Greinin sem var ekki birt

Ég sendi þessa grein í Moggan í lok júlí síðastliðin:

Villigötur Alþjóðagjaldeyris-

sjóðsins þyrnum stráðar

Nú velta menn vöngum yfir því hvers vegna AGS hefur frestað lánveitingu til Íslands.

Menn velta líka fyrir sér afleiðingum af frestun lánsins og ekki vantar dómsdagsspár þeirra sem vilja að Íslendingar afsali griðum fullveldisins til Breta og Hollendinga. Sjálfsagt hinir sömu og samþykkja afsal sjálfstæðis með því að færa vald í hendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Menn hafa kannski ekki velt nægilega vöngum yfir því hvers vegna við tökum lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Megintilgangur lántökunnar er að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er í vörslu banka í Bandaríkjunum sem greiðir lága vexti af fjárhæðinni. Á hverjum degi mun ríkissjóður, íslenskir skattgreiðendur, þurfa að greiða fleiri tugi milljóna í vaxtamun vegna erlendra lána og það í GJALDEYRI. Tilgangurinn, jú efla þarf traust alþjóðafjármálakerfisins. Ha, fattar alþjóðafjármálakerfið ekki að þetta er bara lán eða treystir fjármálakerfið Íslandi mikið betur ef Ísland er mjög skuldugt.

Treystir alþjóðafjármálakerfið Íslandi t.d. betur ef Ísland skuldar 3.000 milljarða en ef Ísland skuldar t.d. 1.000 milljarða? Hvað ef Ísland skuldar t.d. 10.000 milljarða er því þá treyst enn betur?

Þetta gengur ekki upp í mínum huga og samræmist á engan hátt á skilningi mínum á hugtakinu traust. Það er vert að taka það fram að ég er mikill sérfræðingur í þessu hugtaki. Tók það fyrir í meistararitgerðinni minni, þ.e. hugtakið "traust í viðskiptum."

Man eftir því að Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún ferðuðust vítt og breytt um heiminn í fyrra og sögðu fólki frá góðri stöðu íslensku bankanna. Tilgangurinn, já að efla traust á íslenskum bönkum. Traust í skilningi nýfrjálshyggjunnar er nefnilega notað sem samheiti við að ljúga á skilvirkan hátt. Vel heppnuð blekking eflir traust. Þess vegna er lögð rík áhersla á að fjármálakerfið haldi að Íslendingar eigi mikinn gjaldeyrisvarasjóð. En auðvitað fattar alþjóðafjármálakerfið alveg að nettó gjaldeyrisvaraforði er lítill eftir sem áður. En vegna griðalegrar skuldsetningar verða Íslendingar undir stöðugri ógn af lokun lánalína.

Hvílíkt vald sem alþjóðafjármálakerfið fær yfir íslensku þjóðarbúi. Vegna þess að ríkisvaldið velur að ganga með betlistaf um heimsbyggðina í stað þess að takast á við vandann. Lítil reisn og lítil karlmennska. En það sem verra er, er aulahátturinn í strategískum samskiptum við aðrar þjóðir.

Það er alsendis óvíst að það takist að kjafta upp krónuna eða traust á henni. Rétt eins og Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu tókst ekki að kjafta bankanna upp úr gjaldþrotinu. Og víst reyndu þau.

Lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer ekki til uppbyggingar atvinnulífs. Ekki til þess að styrkja varnir samfélagsins gegn þeim sem vilja notfæra sér ringulreiðina á Íslandi og hirða hér auðlindir án þess að láta neitt á móti.

Stóriðjan á Íslandi er gott dæmi um bókhaldsbrellur alþjóðafjármálasamfélagsins. Erlendu móðurfyrirtækin lána dótturfélögum sínum, á Íslandi, hundruð milljarða. Við það hækka erlendar skuldir þjóðarbúsins. Hefur það áhrif á lánshæfismat? Hækkar það vaxtabyrði Landsvirkjunar? Hvers vegna skuldsetja alþjóðafyrirtæki dótturfélög sín hér á landi? Jú til þess að losna við að greiða skatt á Íslandi. Skattaleg hagræðing heitir það en þeir vilja eftir sem áður nota vegina sem við fjármögnum, hafnir og annað sem skattgreiðendur hafa byggt upp. Viljum við fleiri svona díla? Ekki ég.

Hvers vegna vill hinn græni forsætisráðherra byggja fleiri álver? Þegar erlendir aðilar byggja á Íslandi eykst eftirspurn eftir krónu. Krónan hækkar í verði.

Ég spyr er endalaust hægt að taka vitlausar ákvarðanir til þess að styrkja krónuna. Auknar lántökur skap í besta falli falskt traust á krónunni. Raunveruleg styrking felst í því að efla verðmætasköpun og tekjur þjóðabúsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur engan áhuga á þeirri leið.

Í haust þegar bankarnir hrundu lá fyrir, að mínu mati, áætlun á borði Breta um það hvernig þeir ætluðu að beita öllum valdastofnunum hins vestræna heims til þess að græða sem mest á öngþveitinu.

Hegðun Breta, Hollendinga, Norðurlandanna, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er strategísk. Fyrsta skrefið var að telja stjórnvöldum á Íslandi í trú um að aðeins ein leið væri út úr vandanum og síða var sú leið vörðuð þyrnum.

Stjórnmálamenn sitja fastir í hugmyndafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eru þess vegna hluti af vandamáli þjóðarinnar. Þessi leið er einfaldlega of dýrkeypt.Ritað 31 júlí 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Mjög góð grein hún fór fram hjá mér í sumar. Ég hef heyrt flest áður en ég hnaut um eitt atriði

Hvers vegna vill hinn græni forsætisráðherra byggja fleiri álver? Þegar erlendir aðilar byggja á Íslandi eykst eftirspurn eftir krónu. Krónan hækkar í verði.

Ég hef aldrei spáð í stóriðju uppbyggingu út frá þessu sjónarmiði, því er aldrei haldið á lofti í fjölmiðlum og ég hef ekki þekkingu til að átta mig á því sjálfur.

Getur verið að það eigi að þurrka upp nýtanlega orku utan verndaðra svæða, skuldsetja okkur enn frekar og niðurgreiða orku til erlendra álfyrirtækja til að hífa gengi krónunnar upp tímabundið?

Talandi um að slátra mjólkurkúnum!!

Þetta skýrir reyndar fyrir mér stóriðju-óðagotið, sem ég var ekki alveg að fatta. Því ég hugsaði alltaf; þetta er bara kostnaður þangað til verksmiðjan fer að framleiða eitthvað, sem tekur mörg ár gerir ekkert til að lina kreppuna núna (fyrir utan nokkur störf sem væri miklu ódýrara að skapa án annan hátt, t.d. með aukinni grænmetisræktun). En hversu skeytingarlaust getur fólk verið um fyrirsjáanlegan skaða af því að fókusera alla efnahagsstjórn á einn mælikvarða?

Öll efnahagsstjórnin og allar aðgerðir virðast beinast að því að halda uppi genginu sama hvað það kostar (jafnvel þjóðargjaldþrot). Er það rétt ályktun hjá mér?

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 12.10.2009 kl. 00:35

2 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Ok hún var ekki birt, þess vegna fór hún fram hjá mér. Las ekki fyrirsögnina :)

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 12.10.2009 kl. 00:43

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Jakobína, það er augljóst af hverju greinin var ekki birt, hún vó gegn helgum véum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.10.2009 kl. 01:11

4 identicon

Það eru margar greinarnar sem Mogginn vill ekki birta. Blað allra landsmanna sem vinstri gæðingar eins og Illugi Jökuls, Egill og fleiri móðguðust útí að hafa ráðið Davíð: því nú myndi blaðið breytast úr því að vera vettvangur allra! Það er ótrúlegt hvað vinstri menn hafa látið moggann blekkja sig áratugum saman. Það hafa nefnilega ekki allir fengið birtar greinar í mogganum síðustu 2 áratugi.

Vinstri menn á Íslandi hafa gjörsamlega brugðist almenningi, einnig blaðasnáparnir sem fengu að spila með, ef þeir voru góðir. Og þeir eru hissa núna.

Rósa (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 09:34

5 Smámynd:

Fjandi góð grein og skiljanlegt að Mogginn vildi ekki birta hana. Þar á bæ má ekki segja sannleikann um stóriðjuna.

, 12.10.2009 kl. 10:54

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Mogginn er orðinn mjög selektífur á greinar núna.  Þær þurfa helst að vera frá hrunbræðrum ritstjórans eða EB andstæðingum. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 12.10.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband