Forseti þjóðar eða forseti auðræðis?

Það þótti ekki tiltökumál þegar að Viðskiptaráð hreykti sér af því fyrir hrun að stjórnvöld hefðu innleitt 90% af tilmælum ráðsins, til löggjafarvaldsins, í lög. Stærstu fyrirtækin í landinu, eignarhaldsfélög og auðmenn fara með völdin í Viðskiptaráði og ætla má að hagsmunir Viðskiptaráðs séu hagsmunir auðræðisins. Það þykir ekkert tiltökumál að prófkjörslagur þingmanna og kosningaslagur stjórnmálaflokka sé kostaður af sérhagsmunaaðilum. Ég hef kosið að kalla þetta mútur en aðrir kjósa að draga hulu þöggunar yfir þessi tengsl löggjafarþings og viðskiptalífs.bilde_pen_1154253.jpg

Átök um íslenska stjórnskipan hafa verið áberandi frá falli bankanna haustið 2008. Þessi átök hafa speglast í rannsóknarskýrslu Alþingis, landsdómi Geirs Haarde og umfjöllun í fjölmiðlum og netheimum. Lögmæti hegðunar er túlkuð og endurtúlkuð í ljósi réttarríkis og stjórnarskrár.

Spilling í stjórnmálum

Þegar þingið starfar ekki af heilindum við kjósendur þá kallast það spilling. Stofnanavædd spilling er eigi að síður spilling. Hún er spilling jafnvel þótt hún sé innleidd í lög af spilltum stjórnmálamönnum.

Spillt hegðun stjórnmálamanna er þeim oft óljós. Eitt af því sem markar menningarkima stjórnmálanna er hljótt samkomulag um ríkjandi viðmið. Ríkjandi viðmið eru oft lítið meðvituð, lítið dregin í efa en ráða miklu um hegðun manna. Hegðun margra stjórnmálamanna hefur mótast af áratuga setu á þingi eða þátttöku í stjórnmálum.

Fræðimenn hafa skilgreint spillingu í stjórnmálum sem hegðun embættis- og stjórnmálamanna sem víkur frá meginskyldum embættis eða stöðu. Í þessu felst móttaka á mútum (greiðslum eða greiðum), skyldleikatengsl (tengsl eru tekin fram yfir verðleika) og misnotkun á stöðu (t.d. með sjálftöku). Ákvarðanir og atferli í stjórnmálum sem stríðir gegn velferð almennings er pólitísk spilling. Á Íslandi hafa stjórnmálamenn innleitt spillt atferli í lög og má þar nefna greiðslur til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði og heimild stjórnmálaflokka til þess að taka við greiðslum frá hagsmunaaðilum. Andverðleikasamfélagið er afsprengi ríkisstjórna sem hafa notað stofnanir sem kostaðar eru af skattgreiðendum til þess að byggja undir eigin völd, gert þær að varðhundum valdakerfisins.arni_og_bjorgulfur_2_1154254.jpg

Pólitísk spilling og misbeiting valds í íslenskum stjórnmálum blasir við hverjum þeim sem vilja láta sig málið varða. Meiri hluti alþingis hefur verið leppur fámenns hóps sem tryggt hefur sér forréttindi í gegn um löggjöf, löggjöf sem vinnur ekki eingöngu gegn mannréttindum, atvinnufrelsi og jafnræði heldur hefur einnig brotið niður helstu stoðir samfélagsins og skilið við efnahag landsins í rjúkandi rústum.

Réttur almennings

Það skýtur því nokkuð skökku við þegar menn reka upp ramakvein yfir því að forsetinn fjalli um hvort heppilegt sé að þjóðin fái að hafa aðkomu að tilteknum málum sem til meðferðar eru á þinginu. Ég hef hvergi, þrátt fyrir mikla leit, rekist á það í fræðigreinum um pólitíska spillingu að það að þingmenn séu minntir á tilvist kjósenda geti talist til pólitískrar spillingar eða truflað störf stjórnmálamanna. Það lýsir vel hinni pólitísku firringu og siðferðislegri hrörnun þegar álitsgjafar telja að ef forsetinn minni á kjósendur, þegar frumvörp eru í smíðum, þá þýði það að ráðherrar eða þingið þurfi að fara að semja við forsetann. Menn telja það gefið og eðlilegt að viðbrögðin við því að þjóðin fái stjórnarskrárbundinn rétt sinn virtan að þing og stjórnarráð vanvirði aðgreiningu valdastofnanna. Að það sé augljóst og eðlilegt að hægt sé að semja við forsetann um að snúa baki við þjóðinni og taka þátt í valdamakki ríkisstjórna og stjórnmálaflokka.

Þögull forseti virðist vera óskabarn stjórnvalda. Forseti sem tekur að sér að vera táknmynd þægðarinnar er ekki forseti þjóðarinnar heldur forseti þingsins og forseti auðræðisins. Það er ekki bara myndlist, leiklist eða bókmenntir sem marka íslenska menningu heldur er pólitík sterkt áhrifaafl menningar og ætti hver forseti að láta sig varða þennan mikilvæga áhrifavald íslensks þjóðlifs.

Skyldur og hæfni forseta

Allt samfélagið á að vera forsetanum viðkomandi enda gerir stjórnarskráin ráð fyrir því að hann geti veitt þjóðinni aðkomu að mikilvægum málum sem fara í gegn um þingið.

Nokkur málefni valda þjóðinni miklu hugarangri og ófriður mun ríkja í samfélaginu á meðan þjóðin fær ekki beina aðkomu að þessum málum. Kvótakerfið er eitt slíkt mál enda hefur kvótakerfið tekið frumbyggjaréttin af fólki sem um aldir hefur sótt lífsbjörg á sjávarmiðin. Slíkur réttur er heilagur í siðmenntuðum samfélögum. Kvótakerfið úthlutar fáeinum fjölskyldum einokunarrétt á sjávarauðlindinni sem þær nota til þess að kúga almenning í landinu og hafa af honum lífsgæðin. Verðtrygging á útlánum og ítök vinnuveitenda í sparnaði launafólks eru að sama skapi málefni þjóðarinnar og birtingarmynd ríkjandi auðræðis. Réttlæti, jafnræði og siðmenningu er hafnað með ríkjandi fyrirkomulagi og lögum. EES samningurinn, ESB aðild, Schengen samstarfið og stjórnarskráin eru málefni sem varða samfélagsgerð og því ætti að bera lögin undir kjósendur.

Ákvarðanir fyrri forseta hafa verið hápólitískar. Það er jafn pólitísk ákvörðun að beita ekki málsskotsréttinum og að beita honum í ljósi ákvæða í núgildandi stjórnarskrá. Enginn forseti getur verið ópólitískur heldur verður ávallt að skoða athafnir hans eða athafnaleysi í ljósi þess hlutverks forseta sem kveðið er á um í stjórnskipunarlögum.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir ákvað að nýta ekki málsskotsréttinn og vísar EES samningnum ekki til þjóðarinnar þá var það hápólitísk ákvörðun. Í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave höfnuðu yfir 90% þátttakanda samningnum. Það má því vera nokkuð ljóst að sterk eining var um andstöðu við samninginn meðal þjóðarinnar. Forsetinn hlýddi kalli þjóðarinnar í máli sem eining ríkti um meðal þjóðarinnar.

Innleiðing EES samningsins var hroðvirknisleg. Samningurinn er frumforsenda hrunsins vegna þess að hann innleiddi frjálst flæði fjármagns án þess að nokkrar varnir væru settar upp með löggjöf og stefnu um takmarkanir sem byggðu upp varnir fyrir þjóðina gegn aðilum sem hugðu á gróða á kostnað þjóðarinnar. Arðurinn af auðlindunum lenti í höndum fárra sem forðuðu honum úr landi. Á skömmum tíma voru innviðir þjóðarbúsins brotnir niður og viðskilnaðurinn þúsund milljarða ríkisskuldir sem vofa yfir velferð og lífskjörum í landinu. EES samningurinn sem átti að auka frelsi hefur á kaldhæðinn hátt vegið að frelsi almennings með gjaldeyrishöftum og samfélagslegri stöðnun.lyfjagras.jpg

Hættur vofa yfir íslensku samfélagi vegna hrunsins. Þúsund milljarða erlendar skuldir og þrýstingur frá sérhagsmunaaðilum um að fella þessa skuldir á skattgreiðendur kallar á sterka varnarrödd. Vegna hrunsins og vegna djúpstæðrar óánægju í samfélaginu með þægð stjórnvalda við fjármálaöflin er þörf fyrir forseta sem þorir að standa gegn auðræðinu og taka sér stöðu með almenningi. Forsetinn þarf að hafa styrk sem felst í djúpri og mikilli þekkingu. Hann þarf að hafa ást á náttúrinni og skilja mikilvægi þess að við verjum landið gegn ágengni þeirra sem vilja ræna arðinum af auðlindunum. Forsetinn þarf að hafa framtíðarsýn og skilning á því að við þurfum að skila góðu samfélagi til afkomenda okkar. Í ljósi framangreindra atriða þarf forsetinn að vera tilbúinn að beita málsskotsréttinum og ljá þjóðinni rödd í mikilvægum málefnum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur.
Höfundur er félagi í SAMSTÖÐU, flokks lýðræðis og velferðar.
mbl.is Ólafur mælist með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábæran pistil. Kem honum áfram til vina og kunningja.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 19:35

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Mjög góð færsla hafðu þökk fyrir, herra Ólafur R Grímsson er okkar eina von til að halfa aftur af núverandi stjórnkerfi sem klárlega hallast að auðvaldinu og spillingu í kerfinu! Sjálfur var ég fok reiður þegar Vigdís Finnboga neitaði þjóðini um að fá að hafa val sambandi við EES samninginn nú reyna stjórnvöld allt til að koma sýnum málum í gegn meira segja með aðstoð fjölmiðla koma með Þóru og kappkosta allt til að ná henni í gegn og um leið að hafa ótakmarkað frelsi til þess að koma ólýðræðislegum málum í gengn!

Sigurður Haraldsson, 25.5.2012 kl. 20:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú sannar þig æ betur með hverjum pistli Jakobína Ingunn.

Magnað!

Árni Gunnarsson, 25.5.2012 kl. 23:21

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég er reyndar að skoða tvo frambjóðendur en það eru Ólafur Ragnar Grímsson og Herdís Þorgeirsdóttir. Ég treysti þeim báðum til þess að opna farveg lýðræðis til þjóðarinnar. Þau eru bæði með mikla þekkingu sem nýtist þeim í embættinu og bæði mjög hæf til þess að koma fram á erlendum vettvangi. Ólafur er stjórnmálafræðingur en Herdís skrifaði firnagóða doktorsritgerð um mannréttindi og tjáningafrelsi í fjölmiðlum. Herdís hefur það fram yfir Ólaf að hún myndi koma ný og fersk inn í embættið.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.5.2012 kl. 23:32

5 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Flottur og beittur pistill Jakobína. Það er gott að fleiri og fleiri sjái að spillingin ríður ekki við einteyming á landinu bláa. Fólkið þarf vörn gegn spilltu hyski sem kann sig ekki í eigin græðgi. Þvíð miður er fjórflokkurinn að sanna sig betur og betur að vera svo gegn sýrður að hagsmunagæslu að þjóðin á í vandræðum með hvert það á að snúa sér.

Nú starfandi ríkistjórn leggur fram kvótafrumvarp samið af lögspekingum LÍÚ! Frumvarp sem eyðir þeim vörnum sem eru þó í núverandi kvótakerfi og ætla svo að freista þess að "plata" þetta í gegnum þingið og þjóðina með klækjum sem felast í "auðlindagjaldi sem er bara prump". Þjóðin á að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu og segja nei við 20+ frumvarpi ríkistjórnarinnar.

Ólafur Örn Jónsson, 25.5.2012 kl. 23:50

6 identicon

Ef ekki væri fyrir EES samninginn væri sýslumenn ennþá bæði ákærendur og dómarar. Það ætti stjórnsýslufræðingurinn að vita.

Um "forseta auðræðisins" má t.d. lesa hér (et.al.): http://blogg.smugan.is/avextir/2012/05/25/bankathjonninn/

Badu (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 00:12

7 Smámynd: Friðrik Már

Flottur pistill Jakobína og fróðleg lesning

Friðrik Már , 26.5.2012 kl. 00:34

8 identicon

Takk fyrir þennan einstaklega greinargóða og sanna pistil Jakobína.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 02:35

9 identicon

Þessi pistill er frábær um flest og tekur í raun undir flest það sem ég hef skrifað um þessi mál.

*

En ég er ósammála því að Ólafur Ragnar geti verið þessi vonarpeningur sem einhverjir hér halda fram sem gera þessar athugasemdir við pistilinn.

*

Það eru allir frambjóðendur sammála um að eðlilegt sé að málskotsrétturinn verði virkur í framtíðinni. En það er nokkuð sem gömlu valdaflokkarnir (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn) munu ekki geta sætt sig við.

*

Það eru einmitt þessir gömlu spilllingarflokkar sem þú lýsir ágætlega Jakobína.

*

En það er erfitt að sætta sig við að forseti landsins leggi línurnar fyrir Alþingi og ríkisstjórn á hverjum tíma og starfi rétt eins gömlu einveldin gerðu á 19. öldinni. Það bara gengur ekki upp en það er boðskapurinn sem Ólafur Ragnar hefur látið frá sér fara.

*

Ég á ekki von á því, að þegar nær dregur kosningum að sjálfstæðismenn munu geta sætt sig þau vinnubrögð sem Ólafur Ragnar boðar sem er að setja hvert málið á fætur öðru í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir hans geðþótta.

*

Þá er eðlilegra að ákveðið hlutfall kjósenda rétt eins og stjórnlagaráðið leggur til geti gert kröfu um að þjóðin fíai að segja sitt álit en þá eftir skýrum reglum um hvernig skuli fara með kannanir á vilja þjóðarinnar. En einnig ákveðið hlutfall alþingismanna.

*

Draga verður úr sterkum áhrifum hagsmunaafla í landinu á stjórnarfar landsins

Kristbjörn Árnason (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 09:11

10 identicon

Ég mun aldrei kjósa Ólaf Ragnar aftur. En ég hef kosið hann tvisvar í forsetakosningum auk annarra kosninga.

*

Einfaldlega vegna þess að hann starfaði sem liðsmaður og varðliði spillingaraflanna í landinu. Einmitt varðliði þeirra sem Jakobína nefnir í sínum ágæta pistli og hann er enn að.

*

Hann hrósaði þeim gjarnan þegar hann kom því við og hengdi á þá sokkabands dingl í tíma og ótíma.

*

Stunduðu þessir ódámar gjarnan tedrykkjur með Ólafi Ragnari síðdegis þegar þeir máttu vera að því.

Kristbjörn Árnason (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 09:34

11 Smámynd: Samstaða þjóðar

Kjölturakkar Evrópusambandsins gera nú harða atlögu að Ólafi Ragnari og fela sig gjarnan bak við þingræðis-duluna. Lýðræðissinnar hafna því höfðingjaveldi sem þetta fólk aðhyllist. Þeir sem hrópa um að leggja niður embætti forsetans eru að kalla eftir höfðingjaveldi, því að lýðveldi er ekki starfhæft án forseta.

 

Af þeim framjóðendum sem í boði eru til embættis forseta, er einungis einn sem hefur haft dug til að láta að sér kveða gegn Icesave-kúgun og ESB-þjónkun. Þetta er Ólafur Ragnar Grímsson. Þess er einnig að vænta að Ólafur Ragnar muni leggja lið gegn tilraunum kjölturakkanna að eyðileggja Stjórnarskrána.

 

Engu máli skiptir hvað frambjóðendur segja í kosningabaráttu. Við sjáum að fylgi frambjóðanda Samfylkingarinnar (Þóru) er raunverulega einungis fylgi þessa aumkunarverða stjórnmálflokks, sem við öll tækifæri hampar hinni framandi hugmyndafræði. Ekki má það verða að boðberar erlends valds fái aðsetur að Bessastöðum.

 

Forseti lýðveldis er umboðsmaður almennings og hann verður að setja valdagráðugum þingræðissinnum skorður. Verkefni Alþingis er að setja landinu lög, en það er hvorki fullveldisgjafi, né framkvæmdavald. Þjóðin sjálf er fullveldisgjafi í lýðveldum, vegna þess að þjóðin sjálf fer með fullveldisréttinn. Spurningin er hvaða fullveldisréttindi þjóðin ætlar að taka í eigin hendur. Allir fulltrúar almennings hafa brugðist traust þjóðarinnar, nema forsetinn.

 

Þjóðarkannanir um mikilvæg mál eru einskis virði þegar stjórnkerfið er fullt af þingræðissinnum. Flestir vita að Alþingismenn eru einungis bundnir við samvizku sína og ekki niðurstöður úr þjóðarkönnunum. Þess vegna kemur ekki til álita að afnema 26. greinina úr Stjórnarskránni. Þegar almenningur gengur til atkvæða um mikilvæg mál, er einungis þjóðaratkvæði ásættanlegt. Skrípaleikur eins og ríkisstjórnin stendur fyrir um óljós stjórnarskráratriði segir alla söguna um vilja þessara þjóðsvikara.

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 26.5.2012 kl. 15:34

12 identicon

Þóra er vitaskuld forsetaframbjóðandi elítu Samfylkingarinnar og VG

og  hefði því skrifað undir alla víxla og verðbréf hrægamma og erlendra vogunarsjóða, samkvæmt valdboði frá Jóhönnu og Steingrími.

Það velkist enginn í vafa lengur um það.  Þóra hefði aldrei gengið gegn vilja Jóhönnu og Steingríms. 

Hún hefði kvittað undir, með sælubros á vör, svo íslenska þjóðin yrði negld á krossinn fyrir syndir alls hins siðspillta fjármálaheims;

allt fyrir drauminn um hlutdeild "vinstri" elítunnar um alríki elítunnar.

Það er því hlálegt að lesa athugasemdirnar frá Kristbirni Árnasyni,

sem skrifaði sem óður maður um að íslenskur almenningur skyldi fara á krossinn og þjónaði þar blindur boðvaldsskipun Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar.

Jón og Gunna (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 17:04

13 identicon

Hárrétt Jón og Gunna. 

Látið mig sko þekkja skrif Kristbjarnar Árnasonar á smugunni.is um hina stórkostlegu Icesave samninga Svavars, Indriða og Steingríms. 

En við skulum fyrirgefa Kristbirni blindu hans þá og vona að nú galopni hann sín augu og felli eitt eða tvö eilífðar tár og iðrist duggunarlítið í hjarta sínu.  Það hefur Ólafur Ragnar gert, sá breyski maður og ég hef fyrirgefið honum og tel hann meiri mann fyrir vikið. 

Kannski enn sé von til að Kristbjörn sjái vítt og breitt um heiminn allan og ég man að hann er hrifinn af frelsisanda margra sem í suðurríkjum bandaríkjanna búa og hafa barist leynt og ljóst gegn federalísku ofríki ofurríkisvaldsins.  Ég vil ekki heldur federalískt ofurríki, stýrt af Brussel og með fjármálabækistöð í Frankfurt.  Ég segi Nei takk.  

Jón Jón Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 17:17

14 identicon

En til að létta fólki lundina og Kristbirni vonandi til ánægju, þá læt ég svo fylgja með dásamlegt myndband úr fábrotnu eldhúsi, þar sem Louisiana sydeco dansspor eru stigin af miklu lífsfjöri, sem seint myndu teljast til staðlaðra alríkis spora, hvorki í Washington né Brussel og alls ekki í Frankfurt eða á Wall Street, en mikið eru þau skemmtileg, lífleg og fjörleg:-)

http://www.youtube.com/watch?v=8iz0Px8a5HI&feature=related

Jón Jón Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 17:49

15 identicon

Kíkiði á myndbandið og ímyndið ykkur að þannig byrjuðu allir dagar á vanhæfa þinginu, sem 90% þjóðarinnar treystir ekki lengur

að þannig byrjuðu allir dagar hjá vanhæfu ríkisstjórninni, sem virðist hafa það eitt að markmiði að níða heimilin og fjölga hér þrælum í vistarböndum

að þannig byrjuðu allir dagar hjá aðlagaðri stjórnsýslunni og stofnunum hennar, sem virðast hafa það eitt að markmiði að hygla sér og einungis sínum

... að þannig byrjuðu allir dagar hjá okkur öllum, sem bara viljum mynda samstöðu um lýðræði okkar og velferð okkar til hagsbóta fyrir okkur öll, í þeirri fullvissu að við búum í gósenlandi og að hér ættu allir að geta haft það gott, í sátt og samlyndi og með fullveldi okkar tryggt,

án valdboða að ofan frá elítu júró-teknó-Krata-Kommanna og vatnsgreiddra stuttbuxna Dindlanna; allra vinstri, hægri moðsuðu sundrungarliðanna.

Við vitum öll hvað er satt, hvað er rétt, hvað er sanngjarnt og hvar sjálfar frummyndir alls hins góða og fagra eru geymdar, en það er vitaskuld í sammannlegum hjörtum okkar og við vitum það öll í dansandi anda okkar á eilífu ferðalagi okkar allra, sammannlegu ferðalagi okkar allra og alltaf höfum við fundið okkur leið til samstöðu til lýðræðis og velferðar okkar allra og það getum við gert ef við fórnum ekki fullveldi okkar.  Hægust eru heimatökin.

Jón Jón Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 19:34

16 identicon

Forsetinn og utanríkisstefnan

Það ber vott um að nokkrar áhyggjur ríki í herbúðum Þóru Arnórsdóttur þegar stjórnarkona úr kvennahreyfingu Samfylkingarinnar skrifar og heldur því fram að Ólafur Ragnar Grímsson sé karlremba. Þetta fær nokkrar undirtektir hjá stuðningsmönnum Þóru á Facebook – jú, kannski hefur þetta einhver áhrif, en þetta er dálítið eins og að skjóta út í loftið í von um að það hitti.

Það eru þó miklu áhugaverðari hlutir að gerast í kosningabaráttunni, eins og þegar Ólafur Ragnar lýsir því yfir fullum fetum að forseti hafi utanríkisstefnu. Kristjáni Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur hefði aldrei dottið í hug að þau hefðu sína eigin utanríkisstefnu. Bæði höfðu þau til dæmis verið á móti her í landi – það var stærsta deiluefni þeirra tíma – en þau pössuðu sig að hafa ekki neina skoðun á þessum málum á forsetastóli.

Ólafur gerist djarfari í túlkun sinni á forsetaembættinu með hverjum deginum. Hann virðist hafa eignast óvæntan bandamann í Svani Kristjánssyni. Stjórnmálamenn eru hins vegar farnir að skjálfa vegna þessa – og í raun gæti þarna verið tækifæri fyrir stuðningsmenn Þóru til að reyna að skilja eitthvað af Sjálfstæðisflokksfylginu frá Ólafi. Því forystu Sjálfstæðisflokksins líst alls ekki á Ólaf Ragnar í þessum ham, Sjálfstæðisflokkurinn gæti jú komist í ríkisstjórn og þurft að glíma við hann.

Það er sagt að Björn Bjarnason ætli að styðja Ara Trausta Guðmundsson. Það kemur vel á vondan, því Ari var í langan tíma foringi í einhverjum hörðustu kommúnistasamtökum sem hafa starfað á Íslandi.

En þarna eru markalínur. Ólafur Ragnar seilist til æ meiri valda, en á Þóru er að heyra að hún hafi aðrar hugmyndir um embættið. Hún mun ábyggilega ekki koma sér upp sinni eigin utanríkisstefnu og nú talar hún um að beita eigi málskotsréttinum í ítrustu neyð. Maður veit svosem ekki hver slík neyðartilvik yrðu – Vigdís tók sem dæmi eftir að hún lét af embætti að hún hefði aldrei samþykkt að dauðarefsingar yrðu teknar upp – en ef má marka þetta er hugsanlegt að Þóra myndi aldrei nota málskotsréttinn næði hún kjöri.

Svo skrifar Egill Helgason og mælist vel (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 19:59

17 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Forsetinn á samkvæmt stjórnarskrá að vera farvegur fyrir vald þjóðarinnar. Það skiptir engu máli hvort forsetinn hafi utanríkisstefnu því hann hefur engin úrræði til þess að raungera hana.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.5.2012 kl. 22:51

18 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ég fór að athuga með ummæli Kristbjörns um Icesave-kúgunina og fann merkilega færslu, þar sem Kristbjörn fjallar um viðtal við mig á Stöð2: Fyrirsögn Kristbjörns er:

Yfirgengilegur málflutningur vegna Icesave og virðast hreinar lygar.

http://blogg.visir.is/krissi/archives/17930

Ég hafði sannanlega rétt fyrir mér, en Kristbjörn hefur líklega ekkert lært. Hér er viðtalið:

http://www.visir.is/loftur-altice--engin-ahaetta-af-thvi-ad-segja-nei/article/2011110409719

Hér er blaðagrein um málið:

http://altice.blogcentral.is/blog/2011/4/8/landsbankinn-var-med-tvofalda-tryggingu-fyrir-esb-lagmarkid/

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 26.5.2012 kl. 23:19

19 identicon

Alveg hreint frábær pistill, ekki á hverjum degi sem maður sér svona flottar færslur.

Alltaf gaman þegar maður finnur nýja og spennandi bloggara að lesa.

Takk fyrir mig.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 00:28

20 identicon

Frábær grein, Jakobína

Langar samt aðeins til að rita ögn í kringum eftirfarandi tilvitnun í grein þinni:

,,Pólitísk spilling og misbeiting valds í íslenskum stjórnmálum blasir við hverjum þeim sem vilja láta sig málið varða. Meiri hluti alþingis hefur verið leppur fámenns hóps sem tryggt hefur sér forréttindi í gegn um löggjöf, löggjöf sem vinnur ekki eingöngu gegn mannréttindum, atvinnufrelsi og jafnræði heldur hefur einnig brotið niður helstu stoðir samfélagsins og skilið við efnahag landsins í rjúkandi rústum."

Verst er þó hversu fáir taka rækilega fyrir hversu miðstýringin undir sjórn þessarar þokkalegu og ólýðræðislegu og siðsopilltu samsuðu er að kirkja landsbyggðina.

Í hvert sinn, sem minnst er á raunverulega valddreifingu og er þá átt við það eina form, sem von væri til að hefði bolmagn til að hrissta upp í þessari valdablokk miðstýringarinnar, beitir hún og vel upp aldar strengjabrúður hennar, öllum ráðum til að drepa allar slíkar hræringar í fæðingunni.

Eitt helsta afrek þessa kerfis má vafalaust telja þau pólitísku klókindi, þegar þessi þokkahópur kom því til leiðar að nánast algjör þöggun hefur ríkt um millistig í stjórnsýslunni í (eitt eða fyrir á milli ríkis og sveitarfélaga) a.m.k. síðastliðin 20 ár.

Eitt algengasta afbrigði af þessu hugtaki í helstu lýræðisríkjum heims, þriðja stjórnsýslustigið með stofnun sjálfstjórnarsvæða (fjórðunga, fylkja...) var nánast á hvers manns vörum hér á landi, einkum fyrir kosningarnar 1987, sem að hluta til snérust þá um valddreifingu þessa. Mjög dofnaði yfir þessari hugsjón eftir það og var hún endanlega þögguð niður strax upp úr kosningunum 1991, þegar öflugur byggðamálaráðherra kom fullskapaður inn á þing beint upp úr borgarstjórastólnum í Reykjavík, og byrjaði að brúka bláa hanskann á landsbyggðina. Snilld þessa sjálftökuliðs auðs og valda er slík í þessu máli að það þorir nánast enginn að nefna þriðja stjórnsýslustigið á almanna færi og berist talið að því er reynir viðkomandi að setja það í einhvern búning, án þess að nefna það sínu rétta heiti.

Þórarinn Lárusson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 19:30

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég sé ekki að það sé neitt stríð á milli landsbyggðar og höfuborgarsvæðis. Þetta stríð er tilbúningur kjördæmapotara en velsæld landsbyggðarinnar er hagsmunamál allra landsmanna.

Ég er sammála nauðsyn þriðja stjórnsýslustigsins sem fengi það hlutverk að verja hagsmuni viðkomandi byggðarlags. Samfara þessu væri heppilegt að þingmenn væru óháðir byggðalögum og ynnu með hagsmuni allra landsmanna í huga.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.5.2012 kl. 13:02

22 Smámynd: Óskar Arnórsson

Hreinasta snilld þessi pistill Jakobina! Eiginlega sá magnaðasti sem ég hef séð á Íslandi nokkurn tíma ....!!

.... spilling byrjar oft rétt eins og einelti í skóla eða vinnustað. Það tekur engin eftir neinu fyrr enn of seint. Og í stað þess að laga spillinguna eða eineltið í hópnum, er fundin sökidólgur svo hópurinn sleppi við að læra um hvað spilling sé og hvernig hún þróast og verður til ...

... spilling og siðleysi einnar eða fleiri persóna er bara spegilmynd af þeim hóp sem þeir tilheyra ...

Óskar Arnórsson, 31.5.2012 kl. 01:34

23 Smámynd: Samstaða þjóðar

Eins og þú bendir á Jakobína, þá var aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) frumforsenda Efnahagshrunsins. Það var ekki að ástæðulausu sem tugþúsundir landsmanna mótmæltu samningnum og jafnvel sauðurinn Vigdís þurfti að hugsa sig um.

 

EES-samningurinn var skilgetið afkvæmi torgreindu peningastefnunnar, sem gerir ráð fyrir að efnahagsleg örlög almennings séu leiksoppur valda-aðalsins. Að mínu mati er þó frjálst flæði vöru alvarlegri ógn við efnahagslegt sjálfstæði þjóða en frjálst flæði fjármagns.

 

Það sem leiðir af frjálsu flæði vöru, er að innlend framleiðsla í veikburða hagkerfum koðnar niður í samkeppni við erlend stórfyrirtæki. Engir geta staðist yfirburða hæfni Þýðskalands til að framleiða gæðavöru á samkeppnishæfu verði. Að auki hafa framleiðendur í Þýðskalandi stóran heimamarkað, þannig að fyrirfram var vitað að jaðarsvæði EES myndu visna.

 

Hagsveiflur á EES-svæðinu bitna því harðast á þeim löndum sem orðið hafa einhæfninni af bráð. Grikkland er skýrt dæmi þessa hagfræðilega náttúrulögmáls. Eini möguleiki Grikkland í núverandi stöðu er að afskrifa allar erlendar skuldir. Það er ekki hægt að gera nema taka upp eigin gjaldmiðil, sem ekki virðir skuldbindingar í Evrum. Þetta er auðvitað það sem einnig þarf að gera á Íslandi, til að losna við Krónubréfa-hengjuna.

 

Til að innlendur gjaldmiðill fái staðist verður hann að lúta fastgengi, sem einungis er hægt að ná með reglu-bundinni peningastefnu, undir stjórn myntráðs. Nákvæmlega sama úrlausn gildir fyrir bæði Grikkland og Ísland. Þótt efnahagsvandi þessara landa birtist með nokkuð mismunandi móti er lausnin nákvæmlega sú sama fyrir báðar þjóðirnar.

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 31.5.2012 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband