Íslensk Þjóð: hreppsómagi alþjóðasamfélagsins

Það hefur verið sársaukafullt að horfa upp á að fjölskyldur á Íslandi eigi sér ekki málssvara í íslenskum stjórnmálum. Núverandi ríkisstjórn tók við kefli sjálfstæðisflokksins og gerði hagsmuni fjármálakerfisins að sínum en ýtti þjóðinni til hliðar eins og hreppsómaga sem pirrað hefur hana frá því að hún tók við völdum.

Ýmis fín orð hafa verið notuð til þess að friðþægja ómagann. Orð eins og aðlögunarsamningar, jafnvægi í ríkisfjármálum og endurreisn hafa verið notuð til þess að breiða yfir nauman skammtinn sem réttur hefur verið að ómaganum. En veisluhöldin hafa eigi að síður haldið áfram hjá þeim sem hafa aðgang að gnægtaborði valdaklíkunnar.

Nú er svo komið að fín orð og fögur fyrirheit ná ekki að svæfa hungurverki ómaganna. Harðræði landsfeðranna hefur tekið á sig svo öfgafullar myndir að hinir friðsælu eru farnir að láta frá sér skörp ummæli um ástandið.

Fáránleikinn hefur tekið sér heiðurssess á Alþingi Íslendinga. Tilburðir stjórnmálamanna til þess að færa hegðun sína í röklegan búning er ámátleg. Sjö af ráðherrum hrunstjórnarinnar sitja enn á alþingi og tveir þeirra í ráðherraembættum. Enginn þessara þingmanna sá sóma sinn í því að víkja af þingi við atkvæðagreiðslu um hvort stefna skyldi samráðherrum þeirra úr hrunstjórninni fyrir landsdóm. Þeir tóku sér vald dómara og sýknuðu samráðherra sína.

Jafnvel þótt framferði þeirra sé ekki ólöglegt er það eigi að síður merki um lágkúru sem ekki verður þurrkuð út með sorglegum tilburðum til þess að færa það í röklegan búning. Málatilbúningur valdastéttarinnar er lítt til þess fallinn að draga úr sársaukafullum aðstæðum þeirra sem bíða í röðum eftir mat; þeirra tuttuguþúsunda sem ekki hafa atvinnu og þeirra sem glíma við stökkbreytt lán. Málatilbúningur valdastéttarinnar nægir heldur ekki lengur til þess að fela óréttlætið sem færir þeim sem stuðluðu að falli þjóðarbúsins milljarði í gjafir í formi afskrifta, gjafakvóta og biðlaunasamninga.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Stjórnsýslufræðingur

Grein birt á smugunni í dag


mbl.is Tjaldbúar yfirgefa miðborgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband