Eftiráskýringar og túlkanir um Icesave

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar vandaðan pistil í Smuguna um niðurstöður EFTA dómstólsins í Icesave og er ég sammála henni í mörgu. Ég vil þó setja fram vangaveltur um ályktanir sem ég er ekki sammála. Í kjölfar hrunsins skrifaði ég ágætan (eða alla vega þokkalegan)  pistil sem birtur var í norskum fjölmiðli þar sem ég gagnrýndi bæði íslenskt samfélag og hegðun stórveldanna í kjölfar hrunsins. Ég hélt því meðal annars fram að íslenskir dómstólar væru ónýtir eftir áralangar klíkuráðningar sjálfstæðisflokksins. Það er mjög áhugavert að skoða tölfræði um niðurstöður dómsmála á Íslandi þar sem einstaklingar takast á við ríkisvaldið og verða jafnan undir. Ef menn hafa burði til þess að fara með mál fyrir alþjóðadómstóla þá er niðurstöðu hæstaréttar oftast ef ekki alltaf snúið við. Við Íslendingar eru orðin svo samdauna þessu ástandi að við erum farin að láta það stjórna hugarfari okkar. Við lítum á það sem gefið að við getum ekki treyst dómstólum eða þá altjent að við getum helst treyst því að sá minni máttar verði jafnan undir í viðureign sinni við ríkisvaldið.

Þóra Kristín segir um dómsniðurstöðu Efta dómstólsins: „Það breytir þó ekki því að þótt Íslendingum þætti málstaðurinn góður, voru allir tvístígandi fram að dómsuppkvaðningu, dómurinn hefði getað fallið á hvorn veginn sem er.“

Ég spyr því er það svo augljóst að dómurinn hafi getað fallið á hvorn veginn sem er. Á það ekki að fara eftir því hvað mælt er fyrir um í lögum og svo hvernig málsatvikum er háttað á hvern hátt mál fer. Ég hef alltaf haldið því fram að sterkar líkur væru á því að þetta mál ynnist einfaldlega vegna þess að ég kynnti mér texta ESB tilskipunarinnar, gögn málsins og rök í málinu sem sett voru fram af sérfræðingum sem ekki voru á mála hjá aðilum málsins.

Það eru þó ekki líkurnar á sigri sem hafa valdið því að ég tók einarða stöðu með því að við færum dómstólaleiðina. Það er ekki sæmandi að menn sitji á leynifundum í bakherbergjum og geri pólitíska samninga um svo flókið lögfræðilegt mál til þess að komast hjá því að horfast í augu við gallaða Evrópulöggjöf. Viljinn til þess að sniðganga dómstóla í þessu máli og láta undan geðþótta þeirra sem hugsa eingöngu um hagsmuni fjármálakerfis var árás á samfélag mannúðar og réttlætis.

Steingrímur Sigfússon bendir á að titringur sé í Brussel vegna niðurstöðu EFTA dómstólsins. Það sem vekur athygli mína er að þeir stjórnmálamenn, Steingrímur og Össur fremstir í flokki, sem vildu fara í samninga og færa ábyrgðina af Landsbankanum yfir á ríkisjóð tala nú um fullnaðarsigur Íslendinga. Þeir vilja gera þessa niðurstöðu að sínum sigri og vara Íslendinga við að vera súrir. Nú eiga allir að vera glaðir.

Persónulega finnst mér þetta vera mikil léttúð. Icesave snérist aldrei í mínum huga um Íslendinga gegn Hollendingum og Bretum. Málið snérist um réttlæti. Að það yrði ekki liðið í nútímasamfélagi sem vill kenna sig við siðmenningu að tapið af viðskiptum fjárglæframanna yrði fært yfir á skattgreiðendur.

Það hefur legið lengi fyrir að Íslenska þjóðin tapaði og tapaði stórt vegna viðskipta Björgólfsfeðga í gegnum Landsbankann. Það tap birtist í lágu gengi krónunnar, í gríðarlegum vandamálum í velferða- og menntakerfinu vegna þess að miklir fjármunir fara í að greiða erlendar skuldir. Það birtist líka í verðtryggingunni sem fjármálakerfið hefur of mikla hagsmuni af til þess að hægt sé að leiðrétta þá óværu.

Nei niðurstaða dómsins er fyrst og fremst sigur réttlætisins og skilaboð til Brussels um að menn þar á bæ þurfi að fara hugsa málin á enda þegar samin er löggjöf sem nær yfir landamæri.

Það er ekki augljóst að á litlu landi eins og Íslandi eigi að krefjast þess að skattgreiðendurnir beri ábyrgð á velferð skattgreiðenda í öðrum löndum ef íslenskir fjárglæframenn taka upp á því að eiga þar viðskipti og svindla á viðskiptavinunum.

Niðurstaða EFTA dómstólsins er alls ekki sigur fyrir íslenska stjórnmálamenn. Hún gefur til kynna að í öllu ferlinu frá einkavæðingu ríkisbankanna, frá því að Valgerður Sverrisdóttir heimilaði stofnun Icesave í Bretlandi og Hollandi án þess að krefjast þess að stofnuð væri dótturfélög um viðskiptin í viðkomandi löndum, frá því að nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins klúðraði að innleiða undanþágu sem hefði firrt ábyrgð tryggingasjóðsins á viðskiptum lögaðila, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn gaf út viljayfirlýsingar án þess að hafa til þess heimild, frá því að Svavar fór í víking til Bretlands og nennti ekki að standi í þessu samningsþrasi, frá því að Jóhanna og Steingrímur ætluðu að narra þingmenn til þess að undirrita Svavarssamninginn óséðan og allt til þess að þjóðin sagði NEI hafa íslenskir stjórnmálamenn sýnt vanhæfni.

Ég er helst þeirra skoðunar að ýmsar tilskipanir séu innleiddar illa lesnar og að menn hugsi ekki um fyrirsjáanlegar afleiðingar af stjórnsýsluathöfnum. Öllum þingmönnum virðist langa til þess að verða ráðherrar og þeim virðist vera nokkuð sama hvort þeir hafi það sem til þarf í djobbið. Það er í raun kvíðvænlegt að horfa upp á hvað íslenskir stjórnmálamenn voru tilbúnir að ganga langt til þess að sópa klúðri við lagasetningu, innleiðingu tilskipana og stjórnsýsluákvarðanna undir teppið.


mbl.is Margir Bretar ánægðir með dóminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Már

Flott samantekt

Friðrik Már , 29.1.2013 kl. 13:05

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mér hefur þótt þessi dómsniðurstaða augljós í fjögur ár, eftir að að ég byrjaði að lesa lögin sem um þetta gilda og skrifa pistla á grundvelli þeirra haustið 2008.

Reyndar er dómurinn mjög svipaður og ef ég hefði skrifað hann sjálfur.

Það eina sem kom mér á óvart var hversu mikið samræmi er milli dómsins annars vegar, og hinsvegara laga og reglna sem hann er dæmdur eftir. Ég var alveg viðbúinn því að dómurinn færi ekki eftir lögum, en sem betur fer gerði hann það.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2013 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband