Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins hefur tekið sér það vald að skilgreina hvað sé hæfilegt og ekki hæfilegt í málflutningi fræðimanna. Ekki verður annað séð af skrifum hans en að hann telji sig bæran til þess að stýra orðræðunni um efnahagsvanda þjóðarinnar.
Helgi Magnússon gagnrýnir Þórólf Matthíasson vegna fyrirsagnar sem blaðamaður setti á viðtal við Þórólf og segir: Um það nefndi ég eitt dæmi þegar Þórólfur Matthíasson lét hafa eftir sér í fimm dálka frétt í Morgunblaðinu að ástandið á Íslandi væri verra en þjóðargjaldþrot.
Hvort sem Þórólfur eða blaðamaðurinn er höfundur þessa orðalags vil ég um það segja:
Ástandið á Íslandi er verra en þjóðargjaldþrot. Ég rökstyð þetta með því að hrun hefur orðið á öllum sviðum samfélagsins hvort sem Helgi vill horfast í augu við það eða ekki. Hugarfar græðgi og siðleysis hefur sett mark sitt á viðskiptalífið og ríkir nú skömm í samfélaginu á tilteknum einstaklingum og hópum. Leynimakk og áróður hefur einkennt viðskiptalíf og stjórnmál og er málflutningur Helga gott dæmi um það. Fórnarlömb erfiðleikanna eru fyrst og fremst fólk sem ekki tók áhættu og hafði ekki völd til þess að hafa áhrif á framþróunina.
Helgi segir einnig: Ef við eigum að geta vænst árangurs við endurreisn þjóðfélagsins þurfa áhrifaaðilar að taka höndum saman um vönduð vinnubrögð og yfirvegun í umræðu og meðferð staðreynda
Hvað eru í huga Helga vönduð vinnubrögð og yfirvegun í umræðu og meðferð staðreynda.
Gengdarlaus áróður og meðvituð og ómeðvituð tilraun til þess að móta orðræðuna hefur verið viðhöfð síðan í haust.
Ástandið í dag er afleiðing af margra ára óstjórn, vanþróuðu lagaumhverfi, leppstjórnun auðvaldsins og sívaxandi misskiptingar lífsgæða á Íslandi. Gjarnan er þó talað um ástandið sem afleiðingu af hruni bankanna en hrun bankanna er bara einn liður í langri keðju afleiðinga óstjórnar.
Óeðlileg ítök fasteignabraskara, einokunarfyrirtækja og fjármálakefisins í stjórnun þjóðarbúsins í gegn um leppa hefur skapað ástand í landinu sem er verra en þjóðargjaldþrot.
Nú í aðdraganda kosninga berjast öfl í viðskiptalífi hatrammlega fyrir því að koma leppum sínum aftur að við stjórn landsins. Í baráttunni gegn þessum öflum er gríðarlega mikilvægt að málfrelsi og skoðanafrelsi ríki. Það ber vott um gríðarlegan hroka viðskiptalífsins þegar það fer að gefa sér vald til þess að stýra orðræðunni jafnvel meðal fræðimanna.
Andrúmsloft þöggunar" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.