2009-08-26
Eva Joly berst með almenningi
Meðan ríkisvaldið beygir sig bljúgt undir kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að hneppa þjóðina í ánauð berst þessi hugrakka kona fyrir velferð þjóðarinnar.
Egill Helgason birtir grein eftir Evu Joly og ég birti hér útdrátt úr henni:
Tökum fyrst kröfur Bretlands og Hollands. Hrun íslensku bankanna snertir þessi lönd beint, enda tóku þau dótturfyrirtækjum bankanna og útibúum opnum örmum þrátt fyrir að yfirvöld þessara sömu landa hafi að einhverju leyti verið vöruð við þeirri hættu sem vofði yfir bönkunum.
Nú krefjast þau þess að Ísland greiði þeim himinháar upphæðir (Bretlandi meira en 2,7 milljarða evra og Hollandi meira en 1,3 milljarða evra), og það á 5,5% vöxtum. Löndin telja að Íslandi beri að gangast í ábyrgð fyrir innlán í Icesave, netbankaútibúi Landsbankans sem bauð mun hærri vexti á innlánum en keppinautarnir.
Það voru Hollendingar og Bretar sem ákváðu einhliða að upphæð innistæðutryggingarinnar ætti að vera ekki aðeins 20 þúsund evrur fyrir hvern reikning, rétt eins og kveðið var á um í evrópskum og íslenskum lögum nokkuð sem þegar var ógerlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að standa við, en hún hafði tilkynnt mjög fljótlega eftir að bankarnir voru þjóðnýttir að aðeins væri hægt að ábyrgjast innlán á Íslandi , heldur að upphæð 50.000 til 100.000 evrur, jafnvel hærri.
Raunar var gripið til hneykslanlegra þvingunarráðstafana vegna þessa. Bretland greip þannig strax í októberbyrjun til afar róttækra aðgerða: frysti innistæður á reikningum Landsbankans og einnig Kaupþings, sem þó hafði nákvæmlega ekkert með Icesave að gera, og beitti til þess lögum um baráttu gegn hryðjuverkum.
Með þessu setti Bretland Íslendinga, bandamenn sína í NATO, í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við Al Quaida... Upp frá þessu virðist Bretland hafa lagst með öllum sínum þunga gegn því að alþjóðasamfélagið grípi til nokkurra ráðstafana sem komið geta Íslandi að gagni fyrr en það hefur haft sitt fram.
Gordon Brown gaf þannig í skyn í breska þinginu að hann ynni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að ná fram kröfum sínum gagnvart Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti því að fresta því að lána Íslandi, og setti afar hörð skilyrði fyrir veitingu lánsins. Það á við um þau markmið að ná jafnvægi í fjárlögum á Íslandi í síðasta lagi árið 2013, markmið sem ekki er gerlegt að ná, en kemur engu að síður til með að leiða til gríðarlegs niðurskurðar í grundvallarmálaflokkum á borð við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, o.s.frv.
Afstaða Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja var lítið skárri. Evrópuráðið tók strax í nóvember skýra afstöðu með Bretlandiþegar forseti ráðsins lét að því liggja að aðstoð myndi ekki berast frá Evrópu meðan Icesave málið væri enn ófrágengið; raunar má segja að Barosso, sem þá var allur með hugann við eigin kosningabaráttu og dauðhræddur við að styggja helstu stuðningsmenn sína, Breta, hafi þá eins og fyrri daginn algerlega verið búinn að missa stjórn á atburðarásinni. Sama má segja um Norðurlöndin, sem þó eru ötulir talsmenn alþjóðasamstöðu, sem afreka það nú helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland er beitt nokkuð sem dregur úr trú manna á raunverulegan vilja þeirra til þess að veita Íslandi stuðning. (Greinaskil og áherslur eru mínar)
Hér er myndskeið af Gordon Brown við virðulegar aðstæður
Þetta er maðurinn sem stjórnvöld vilja leyfa að koma þjóðinni á vonarvöl.
En Eva Joly segir einnig í grein sinni:
Bresk stjórnvöld bera líka ábyrgð
Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðilega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra.
Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafn miklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar frammistaða annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi...
Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga.. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?(Greinarskil og áherslur eru mínar)
Á myndinni að neðan má sjá marga þeirra sem vilja búa svo um hnútanna að almenningur á Íslandi greiði skatt í Bretlandi og Hollandi.
Gjaldþrota greiðsluaðlögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Facebook
Athugasemdir
Hefði getað svarið að myndbandið væri af Mr. Bean, ekki Mr. Brown!
Hansína Hafsteinsdóttir, 26.8.2009 kl. 22:41
Einmitt og ríkisstjórnin er skíthrædd við þennan asna
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.8.2009 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.