Auðvaldið kúgar

Milton Friedman vildi sjá samfélag sem kennt hefur verið við “corporatism” en margar þýðingar og hugtök hafa verið notað yfir þetta fyrirbæri. Auðvaldshyggja, heimsvaldastefna og einnig vilja sumir kalla þetta ný-frjálshyggju þótt þetta hafi lítið með frelsi að gera nema fyrir valdamikla einstaklinga sem vilja geta hreyft sig frjálst í umhverfi sem hefur vanþróaða löggjöf.

Milton Friedman var aðstoðarmaður, einræðisherrans í Chile, Augusto Pinochet. Þeir innleiddu kerfi sem byggði á auðvaldshyggju, einkavæddu ríkiseignir og brutu niður velferðarkerfið. Örbyrgð beið milljóna landsmanna eftir umbreytinguna. Þeirra sem risu upp og kröfðust réttlátara samfélags biðu pyndingarklefarnir.

Sjálfstæðisflokkurinn heillaðist af kenningum Fríedmans sem felur í sér að ríkið nánast hverfur og landinu er stjórnað í gegn um fyrirtæki sem rétt eins og gráðugar risaeðlur vilja sjúga til sín öll verðmæti en gera almenning að kúguðum öreigum sem þjóna fyrirtækjunum.

Markmið auðhyggjunnar er að koma öllum auðlindum í einkaeigu auðhringa og gefa heimsauðvaldinu færi á því að arðræna þjóðir. Jafnvel þær auðlindir sem felast í mannauði vill auðvaldið sölsa undir sig en vill þó að einstaklingar beri sjálfir kostnað af því að mennta sig.

Einstaklingar í slíku umhverfi eru máttvana. Fyrirtækin eiga stjórnmálamennina sem hanna löggjöfina fyrir auðvaldið. Mikil auðlegð fyrirtækja gerir þeim kleift að verjast lögsóknum auk þess sem dómsvaldið lýtur hugmyndafræði valdhafanna. Hugmyndafræði sem hunsar mannréttindi. Spilling og sóðaskapur fer að þrífast í samfélaginu, klámiðnaður blómstrar og glæpum fjölgar. Hernaðarhyggja er fylgifiskur stjórnarfars af þessu tagi. Sérsveitir lögreglu eru efldar til þess að halda lýðnum í skefjum. Dregið er úr eftirliti með viðskiptum og fjármálum, t.d. fækkað í efnahagsbrotadeildum.

Mikil skuldsetning fyrirtækja er einnig einkenni á stjórnarfari af þessu tagi. Peningar sem berast inn í landið staldra þar ekki við heldur eru lagðir inn á leynireikninga í skattaparadísum. Almenningur er skattpíndur á meðan auðmenn komast hjá því að greiða skatta.

Stjórnarfar af þessu tagi getur læðst aftan að almenningi sem alls ekki vill svona samfélag. Það er nokkuð ljóst að mikill meiri hluti þjóða tapar á svona stjórnarfari. Ríkiseignum, eignum almennings, er komið í eigu s.k. kjölfestufjárfesta sem eru í raun ræningjar sem hreinsa innan úr fyrirtækjum sem þeir komast yfir. Þegar þessi fyrirtæki, hvort sem þau eru bankar, skólar eða heilbrigðisstofnanir hafa verið brotnar niður og skuldsettar geta þær ekki lengur þjónað almenningi í landinu. Það hefur einnig sýnt sig að þar sem t.d. skólar hafa verið einkavæddir í stórum stíl hafa eldri kennarar verið reknir og laun kennara verið lækkuð niður í lágmark.

Auðvaldshyggjan er því hyggja sem þjónar einungis fámennum hluta samfélagsins og til þess að hún nái ítökum þarf að beita blekkingum eða ofbeldi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög áhugaverð samantekt hjá þér. Margt hljómar kunnuglega.

Fáir einstaklingar sem þora að skrifa um þetta hér á landi, nema undir rós og er þá kallað alls kyns fínum nöfnum s.s. "undanskot" og "skattaskjól".

Hluti af því hvað við íslendingar erum seinir er að við eigum erfitt með að trúa því að einstaklingar í háum stöðum eða þeir sem komast í álnir - geti verið með skítlegt eðli "þjófsins".

"Þjófur" sem er í yfirburða aðstöðu til að stela fjámunum vegna aðstöðu sinnar beitir því í þessu samhengi raunverulegri kúgun til að hylma yfir glæp sinn eða til að fyrirbyggja viðbrögð við honum (svo að það komist ekki upp).

