Barn á eigin forsendum

það er mikið bloggað núna um litlu stúlkuna á Austurvelli í dag. Mörgum finnst að það geti verið skaðlegt fyrir barnið að taka þátt með þessum hætti í mótmælum.

Börn eru ekki litlir fullorðnir. Þau eru börn á sínum eigin forsendum. Þau eru óþroskuð og við þurfum að vernda þau oft aðallega gegn sjálfum sér.

Ég hef enga trú á því að þessi uppákoma skaði stelpuna. Þetta er bara atvik sem sennilega ristir ekki djúpt. Ég stóð skammt frá telpunni á Austurvelli og gat ekki merkt annað en að henni liði ágætlega. Henni tókst vel upp og ég óska henni til hamingju með það.

Höfuðskylda okkar er að kenna börnunum okkar að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og virða sannleikann.

Mörg börn horfa nú fram á erfiða tíma vegna þess að vanmáttug yfirvöld eru að draga þúsundir fjölskyldur þessa lands í skítinn. Viðurværi og heimili eru tekin af fólki og það sent út að betla sér mat hjá góðgerðarstofnunum. Sjálfsvirðingin er tekin af fólki og börnum.

Ég segi því kennum börnunum okkar að standa með sjálfum sér og fjölskyldum sínum. Segjum þeim að við eru ekki ábyrg fyrir ástandinu heldur valdhafar. Þau skynja ástandið á eigin skinni. Ástandinu verður ekki leynt fyrir börnum því þrátt fyrir það að þau séu á fyrstu skrefunum í þroskaferli sínum geta þau dregið ályktanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Stúlkan var skýr og alveg með það á hreinu að þetta var ekki henni eða okkar að kenna heldur valdhöfum! Sem er alveg hárrétt hjá henni.

Vilborg Traustadóttir, 3.1.2009 kl. 23:34

2 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Ég tel þetta mjög hættulega braut og eins líklegt að barnið hljóti skaða
af þessu. Sú hefur reynslan verið annarsstaðar þar sem börn hafa verið
notuð í pólítískum aðgerðum. Slík mál hafa komið til kasta stofnana
innan S.Þ. sem sérstakt vandamál í fleiri löndum undanfarin ár.
Bendi á þessar greinar um málið:

Hvar stöðvar barnaþulan Dimmblá?

Kommúnískum áróðri troðið í 8 ára barn

Ástþór Magnússon Wium, 3.1.2009 kl. 23:35

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ástþór þú virðist ekki hafa hlustað á barnið ef þú heyrið kommúnískan áróður. Ég heyrði ekkert slíkt.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:39

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég var staddur á Austurvelli í dag.Litla stúlkan Dimmblá var ákveðinn og til mikillar fyrirmyndar.Hún var skýrmælt og kom efninu vel til skila.Hún var fyrst og síðast að tala um mannréttindi,það er börnum holt, ekki síður en  fullorðnum að kunna að skilgreina rétt frá röngu.

Kristján Pétursson, 3.1.2009 kl. 23:47

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Svona smá sjónarhorn á þetta sem mér finnst ekki koma fram. Ég reikna með að þessi stúlka hafi sem beturfer ekki fundið mikið fyrir kreppunni. Gleymdi mér í dag ætlaði að hlutst á þessa stúlku því mér ofbauð það að 8 ára barn hefði skoðun á því hverjum þetta væri að kenna.

Mér finnst það alveg spurnig hvort að 8 ára barn á að hafa skoðun á því hverjum er um að kenna. Hún veit varla hvað kreppa er. Og maður veltir fyrir sér af hverju hún af öllum 8 ára börnum er þarna. Held að hún hafi verið beðin um það eða "ráðin" í þetta. Alveg eins og manni finnst skrýtið þegar að mótmælendur sem aldrei hafa kosið, borga skatta og eru í skólum sér að kostanðar litlu eru fremst í baráttu fyrir þvi að stjórnvöld fari frá. Þau hafa ekki grænan grun um hvað þau vilja í staðinn.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2009 kl. 23:59

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við viljum ala upp kynslóðir skynsamra og ábyrga einstaklinga, ekki satt? Eitt af þessum fallegu markmiðum, sem skólum landsins er ætlað, er að undirbúa nemendur sína undir að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Þetta eru hins vegar aðeins falleg orð á blaði. Sú pólitíska svæfing sem hefur verið ástunduð á undanförnum misserum gengur svo vel að sumt ungt fólk álítur það skammarlegt að vera pólitískur. Margir og t.d. allir menntamálaráðherrar sem hafa komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins telja það „skaðlegt“ að pólitík sé rædd í skólum enda eru pólitískar hreyfingar nemenda bannaðar í langflestum ef ekki öllum íslenskum framhaldsskólum.

Atburðir síðustu mánaða hafa kallað á pólitíska vakningu í landinu. Mér finnst það afar jákvætt og vona að þessi unga stúlka veki enn fleiri. Það að hún hefur vitsmuni og kjark til að mynda sér skoðun ætti að vera öllum hvatning til að gera slíkt hið saman. Skoðanir á samfélagsmálum/Pólitík er ekki klám sem þarf að vernda börn fyrir. Börn með snilligáfu hafa komið fram fyrir margar milljónir manna í aldaraðir til að spila á hljóðfæri, dansa, syngja o.s.frv. Þessi stúlka kom fram fyrir þúsundir og hélt ræðu. Ég óska henni, foreldrum hennar og öðrum ættingum til hamingju með þennan gimstein. Þessi stúlka hefur gefið mér tilefni til að gleðjast því hún eykur svo sannalega við bjartsýni mína í sambandi við framtíð þessa lands

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.1.2009 kl. 00:55

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þetta tek ég heilshugar undir. Mér finnst áhyggjuefni hvernig fólk rakkar framlag hennar niður sem "politically incorrect" af því að hún er barn. Ef þetta tiltæki hentar hennar karakter á það fullan rétt á sér.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:03

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlega! Hefur fólk ekki snilligáfu á mismunandi sviðum? Þessi stúlka er kannski snillingur á fleiri en þessu eina sviði og vön að koma fram þess vegna, ég veit það ekki. Hins vegar er ljóst að hún er afar bráðþroska ræðuskörungur og á fullan rétt á að fá að njóta sín

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:12

9 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Jakobína, ég er algjörlega sammála þér. Það munu öll börn á einhvern hátt finna fyrir kreppunni, annað hvort að þau finni fyrir henni á heimilunum eða heyri um hana, það að útskýra fyrir þeim hlutina dregur úr kvíða sem þau finna fyrir orðið í miklum mæli. Börn ætti að þjálfa til að hugsa sjálfstætt, þau hafa ekki sama orðaforða og hugtaka skilning og fullorðnir en að halda því fram að það sé hægt að vernda þau fyrir kreppunni er út í hött. Það er lenska í Íslensku samfélagi að láta eins og börnin hafi aldrei neitt til málanna að leggja.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:43

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sammála því

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:54

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jakobína og gleðilegt nýtt ár.

Enn og aftur, kjarni málsins.  Áhyggjur Ástþórs og Magnúsar er eitthvað sem þarf að svara af skilning og með rökum.  Það hafið þið gert.  

Allir foreldra vita, að við getum gefið börnum okkar orð og orðalag en við mótum ekki þeirra sannfæringu.  Auðvita hefur hún Dimmblá skynjað óróan í kringum sig en hennar dýpri sannfæring kom frá hennar innsta sjálfi.  

Grein greinanna um siðleysi þess að Samfylkingin og ESB vilji gera hana og hennar jafnaldra ábyrga og borgunarmanneskju fyrir skuldir einkaaðila, henni alls ókunnugri, er ekki síðri en Mannréttindaákvæði Bandarísku stjórnarskrárinnar, sem kveður á um rétt einstaklings til lífs og jöfnuðar.  Í dag talar Samfylkingin og leppar ESB um hinn pólitíska vilja ESB til að Dimmblá axls ábyrgð á skuldum Björgólfs en  lögin krefjast þess ekki.  Ef fleiri börn segja einfaldlega að þau vilji fá tækifæri til lífs og lífskilyrða sem foreldra þeirra fengu, þá mun kanski koma sá dagur í febrúar eða mars að enginn styðji Ingibjörgu, Jóhönnu eða Össur  í þeirra helstefnu gagnvart börnum okkar.

Allir Íslendingar hafa rétt til að tjá sig.  Hvort sem það eru áhyggjufullar Ömmur eða börnin sem erfa eiga að landið.  Þetta er ekki pólitík heldur sá grundvallarréttur sem öllum manneskjum er gefinn, RÉTTURINN TIL LÍFSINS.

Allir ismar sem vilja eyða þeim rétti eru glæpur við Guð og Manninn, trúna og vonina og þeir sem berjast ekki gegn þeim eru ekkert annað en landeyður og aumingjar.  Dimmblá og börnin mín og öll önnur börn, hvort sem þau eru Íslensk eða útlensk, eiga þessi grunnréttindi.

Þessvegna Jakobína, má grein þín í Mogganum aldrei gleymast því betur verða hlutirnir ekki orðaðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2009 kl. 02:35

12 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill hjá þér

Hólmdís Hjartardóttir, 4.1.2009 kl. 04:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband