Heimilin vanrækt fyrir ESB umræðuna

Góð mótmæli og ekki svo fámenn miðað við upphaf mótmæla í haust.

Ekki veitir af aðhaldi fyrir valdhafa þegar þeir vanrækja skyldur sínar við almenning.

Birti hér grein sem birtist í Smugunni fyrir stuttu:

Fólk kvartar undan skotgrafahernaði, lýðsskrumi og yfirborðskenndum umræðum um kosti og galla við inngöngu í ESB. Í kjölfar bankahrunsins í haust sparkaði Samfylkingin af stað ESB umræðunni en ég bíð enn eftir haldbærum rökum fyrir því hvers vegna þessi umræða er tímabær núna. Erfitt er að koma auga á hvernig aðild að ESB geti orðið þjóðarbúinu til heilla við núverandi aðstæður.

Óstjórn í efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarna áratugi hefur nú birst okkur í hruni fjármálakerfisins, ónýtri krónu, óðaverðbólgu, atvinnuleysi, hruni atvinnuveganna, gjaldeyrisþurrð, okurvöxtum, ofurskuldum, háu vöruverði, vantrausti erlendis og háum sköttum svo eitthvað sé týnt til. Sérhagsmunagæsla spilltra valdhafa, langvarandi þöggun og gengdarlaus áróðursmaskína hefur skilið þjóðina eftir ringlaða og kvíðafulla.

Notfæra sér bágindin

ESB umræðan nú er skýrt dæmi um það þegar hagsmunahópar notfæra sér bágindi fólks til þess að kýla inn breytingum sem þeir hafa ekki náð fram áður. Þannig skynja ég þessa umræðu en ég skynja hana einnig sem yfirbreiðslu yfir vanhæfni ráðþrota valdhafa í ástandi sem þeir hafa ráðið illa við.
Skilyrði og forsendur til aðildarsamninga hafa aldrei verið eins slæm og nú. Í aðildarviðræðum munum við vera í stöðu fátækrar þjóðar með sögu um afleitt stjórnarfar.

Þegar við spyrjum okkur hvort aðild að ESB sé okkur hagstæð verðum við að kanna eðli þeirra vandamála sem þjóðarbúið stríðir við og spyrja okkur hvernig þessi vandamál verði leyst.
Evrópusinnar hafa haldið því fram að það auki traust á Íslandi ef Íslendingar gangi inn í stærra efnahagsbandalag. Þessu er ég ósammála. Ef við viljum öðlast traust og virðingu annarra þjóða þurfum við að styrkja okkur innan frá en ekki að ganga með betlistaf til Evrópusambandsins. Þá hafa margir sakað Evrópuandstæðinga um einangrunarstefnu en erfitt er að koma auga á að Ísland hafi verið einangrað utan Evrópusambandsins.

Víðar viðskipti en við Evrópu

Satt að segja er bankahrunið afleiðing þess að Ísland var of opið miðað við það frumstæða stjórnarfar sem hefur ríkt í landinu. Sem þjóð þurfum við að hafa velferð okkar í huga þegar við ákveðum hversu opið við viljum að þjóðfélagið sé og gera það út frá hagsmunum heildarinnar en ekki hagsmunum fárra. Ekki má gleyma að Ísland er í viðskiptum við fjölda þjóða utan Evrópu og möguleikar á samskiptum við aðrar þjóðir fjölþættir.

Alþjóðavæðingin hefur fyrst og fremst þjónað alþjóðafyrirtækjum sem hafa náð að leggja undir sig hagfræðilega rentu af auðlindum og dregið úr velmegun launafólks. Ríki sem standa höllum fæti við inngöngu í Evrópusambandið hafa átt í erfiðleikum með að sporna við yfirgangi alþjóðafyrirtækja eins og dæmi í Austurevrópu sýna.

Vandi Íslands er margþættur og langt mál að tíunda öll þau vandamál sem stjórnvöld þurfa að leysa með einhverjum hætti. Hætta á gjaldeyrisþurrð er eitt þeirra. Vextir af erlendum lánum þjóðarbúsins nema yfir 130 milljörðum á ári og þarf jákvæður viðskiptajöfnuður að standa undir greiðslu þessara vaxta. Það er grundvallaratriði að efla framleiðslu við þessar aðstæður. Það verður að byggja undir krónuna með því að auka verðmætasköpun í landinu. Athygli manna beinist nú mjög að vaxtastiginu og Jöklabréfum sem skapa gríðarlegan þrýsting á krónuna. Þetta er vandamál sem þarf takast á við en það má þó ekki horfa framhjá mikilvægi þess að efla innlenda framleiðslu og færa rentuna af auðlindunum til þjóðarinnar.

Sníkjupeningar án verðmæta

Menn í valdastöðum hafa hvað eftir annað á undangengnum áratugum gert afleita samninga við alþjóðafyrirtæki um afnot á auðlindum og með því fært rentuna af auðlindunum til erlendra aðila. Þessa gjörninga þarf að leiðrétta og gera það með auðlindasköttum.

Svo að ég vísi til þess sem Gunnar Tómasson hagfræðingur segir um peninga þá eiga þeir sér tvennskonar rætur, þ.e. í fjármálakerfinu og framleiðsluferlum. Peningar sem eiga sér rætur í fjármálakerfinu hafa engin verðmæti á bak við sig og valda verðbólgu. Hann kallar þá óværu eða sníkjupeninga. Peningar sem verða til í framleiðsluferlum hafa hins vegar verðmæti á bakvið sig. Verðmætasköpun styrkir krónuna. Verðmæti verða til með því að umbreyta auðlindum s.s. þekkingu, orku eða hráefnum í vöru eða þjónustu sem markaður er fyrir.

Það er langt ferli og erfitt að ná krónunni upp aftur en ef vel er haldið á málum er það gerlegt og í raun eini valkosturinn ef við ætlum að taka síðar upp erlendan gjaldmiðil.
Ég óttast það að Evrópuvæðing íslenska samfélagsins geti heft þessa uppbyggingu sem er nauðsynleg forsenda gjaldmiðilsskipa. Innrás alþjóðafyrirtækja sem hirða hagfræðilega rentu af verðmætasköpun mun festa landið í fátækt og ónýta krónu í sessi.

Til þess að ná upp skilvirkri verðmætasköpun á Íslandi þarf að uppræta lénsskipulagið sem hefur ríkt í landinu, afnema höft, gera eftirlitsstofnanir skilvirkar, afnema gjafakvóta og brask, ófrelsi og hreppaflutninga til höfuðborgarinnar. Efla þarf margbreytni og frelsi til atvinnusköpunar í byggðum landsins. Með sterka framtíðarsýn og samheldni mun þjóðin sigrast á erfiðleikum sem nú steðja að.


mbl.is Kuldaboli bítur mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband