Frændsemis- og vinagreiðar

Tímabundnar ráðningar í stjórnarráði skipta tugum. Valdhafar hafa leikið þann leik að ráða vini sína tímabundið í störf til þess að komast hjá því að auglýsa þau. Það er þó ekki algilt að ekki þurfi að auglýsa í störf þó ráðið sé í þau tímabundið. Það er heldur ekki algilt að leyfilegt sé að ráða tímabundið í störf hjá hinu opinbera því það má einungis gera að uppfylltum skilyrðum.

Hvers vegna er forsætisráðherra að ráða menn eða konur til starfa á vafasömum forsendum? Er honum ekki annt um að uppfylla lagaskilyrði við störf sín. Hvers vegna eru störf ekki auglýst? Er honum ekki annt um að fá hæfasta fólkið til starfa?

Svarið er einfaldlega nei. Það eru annarlegar ástæður fyrir þessum framgangsmáta ráðherra við mannaráðningar. Stöður í stjórnarráðinu eru bitlingar fyrir góðvini og ættingja valdhafanna. Stundum þvælast lögin fyrir og þá eru þau hunsuð af ráðamönnum sem líta svo á að lögin eigi að þjóna þeim en ekki almenningi.

Fyrir almenning þýðir þetta að hæfasta fólkið er ekki ráðið til starfa en það hefur skilað sér í uppsafnaðri vanhæfni í stjórnarráðinu. Þegar erfiðir tímar, á borð við þá sem við erum að upplifa núna, mæta þjóðinni er þetta fólk ekki í stakk búið til þess að takast á við erfið viðfangsefni.

Þetta fólk er ekki hæfasta fólkið og það hefur ekki færni til þess að sinna störfum sínum. Þetta hefur skelfilegar afleiðingar fyrir almenning sem nú horfir upp á vanmátt yfirvalda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband