslu lágmarksfjárhæðar. Það er ljóst að vegna þess að tryggingarsjóðurinn nýtur ekki forgangs nema að hálfu, samkvæmt nauðungarsamningnum, er færð ábyrgð á fullnaðarbótum á íslenskan almenning miðað við ákvæði nauðungarsamningsins.

 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Stjórnsýslufræðingur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband