Vitnisburður um aðdraganda bankahruns

Fann þessa ótrúlega skemmtilegu færslu á vef Kaupþings:

09.05.2008

Efnahagshorfur að vori: Hagspá 2008-2010

Trúverðugleiki er ekki helsta vandamál Seðlabankans
Núverandi verðbólguskot er vitnisburður um kerfisgalla í leiðni peningamálastefnunnar en ekki skort á trúverðugleika Seðlabankans. Of óvægin beiting stýrivaxta ofan í fjármálakreppu skapar mikla áhættu varðandi fjármálastöðugleika.
Verðbólguskot – með gengisfalli og kostnaðarhækkunum
Verðbólgan mun ná hámarki í 13,5% á 3F 2008 og mælast yfir 12% það sem eftir lifir árs. Á næsta ári dregur snöggt úr verðbólguhraða og verðbólgumarkmiðið næst á síðari helmingi ársins.
Bratt lækkunarferli árið 2009
Við teljum að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið og framundan er afar bratt lækkunarferli sem hefst í nóvember. Í lok 2009 verða stýrivextir 7,75% og 6,75% í árslok 2010.
Krónan brothætt – viðsnúningur tekur tíma

Gengisvísitalan mun ná hámarki á þessum fjórðungi, styrkjast þegar líður á 2008 og enda árið í 142 stigum. Hér skipta fjármögnunarskilyrði bankanna og þróun á gjaldmiðlaskiptamarkaði höfuðmáli. Myndarleg aukning gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans eða jákvæðar fréttir af fjármögnun bankanna gætu flýtt bata á gjaldeyrisskiptamarkaði.
Skuldabréf: Tækifæri í lengri flokkum
Þótt raunstýrivextir verði á uppleið á seinni hluta ársins munu nafnstýrivextir fara lækkandi ef stýrivaxtaspá Greiningardeildar gengur eftir. Horfurnar fyrir lengri óverðtryggðu flokkana eru því góðar, þar sem krafa þeirra ætti að fara lækkandi. Einnig eru horfur á að ávöxtun lengri íbúðabréfa verði góð en þróun ávöxtunarkröfu og ávöxtun bréfanna mun ráðast að miklu leyti af verðbólguþróun næstu mánuði.
Hagspá Greiningardeildar: Samdráttur framundan
Framundan er samdráttur í hagkerfinu sem mun vara fram á mitt árið 2009. Gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 2,8% í ár og um 7,5% á því næsta – sem verður þá mesti samdráttur í einkaneyslu frá árinu 1975. Útlit er fyrir að vöruskiptahallinn snúist í afgang á næstu árum og áframhaldandi bata á viðskiptahallanum.

Frétt í apríl 2009 á Mbl: Rannsóknasetur verslunarinnar á Bifröst segir greinilegt á samdrætti í smásöluverslun að einkaneysla dragist hratt saman. Samdrátturinn sé einkum merkjanlegur í sérvöruverslun en í húsgagnaverslun og raftækjaverslun hafi orðið um helmingssamdráttur á milli ára í marsmánuði.

Kannski væri vit í því að fá Völvu ársins til þess að gera næstu efnahagsspá Kaupþings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Djók maímánaðar

Arinbjörn Kúld, 3.5.2009 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband