Ölmusukerfi í uppbyggingu

Fjármálakerfið, eins og það hefur verið byggt upp, er meinsemd á félagslegri velmegun. Fjármálakerfið á Íslandi var sett í hendurnar á siðlausum einstaklingum sem notuðu það til þess að byggja upp mafíustarfsemi. Þeir sem stunduðu þar rányrkju mútuðu valdhöfum sem með mútuþægni sinni tóku hlutdeild í rányrkjunni.

Í stað þess að sinna efnahagsstjórn eins og almenningur hefði mátt vænta gerðust valdhafarnir almannatenglar og varðhundar megamafíunnar.

Með áróðursmaskínuna að vopni hafa valdhafarnir skapað kerfi til þess að fylla upp í svartholið sem fjármálamafían skildi eftir sig á Íslandi.

Kerfið er einfalt, fjármálakerfinu skal bjargað á kostnað almennings, fjölskyldna í landinu og atvinnulífsins. Skjaldborg hefur verið slegið um þá sem skildu eftir sig sviðna jörð á Íslandi en venjulegt fólk er hneppt í skuldaánauð.

Valdhafarnir hafa hannað kerfi sem tryggir það að einstaklingar sleppa aldrei við þá ranglátu hlutdeild sem þeim er ætlað í uppbyggingu bankakerfisins. Það sorglega við þetta kerfi er eyðileggingarmáttur þess. Það hefur ekki eingöngu verðmæti af atvinnulífi og almenningi heldur eyðileggur einnig getuna til þess að skapa verðmæti.

Draumur Gordons Browns er hnattvædd Evrópa þar sem alþjóðafyrirtækjum og eðalbornum er frjálst að vaða yfir landamæri til þess að hirða arð og koma upp láglaunasvæðum. Hnattvædd Evrópa sem ver hina siðlausu elítu sem beitir fyrir sig fjármálakerfinu til þess að hafa verðmæti af atvinnulífi og af fjölskyldum.

Til þess að þjóna gjafmildri fjármálamafíunni í rányrkju sinni vilja valdhafar ekki styggja Brown og valdhafanna í Brussel og hafa því samþykkt að íslenskir borgarar standi undir skuldbindingum sem fjármálamafían stofnaði til í Bretlandi. Þetta hafa íslenskir valdhafar gert þótt þeim sé fullljóst að íslenskur almenningur muni lifa við bág kjör um langa tíð í kjölfarið og glata frelsi sínu.


mbl.is Samfylking þingar um sáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband