2012-04-20
FJÁRMÁLAKERFIÐ AÐ GERA ÚT AF VIÐ ALMENNING
Ákveðin atriði sem varða samfélagið og skoðanir okkar á því hvernig við viljum að samfélag okkar virki félagslega, fjárhagslega og menningarlega eru ofar í hugum fólks en önnur. Við viljum að sátt sé um sanngirni og réttlæti í samfélaginu og við viljum ekki að eymd blasi við okkur á götum borgarinnar. Kannanir sýna að íslenskur almenningur hafi djúpa réttlætiskennd og láti sig varða náungann jafnvel þótt að einstaklingshyggjan sé ríkur þáttur í menningu okkar. Um 90% landsmanna vill að tækifæri manna séu jöfn og að bilið á milli ríkra og fátæka sé hvorki breitt né djúpt.
Jafnvel þótt að vilji manna um réttlæti sé svo ríkjandi meðal almennings veita stjórnmálamenn þessum vilja litla svörum. Þau kerfi sem stjórnmálamenn, þ.e. fulltrúar almennings móta ala á óréttlæti og spillingu. Í aðdraganda kosninga og í upphafi hvers nýs kjörtímabils eru kjósendur hafðir af fíflum. Dæmi um þetta eru að loforð, um að leggja niður kúlulánabastarðinn sem menn í daglegu tali kalla verðtryggingu og færa kerfisbundið eignir frá ungum fjölskyldum inn í fjármálakerfið, eru jafnharðan svikin.
Samþjöppun valds og eignatilfærslur frá fjöldanum og til fárra hefur einkennt samfélagsþróun á Íslandi síðastliðin tuttugu ár. Sjálfstæðisflokkurinn notaði skattakerfið til þess að auka mismunun ráðstöfunartekna í valdatíð sinni. Láglauna- og millitekju fólk var skattpínt en skattakröfum aflétt af hálaunafólki, fyrirtækjum, fjármagnseigendum og erlendum fjárfestum. Sparnaður almennings var færður í hendur örfárra fyrirtækja sem töpuðu hundruðum milljarða af fjármunum sem launþegar höfðu lagt til hliðar.
Hvernig kemst valdaelítan á Íslandi upp með að haga sér svona gagnvart almenningi? Ég tel að skýringu á þessu megi m.a. finna í misnotkun á tungumálinu okkar, slægum hugtakaskilningi landsmanna og hræðslu sem er orðin samdauna menningu okkar. Ég hef undanfarið verið að skoða skilning landsmanna á hugtakinu HÆGRI/VINSTRI. Þetta hugtak er hugtak sundrungar rétt eins og hugtakið SAMEININGAETÁKN sem notuð eru til þöggunar og til þess að berja almúgann til hlýðni.
Fyrrum forsetar og núverandi forseti, fram að hruni, brugðust þeim skyldum sem mælt er fyrir í stjórnarskrá lýðveldisins þegar þeir beigðu sig undir að vera SAMEININGARTÁKN í stað þess að standa vörð um velferð þjóðarinnar. Orðið SAMEININGARTÁKN sem kemur hvergi fyrir í lögum né heldur stjórnarskrá. Í skjóli þessa orðs hefur ríkisvaldið þurrkað úr aðkomu almennings að umdeildum málum og keyrt í gegn mál sem hafa dregið úr frelsi og lífsgæðum almennings.
Styrmir Gunnarsson skrifar nýlega pistil sem var birtur í Mogganum um sundrungu á VINSTRIvæng. Kannanir hafa sýnt að kjósendur hafa lítinn samræmdan skilning á VINSTRI/HÆGRI hugtakinu. VINSTRI þýðir samkvæmt ríkjandi skilgreiningu fræðimanna að viðkomandi vilji breytingar í þágu aukins lýðræðis og félagslegra og réttarfarslegra framfara. HÆGRI er hinsvegar skilgreint þannig að menn vilji standa vörð um hefðbundin kerfi og menningargildi. Menningargildi fortíðar fela í sér vistabönd og almúga sem bugtar sig og beygir fyrir hreppstjórnanum og prestinum. Sögur úr fortíðinni segja okkur frá einokun, kúgun og fátækt.
Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa raðað sér á skalann VINSTRI/HÆGRI en allir stjórnmálaflokkar sem hafa verið við völd á Íslandi hafa í raun verið HÆGRA megin. Þetta birtist í tregðu til samfélagslegra framfara. Það má því segja að pistill Styrmis missi marks. Sundrungsframboð hafa myndast bæðir frá sjálfstæðisflokki og framsóknarflokki undanfarið en þetta eru HÆGRI GRÆN og BETRI FRAMTÍÐ Guðmunds Steingrímssonar. Sundrungin er alls ekki á VINSTRI væng stjórnmála heldur er almenn sundrung í hinum pólitíksa ranni. Í íslenskri stjórnmálamenningu er þægð við foringjanna skýlaus krafa og því ná einstaklingar engum áhrifum nema að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Nú mætti kannski segja að það þurfi ekki að tíunda hvers vegna sjálfstæðisflokkurinn brást en það er hins vegar svo að fólk virðist hafa takmarkaðan skilning á ábyrgð sjálfstæðismanna á skuldavanda heimilanna, atvinnuleysi og ónýtri krónu. Ég ætla því að minna á það hér. SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN setti þjóðarbúið á hausinn. Þetta gerði sjálfstæðisflokkurinn með langvarandi og markvissu arðráni, með því að grafa undan lýðræðisstoðum samfélagsins og með því að lögleiða glæpi og ala á spillingu. Sjálfstæðisflokkurinn gróf markvisst undan stoðum réttarríkisins með klíkuráðningum í hæstarétt og með því að færa löggjafarvaldið til stærstu fyrirtækjanna í landinu en Viðskiptaráð hefur skýrt frá því að 90% af tilmælum þeirra til ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins voru samþykkt.
Völdin voru færð til fámennrar fjármálaelítu sem á stærstu fyrirtækin í landinu og tekin frá almenningi. Hvernig skýrum við þá afhroð VG og Samfylkingar í skoðanakönnunum undanfarið? Vill fólk ekki félagshyggju? Jú, jú fólkið vill félagshyggju en stjórnarflokkarnir hafa brugðist fólkinu í því að snúa ofan af gjörðum Sjálfstæðisflokksins. Kerfin sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til til þess að draga úr lífsgæðum almennings eru enn til staðar og ekki hefur verið tjaslað upp á kerfi sem styðja fólkið en Sjálfstæðismenn eyðilögðu.
Ný stjórnarskrá er að mörgu leiti misheppnuð. T.d. vantar í hana ákvæði um að breytingar á henni verði ekki samþykktar nema með beinni aðkomu kjósenda. Það er lítið í henni sem stemmir stigu við siðrofi og spillingu. Það er ekkert í henni sem í raun tryggir landsmönnum yfirráð yfir auðlindum og vald yfir eignum sínum, sbr. Lífeyrissparnaði. Landið er galopið fyrir innrás erlendra fjárfesta og arðráni valdaelítunar.
Almenningur skynjar þýlyndi stjórnvalda við kapítalismann og sniðgöngu við félagshyggju og stjórnarfarsumbætur og þetta veldur reiði. Notkun hugtaka eins og norræna velferðarmódelið um íslenskt stjórnarfar verður í besta falli hlægilegt í munni stjórnmálamanna. Ástandið væri þó verra í höndum sjálfstæðimanna. Mannlíf í landinu markast ekki eingöngu af mælikvörðum eins og landsframleiðslu og hagvexti. Inni í mælingum á landsframleiðslu á Íslandi eru t.d. hráefni sem er flutt til landsins og út úr því aftur en stórum hluta arðsins er skilað í formi vaxtagreiðslna til erlendra móðurfélaga. Þetta á við um stóriðjuna á Íslandi. Útstreymi fjármagns í þessu formi dregur úr verðmætum krónunnar og veldur því að stóriðjan skilar minni sköttum en ella. Stóriðjan er ekki mannfrekur iðnaður og stefna sjálfstæðisflokksins er ekki atvinnuskapandi til lengri tíma heldur fyrst og fremst bólumyndandi.
Vandamálin sem sjálfstæðisflokkurinn skapaði eru viðvarandi. Þúsundir fasteigna standa auðar og ef þær eru settar á markað hrynur fasteignaverð. Ólöglegar aðgerðir s.s. samráð um markaðsmisnotkun af hálfu markaðsráðandi fyrirtækja sum hver í eigu ríkis og almennings halda uppi fasteignaverði á íslandi. Umræða um upptöku erlends gjaldmiðils og afnám gjaldeyrishafta er í raun bara vangaveltur vegna þess að raunverulegur gjaldeyrisvaraforði er enginn heldur er ásýnd um hann sköpuð með þúsund milljarða erlendum lántökum sem kosta skattgreiðendur tugi milljarða á ári og viðheldur því raunvandamálum varðandi gjaldeyrisvaraforða. Þetta er afleiðing af verkum sjálfstæðisflokksins og vondum ákvörðunum núverandi valdhafa.
Grundvallarvandamál í Íslensku samfélagi eru sköpunarverk sjálfstæðisflokksins en núverandi ríkisstjórn hefur eigi að síður brugðist. Hún hefur hreint ekki verið það félagshyggju- og umbótaafl sem vonir stóðu til. Rotnar stoðir velferðarsamfélagsins eru enn rotnar. Jafnvel þótt umbætur hafa verið gerðar í löggjöf um klám og vændi er þeim ekki fylgt eftir af framkvæmdarvaldinu. Jafnréttislöggjöfin er jafn hunsuð og hún hefur ávallt verið. Vinnuveitendur ráðskast enn með sparifé launafólks. Fjölskyldur eru enn að sligast undan kúlulánabastarðinum sem fjölskyldum er gert að taka á sig í séreignarstefnusamfélaginu. Klíku og bitlingasamfélagið lifir góðu lífi. Fjölmiðlaumfjöllun er rotin og forheimskandi. Ég hef persónulega reynslu af ritskoðun í Stalíniskum anda.
VINSTRI/HÆGRI hugtakið er stjórntæki valdablokkanna. Það er notað sem merkimiði á fólk og gefur í skyn að eingöngu séu til tvennskonar fólk, VINSTRIfólk og HÆGRIfólk. Tvíhyggja á borð við þessa gefur til kynna tvö stríðand öfl og dregur ekki bara úr samstöðu fólks í mikilvægum málefnum heldur dregur hún einnig úr gagnrýninni hugsun og skapar hindrun í skilningi fólks á samfélaginu. Í þægð við pólunarhugtök dreifist athyglin frá mikilvægum málefnum líðandi stundar.
Mikilvægasta úrlausnarviðfangsefni að bættu samfélagi er að laga umræðuna. Afstaða til málefna sem skapa átakalínur í samfélaginu dag er ekki afgerandi. Staðan í alþjóðasamfélaginu er flókin. Fjármálakerfið er farið úr böndunum og fjölskyldur, minni og meðalstór fyrirtæki ásamt launþegum hafa beðið afhroð í þeirri menningu sem hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur mótað.
Nýfrjálshyggjan hefur alls ekki skapað almennt frelsi heldur hefur hún þvert á móti með samþjöppun valds skapað ánauð og frelsisskerðingu fjöldans. Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á því að skapa almennt atvinnufrelsi með því að bæta starfsumhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja. Þvert á móti þá hefur sjálfstæðisflokkurinn mótað umhverfi sem drepur niður rétt almennings til atvinnusköpunar og stuðlar að einokun markaðsráðandi fyrirtækja.
Landamæri á milli landa hafa orðið sífellt óljósari í heimi glóbalismans en önnur landamæri hafa tekið á sig skýrari mynd. Þetta eru landamærin á milli öreiganna og arðránssamfélagsins. Þessi heimsmynd er ný útgáfa af kúgunarsamfélagi miðalda. Nornarveiðarnar fara fram í formi útskúfunar og misnotkunar. Þeir sem eru óþægir gagnvart ríkjandi viðmiðum nýfrjálshyggjunar fá á sig nornarstimpilinn sem kirkjan útdeildi forðum en fjölmiðlar sjá um að merkja fólk með í nútímasamfélaginu. Fjölmiðlar sem eru á valdi hinnar fámennu valdaelítu.
Verkefni samtímans er að koma valdinu til fólksins. Á Íslandi þýðir þetta að útrýma þarf kúlulánabastarðinum, að tryggja þarf frelsi til athafna í helstu atvinnugreinum, að tryggja yfirráð launþega yfir sparifé sínu og að búa til umhverfi sem tryggir almenna atvinnusköpun á forsendum fólksins en útrýma því að arðránssjónarmið stóriðju, LÍÚ og fjármálakerfisins stjórni hegðun stjórnmálamanna.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Undirrituð er félagi í SAMSTÖÐU, flokks lýðræðis og velferðar
Skuldir heimila aukast stöðugt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:15 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl; Jakobína Ingunn, jafnan !
Upp hefir komist; að þau eru að minnsta kosti 2, sem SVÍKJA vilja íslenzka Alþýðu, með einskonar Rýtingsstungu, huglægri, í bak landsmanna.
Það eru þau ólukku hjú; Kristján Þór Júlíusson - svo og leiðari ykkar Samstöðu fólks; Lilja Mósesdóttir, sem hvoru tveggju eru sömu smámennin, og hin 61, félaga sinna, og vilja það til mála leggja; AÐ HÚSEIGENDUR SKRÍÐI FYRIR BANKA MAFÍUNNI, og skili sínum húslyklum, í krumlur þessarra andstyggða, sem fyrir fjármálasvindlinu fara, með tilstyrk liðónýts stjórnmála ruslsins, Jakobína mín.
Viltu ekki; endurskoða stuðning þinn, við Lilju slektið, við nánari athugun, minnar frásögu, síðuhafi góður ?
63menningarnir; eru ÖLL ÓKINDUR, af sama meiði !
Ekkert innihald - einungis; rennandi lyga blaður, úr hvoftum, þessa fólks, ár og síð !
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 02:37
Lyklafrumvarpið hefur eingöngu verið kynnt sem valkostur til þeirra sem það vilja. Það er lausn fyrir þá sem vilja slíta sig úr skuldaánauð við kerfið. Hinir geta valið aðra kosti.
Lyklafrumvarpið er ágæt lausn fyrir þá sem vilja byrja upp á nýtt og er alls ekki nein nýjung í alþjóðlegu samhengi. Þetta þýðir að í útlánum taka bæði lánveitandi og lántakandi á sig áhættu og þegar lyklum er skilað og skuldir þurkkast út hafa oftast báðir tapað að einhverju marki. Lántakandi höfuðstól sínum en lánveitandi eftirstöðvum skuldar að frádregnum verðmætum eignarinnar.
Afhending er þó ekki kvoð heldur valkostur sem er t.d. góður fyrir þá sem vilja flýja land.
Fjöldi fólks á ekkert í eignum sínum og skuldar í raun umfram verðmæti eingna. Sú staða á bara eftir að versna. Skuldabaggi sem fylgir fasteigninni leggur á þetta fólk frelsisskerðingu því framtíðartekjum þeirra er ráðstafað til fjármálakerfisins.
Lyklafrumvarpið býður því fólki upp á að velja á milli þess að eiga sitt frelsi óskorað eða að vera skrifað fyrir fasteign sem það á í raun ekkert í.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 03:09
Snúa ofan af gjörðum Sjálfstæðisflokksins? Eitt er að viðhalda, annað að festa í sessi. Það er hlálegt að fylgjast með meðhlaupurum stjórnarflokkanna rembast við að benda á Sjálfstæðisflokkinn.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 08:50
Sjálfstæðisflokkurinn ber mesta ábyrgð á ástandinu í samfélaginu í dag. Hann setti einfaldlega þjóðarbúið á hausinn og það er enn á hausnum þótt menn vilji ekki viðurkenna það. það er búið að tapa gríðarlega miklu og ýmsir hnútar hnýttir við hrun haustið 2008. Núverandi ríkisstjórn hefur hnýtt fleiri hnúta um það verður ekki deilt hér.
það sem er sorglegast er að ekki hefur verið tekið á spilltu og ónýtu kerfi sem lamar lýðræðið. Eingöngu verið hert á hnútum flokkræðisins og það er ófyrirgefnalegt.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 09:05
Velkomin til starfa Jakobína, til starfa fyrir þjóðina. Gildi Samstöðu felst í að þar er reynt að móta nýja Sýn, ný Viðhorf og nýja Nálgun á samfélagið og það sem þarf að gera til að það nái að vaxa og dafna fyrir fólk en ekki féfólk.
Árangurinn er mældur í því góða fólki sem svarar Kalli Lilju um að móta nýjan valkost gegn tregðunni sem ekkert sér og ekkert skilur og öllu mun eyða áður en yfir líkur. Ef fólk eins og þú, Marínó, Rakel svo ég nefni það fólk sem ég þekki hér úr Netheimum, leggur Samstöðu lið þá mun hún uppskera.
Ég er sammála öllu því sem þú lýsir í greininni og það ætti enginn að deila í ljósi afleiðinganna, að mikið fór úrskeiðis.
En ég er ekki sammála framsetningu þinni og ég tel að ef þið kveikið ekki á að allt sem gerðist, hefði gerst þó Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið í stjórnarandstöðu,, þá munið þið engum árangri ná. Aðeins verða enn einn smáflokkurinn sem festist í skotgröfum tuðsins.
Þú ert ekki að lýsa Sjáltstæðisflokknum, þú ert að lýsa valdi og kerfi, sem er mótað af ákveðinni hugmyndafræði. Það er hugmyndafræðin sem er andstæðingurinn, það er hún sem kom velferðarþjóðfélögum Vesturlanda á kné.
Algjörlega óháð hvaða flokkur hefur stjórnað.
Því peningavaldið sá til þess að enginn flokkur hefur fengið fylgi nema á forsendum þessarar hugmyndafræði, hvort sem þeir flokka sig til vinstri eða hægri.
Sjálfstæðisflokkurinn er fórnarlamb eins og við hin. Líklegast hafa flest fórnarlömb Hrunsins komið úr kjósendahópi hans.
Með því að ráðast svona alltaf á flokkinn þá uppskerð þú, og Samstaða ef hún tekur undir þennan málflutning þinn, aðeins vörn hins almenna flokksmanns um Hrunverja og hugmyndafræði þeirra. Þú uppskerð aðeins blóðugt stríð um ekki neitt, þó þú fellir flokkinn, þá uppskerð þú aðeins annan flokk sem Hrunverjar tefla fram.
Um þetta á ekki að þurfa að deila, það breyttist ekkert þó Sjálfstæðisflokkurinn færi úr stjórn, það kom aðeins nýtt verkfærði peningavaldsins í staðinn. Það breyttist ekkert heldur þó Andófið kæmi 4 þingmönnum að í gegnum Borgarahreyfinguna. Hrunvaldið beindi þeim í skotgrafir fortíðar og þar eru þau ennþá. Reynandi að fella fallin óvin á meðan nýr aðili sér um skítverkin fyrir Peningaaflið.
Þetta er ekki flokkabarátta Jakobína, heldur hugmyndafræðibarátta og innst inni þá veistu það.
Innan Sjálfstæðisflokksins er mjög margt fólk, ofboðslega margt fólk, sem sér Helið og vill endurnýjun á hugmyndafræði flokksins. Það á að ná til þessa fólks, hvetja það áfram til góðra verka.
Því aðeins Breiðfylking vel meinandi fólks fær lagt Peningaafl Hrunverja að velli, ekki hreinlífir smáflokkar tuðandi út í hvern annan eða út í fortíðina sem enginn fær breytt.
Vonandi tekst ykkur í Samstöðu að skilja hvað þarf að gera til að þið verið að raunverulegu breytingarafli.
Góð grein þín hefði verið frábær ef þú hefðir fjallað um óvininn, ekki eitt tæki hans.
Það er svo mikið í húfi.
Sjálft lífið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.4.2012 kl. 09:54
Sæll Ómar og takk fyrir innlitið
Ég er ekki sammála því að hugmyndafræðin sé í sjálfu sér óvinurinn því hún fellur dauð ef fólk er ekki tilbúið að tileinka sér hana. Það er fólkið eitt sem getur breytt samfélaginu og það gerist með því að hafna hugmyndafræði sem vinnur gegn almenningi. Stjórnmálaflokkar sem hafa verið keyptir bera fulla ábyrgð á þvi að hafa gert sig að söluvöru og svikið kjósendur í leiðinni.
Skömm fjórflokksins liggur framar öðru að hann viðheldur kerfi sem gerir mútur til stjórnmalamanna og stjórnmálaflokka löglegar, kosningalögum og flokkakerfi sem draga úr lýðræði og sjálftaka flokkanna viðgengst. Menn beygja sig einfaldlega undir auðræðið. Spillingin er meiri á Íslandi en víðast hvar annarsstaðar. það þarf ekkert að kenna umheiminum um það. Við berum sjálf ábyrgð á okkar siðferði.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 12:04
Mikið svakalega væri gott ef að fólk myndi lesa orðin hans Ómars með opnum hug og án flokksgleraugna. Það mun lítið breytast á meðan fólk heldur áfram að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem miður fer, myndin er svo miklu stærri og teygir sig víða, sérstaklega um Evrópu!
Margrét Elín Arnarsdóttir, 20.4.2012 kl. 12:10
Sæl Margrét Elín mér hefur heyrst á umræðunni að sjálfstæðisflokkurinn sé duglegur við að kenna öðrum flokkum um það sem miður fer og ástand sem hann ber sjálfur mesta ábyrgð á.
Jafnvel þótt að myndin sé stór og teygi sig víða þá breytir það ekki því að ábyrgðin á íslensku stjórnarfari liggur hjá íslenskum stjórnvöldum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 12:27
Ps. segi hvergi í pistlinum að allt sé sjálfstæðisflokknum að kenna er rek samt nokkrar staðreyndir um athafnir á valdatíma hans. það er hverju frjálst að túlka þennan texta.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 12:30
Komið þið sæl; sem fyrr !
Jakobína Ingunn !
Heldur; finnst mér þú skauta létt, yfir HÖFUÐÁBYRGÐ stjórnmála- og Banka, á því ófremdarástandi, sem hér nú ríkir, algjörlega.
Þau; Kristján Þór Júlíusson, svo og Lilja Mósesdóttir, eiga að SKAMMAST sín, fyrir uppgjafarviðhorfin, gagnvart Banka Mafíunni, og félögum sínum, í stjórn málakraðakinu, síðuhafi góður.
Margrét Elín !
''Sjálfstæðisflokkurinn''; er samansafn viðlíkra gerpa; huglægt - sem skipuðu eyðingarsveitir Rauðu Khmeranna, austur í Kambódíu, árin 1975 - 1979, en vitaskuld bera hin flokka ræksnin 3, hérlendu,, ekki minni ábyrgð, einnig.
Reyndu ekki; þann Hvítþvott, sem þú viðhefir, hér, að ofan, ágæta kona.
Getur tekið áratugi; sem aldir - að hreinsa upp, eftir stjórnmála- og önnur skemmdaröfl hérlend, gott fólk.
Með áþekkum kveðjum; sem þeim fyrri /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 12:41
Hvorki var ég að skjóta persónulega á síðuhöfund né að reyna að hvítþvo Sjálfstæðisflokkin, heldur var ég að taka undir orð Ómars hér á undan og vonast til þess að fleiri reyni að horfa á stóru myndina og hætti að benda alltaf bara á nokkra einstaklinga. Hér þarf að hreinsa til í stjórnkerfinu öllu og finnst mér stjórnmálamenn í dag, sama hvað þeir heita eða hvaða flokki þeir tilheyra hafa alltof mikil völd og geta því hagað sér eins og asnar á okkar kostnað án nokkurrar ábyrgðar - því þarf að breyta.
Margrét Elín Arnarsdóttir, 20.4.2012 kl. 12:49
Komið þið sæl; enn !
Margrét Elín !
Þakka þér fyrir; drengilegt, sem einarðlegt andsvar, þitt.
Með; ekki lakari kveðjum, en hinum fyrri - og áður /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2012 kl. 13:10
Jakobína, eyðing samfélaga er komin lengra á veg í Evrópu. Höfuðríki Vesturlanda, USA, hætti allri innri uppbyggingu fyrir um þremur áratugum. Fyrir Hrun var innri velferð á Íslandi á við það sem gerði best í heiminum, foreldri sem átti barn með meðfæddan hjartagalla fékk alla þá hjálp sem hann þurfti óháð fjárhag. Það er mælikvarðinn, og fá lönd skora hærra á honum.
Við getum ekki endalaust látið eins og allt hafi verið slæmt á Íslandi og það sé allt Sjálfstæðisflokknum að kenna.
Spillingin sem þú lýsir tengist langri valdasetu, óháð flokki. Ef þú skoðar nærsamfélagið þá er sami tónn út í komma á Nesk, framsókn á Sauðarkróki, krata í Hafnarfirði og íhaldið í Reykjavík. Fjær, bolsévíka í Rússlandi, tvíflokkinn í USA, kratana í Svíþjóð, og svo framvegis og svo framvegis.
Og þetta sem er að gerast, og hefur gerst á Vesturlöndum síðustu 30 árin, er hugmyndafræði því flokkarnir sem framfylgdu þessu voru ólíkir. En brutu allir upp regluverkið í þágu fjármagns. Brutu upp almannaþjónustu í þágu fjármagns og svo framvegis.
Þjóðin græddi ekkert við að losna við íhaldið, nema þá að óbreyttir sjálfstæðismenn tóku til varnar í ICEsave og gagnvart ásælni ESB. Sem er ríkjabandalag frjálshyggjunnar í dag.
Þeir sem ætla sér að breyta verða að átta sig á muninum á verkfæri og þeim sem beitir verkfærinu. Annars eru þeir endalaust í vindmylluslag.
Þeir verða líka að gera sér grein fyrir styrk sínum, þeir breyta ekki meir en þeir hafa afl til.
Og aðeins Breiðfylking fólks með ólíkan bakgrunn mun fella óvininn eina, hina siðlausu sérhyggju og græðgi sem hafnar þeirri hugmyndafræði að við séum öll eitt og berum ábyrgð gagnvart hvort öðru.
Það að ætla sér út í stríð með þeirri taktík að búa sér til óvini í upphafi, fólk sem gæti verið bandamenn gegn óvininum eina, það er taktík sem skilar örugglega einu.
Ósigri.
Það þýðir ekki að glæpavæða stuðningsmenn fjórflokksins, það er svo vonlaust.
Árangur næst ekki nema með hugmyndafræði sem sameinar, en sundrar ekki.
Allt annað eru vélabrögð óvinarins.
Og Samstaða á enga von ef hún áttar sig ekki á því.
Stríð vinnast í framtíðinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.4.2012 kl. 13:50
Sæll Ómar
Mér finnst þú túlka skrif mín furðulega og tala dálítið í hringi. Er eitthvað virðingarvert við að vera verkfæri. Fólk sem bíður sig fram til æðstu embætta í landinu á að geta unnið sjálfstætt og staðið við loforð sín við kjósendur.
Ef við horfumst ekki í augu við fortíðina þá getum við ekki lært af henni. Forysta sjálfstæðisflokksins, þ.e. Árni Matthiesen og Baldur Guðlaugsson eru upphafsmenn af Icesave og hnýttu fyrstu hnútanna í því máli.
Þöggun hefur aldrei leitt af sér gott. Ég lýsi atferli valdamann innan sjálfstæðisflokksins á raunsæjan hátt. Helsti ágalli á íslensku samfélagi er innræting meðvirkni. Fólk þarf að læra að standa með sjálfu sér og líta á raunsæjan hátt á söguna og arfleifðina. Ég tel að Ísland geti ekki átt góða framtíð í höndum áróðursmeistara sem kenna fólki að slást í anda HÆGRI/VINSTRI. Við þurfum að læra að berjast fyrir því góða, fyrir sanngirninni, fyrir réttætinu og fyrir heiðarleikai
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 19:46
Sæll Ómar...aftur
Marg af því sem þú segir kemur mér á óvart, t.d. eins og þú kveður upp um að ég sé a leiðinni í eitthvað stríð. Pistillinn sem ég skrifa hér er alfarið á mína ábyrgð. Taktík sjálfstæðisflokksins er að óvinavæða þjóðina með því að nota orðarfar tvíhyggjunar. T.d. VINSTRI/HÆGRI sem gefur til kynna að tvennskonar fólk sé í landinu. VINSTRIfólk og HÆGRIfólk. Þetta er ósmekklegt áróðursbragð og til þess fallið að skipa fólki í stríðandi fylkingar.
Við berum öll sjáf ábyrgð á okkur sjálf og það er klént að kenna alþjóðaveldi um okkar eigin afglöp. Íslenskir stjórnmálamenn bera ábyrgð á íslensku stjórnarfari. Það var vinsælt í máli Geirs Haarde að við skyldum ekki persónugera vandann. En það voru einmitt persónur sem tóku ákvaðanir, báru ábyrgð á löggjöfinni og ríkinu. Enginn þeirra sem tóku vondar ákvarðanir hefur beðist afsökunar. Kenna alþjóðastraumum um. Vissulega eru alþjóðastraumar til staðar en það er á ábyrgð okkar sjálfra að sýna karkter og hafna vondri hugmyndafræði.
Ég reyni að draga upp raunsæa mynd af fortíðinni. Ef það aflar mér óvina so be it. Ég er ekki í vinavæðingu í mínum skrifum og fórna ekki skynseminni og raunsæinu á altari vinsælda. Ég styð Samstöðu vegna þess að ég tel að þar fari skynsamt og heiðarlegt fólk með nægilega greind til þess að standast alþjóðastraumanna í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar. Vissulega blæðir sjálfstæðisflokkurinn fyri að hafa gerst klappstýra nýfrjálshyggjunnar og auðræðisins en það var hans val. Eins og ég hef bent á það lifir hugmyndafræði aldrei nema í gegnum postula sína.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.4.2012 kl. 23:33
Ágæt lýsing á Íslenskum kjósendum
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.4.2012 kl. 08:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.