Það má lesa mjög áhugaverða samantekt í Tíund Ríkisskattstjóra um efnahagsbrotamál, en ljóst má vera að rannsóknarábyrgð RSK er rík í þessum málum. Segir þar m.a. í mars heftinu:

"Auk umsvifa í skjóli bankamúrsins hefur á síðustu árum bæst við leyndin um eignir skráðar í aflandsríkjum. Virðast íslenskir bankar ekki hafa dregið af sér við þá iðju og sveipað  félög íslendinga þar leynd um eignarhald. Þótt það fyrirbrigði sé vissulega ekki séríslensk uppgötvun er þó ljóst að ýmsir íslendingar hafa þar ekki verið aftarlega á merinni. Greining ríkisskattstjóra á eignarhaldi sýnir að leyndin um eignarhald og eigendur félaga skráðra í aflandsríkjum er vandamál sem brýnt er að taka á af festu. Meira að segja hefur sú skaðlega starfsemi sem þar er rekin fengið hið hlýlega heiti, skattaskjól. Í því orðfæri felst á hinn bóginn grímulaus afstaða, skýli fyrir sköttum, þ.e. vilji til að komast hjá greiðslu skatta með því að dylja eignarhald fyrir yfirvöldum, meðeigendum og almenningi öllum".

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 12:51

2 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæl Jakobína, mig langar aðeins að taka upp hanskann fyrir frjálshyggjuna.  Í mínum huga snýst hún í meginatriðum um einföld og heilbrigð viðhorf. Þ.e. að best sé að fólk hafi frelsi til, viðskipta, orða og athafna án afskipta ríkisvaldsins svo lengi sem  þeir gangi ekki á sama rétt annarra. Allir frjálshyggjumenn nema þeir sem eru mjög bókstafstrúar vilji að ríkið tryggi öllum þegnum grunnþjónustu á sviði menntunar, heilsugæslu og til að komast í gegn um erfiðleika svo sem veikindi og atvinnuleysi. Þannig er t.d. hægt að finna mikla samsvörun á milli frjálshyggju og frjálslyndrar jafnaðarstefnu sem t.d. gamli alþýðuflokkurinn stóð fyrir og verkamannaflokkur Blairs í Bretlandi.

Ég held að það þurfi ekki miklar sagnfræðirannsóknir til þess að komast að því að það skapar meiri hagsæld að auðlindir séu í eigu einstaklinga en ríkisins. Það að leyfa auðmönnun að leika lausum hala, arðræna fólk, koma sér undan því að greiða skatta og horfa í gegn um fingur sér með spillingu er ekki frjálshyggja.  Það er alveg á hreinu.  Slíkt er miklu nær stjórnmálastefnum sem grundvallast á miklu ríkisvaldi og stýringu ríkisins á öllum sviðum mannlífsins.

Ég tek eftir einu sem  þú segir: „Mikil auðlegð fyrirtækja gerir þeim kleift að verjast lögsóknum auk þess sem dómsvaldið lýtur hugmyndafræði valdhafanna.“.  Hvernig kemur þú því heim og saman að þetta eigi við Sjálfstæðisflokksinn í ljósi gagnrýni á hann varðandi Baugsmálið svonefnda t.d.?  Má ekki einmitt finna mörg dæmi um að forystumenn sjálfstæðisflokksins hafi gagnrýnt óhóf og of mikil völd stórra einkafyrirtækja á Íslandi?

En hefur Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmt frjálshyggju undanfarin 18 ár eða svo sem þeir hafa verið við stjórn ásamt framsóknarflokki og jafnaðarmönnum?    Kannski að sumu leyti en ekki öllu, dæmi:
·        Er það frjálshyggja að stórauka skatta sem  hlutfall af þjóðarframleiðslu?·        Er það frjálshyggja að stórauka framlög til heilbrigðis- og menntamála?·        Er það frjálshyggja að sölsa undir ríkið jarðir bænda eins og sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um?·        Er það frjálshyggja að stórauka lög og reglugerðir eins og gert hefur verið undanfarin ár?·        Er það frjálshyggja að láta ríkið gangast í ábyrgðir fyrir einkafyrirtæki þegar eigendur þeirra kunna sér ekki hóf í sukki og sjálfsumgleði?

Þorsteinn Sverrisson, 29.3.2009 kl. 15:55

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Allt sem sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir undanfarin 18 ár hefur fært gæðin frá almenningi og í hendur fárra. Kerfið sem þeir byggðu upp tryggði það.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.3.2009 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband