2009-04-22
Tvær þjóðir í einu landi
Á Íslandi búa tvær þjóðir. Annars vegar litla klíkusamfélagið sem hefur arðrænt þjóðina og hinsvegar hinir arðrændu sem horfa fram á neyð ef ekki er gripið til rótækra ráðstafana.
Við vöknuðum upp við vondan draum. Kosningaloforð Sjálfstæðisflokks um traust efnahagslíf og loforð Samfylkingar um jöfnuð snérust í andhverfu sína. Í viðskilnaði þeirra var efnahagslíf í rúst og ójöfnuður á Íslandi sá mesti í hinum vestræna heimi.
Ég hitti ríkan mann í gær og spurði hvað hann ætlaði að kjósa. Ég þarf að verja mitt" sagði hann. Þannig hugsar sá fámenni hópur sem lifir í allsnægtum. Þetta er það sem er honum efst í huga núna. Þeir flokkar sem hafa verið við völd síðustu átján ár hafa þegið rausnarlegar gjafir frá þeim sem kallaðir hafa verið ýmsum nöfnum, útrásarvíkingar, kvótagreifar, auðmenn eða kjölfestufjárfestar. Valdhafarnir sem áttu að þjóna almenningi gengu erinda auðvaldsins. Þeir sköpuðu lagaumhverfi sem gerðu fámennum hópi manna kleift að ræna almenning, komu upp skilvirkri vanhæfni í eftirlitsstofnunum og spilltu dómsvaldinu með klíkuráðningum. Framkoma valdhafanna var sýndarleikur og tryggð þeirra við almenning engin. Leynimakk, mútuþægni og blekkingar varð hið viðtekna í stjórnarráðinu.
Það er krafa Frjálslynda flokksins að þjóðin verði leyst undan oki spilltra stjórnmálamanna. Erfiðleikarnir sem framundan eru krefjast nýrrar hugsunar. Tryggja þarf eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, t.d. fiskimiðum, fallvötnum, jarðvarma, vatnsréttindum og að arðsemi vegna nýtingu auðlinda skili sér til þjóðarinnar. Ofríki, forræðishyggja, höft og einokun hafa drepið niður frumkvæði, nýsköpun, frumkvöðlastarf og nýliðun í atvinnugreinum. Bætt lagaumhverfi, afnám hafta, aukin færni í eftirlitsstofnunum og sanngjörn verðlagning, t.d. á orku til bænda og smáiðnaðar byggir undir frjálsa atvinnusköpun í byggðum landsins og eykur atvinnu í þjónustugreinum á höfuðborgarsvæðinu. Kjósum nýtt og óspillt fólk sem vill vinna fyrir almenning á þing. Gerum nýja stjórnarskrá sem tryggir aðhald í stjórnmálum og mannréttindi borgaranna.
Gríðarlegur niðurskurður hjá hinu opinbera blasir við. Það verður að tryggja að þeir sem minna mega sín, þ.e. börn, aldraðir og öryrkjar líði ekki fyrir niðurskurðinn. Nýjar aðstæður krefjast þess að við tökum afstöðu til hvers konar samfélagi við viljum búa í og við verðum að vera virkir þátttakendur í mótun nýs samfélags. Viðskilnaður fyrri Ríkisstjórnar er þannig að það eru ekki til miklir fjármunir til uppbyggingar. Þess vegna verðum við að hugsa hvernig getum við bætt mannlífið án mikils tilkostnaðar og hvernig getum við byggt upp atvinnulífið án þess að steypa börnum okkar í óviðráðanlegar skuldir.
Hagstjórn á Íslandi þarf að miða að því að gera samfélagið sjálfbært um flesta hluti vegna þess að innflutningur eykur erlendar skuldir þjóðarbúsins sem aftur eykur vaxtaáþján og skuldabyrði til frambúðar. Þetta vilja þeir sem lifa í vellystingum ekki skilja og þetta vilja þeir sem hafa hagnast af innflutningi ekki sjá að verði að veruleika vegna þess að hagsmunir þeirra eru ekki með þjóðinni eða börnum okkar. Frjálslyndi flokkurinn er flokkur fólksins.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
Birt í Fréttablaðinu 23. apríl 2009
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2010 kl. 15:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.