Óþolinmótt fé

Jöklabréf

Ein af þeim aðgerðum sem gripið var til, eftir hrun bankanna, var að setja gjaldeyrishöft til þess að verja krónuna frekari falli. Helsta ógnin við gjaldmiðilinn var óþolinmótt fé jöklabréfaeigenda.

Erlendar fjármálastofnanir gáfu út jöklabréf sem seld voru "óþekktum" aðilum, íslenskum eða erlendum. Þessar stofnanir endurfjárfestu samsvarandi fjárhæði í íslenskum ríkisskuldabréfum til þess að gengistryggja sig. Þetta þýðir í raun að kaupendur jöklabréfa veðjuðu á krónuna á sama tíma og bankarnir og erlendir vogunarsjóður tóku stöðu gegn henni.

Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett lokaðist fjármagn jöklabréfaeigenda inni. Jöklabréfaeigendur hafa því átt einan þann kost að endurfjárfesta fjármuni sína á Íslandi. Staða jöklabréfa og erlendra krónueigna er talin vera 400 til 600 milljarðar ISK en sumir telja að fjárhæðin sé um 620 milljarðar.

Viðskipti með jöklabréf eru í raun íslenska ríkinu óviðkomandi. Þetta voru viðskipti á milli erlendra fjárfestingabanka og viðskiptavina þeirra með verðbréf í íslenskum krónum.

Gjaldeyrisforðinn

Eitt af áhyggjuefnum Seðlabanka Íslands um þessar mundir er að ekki sé unnt að aflétta gjaldeyrishöftunum samkvæmt áætlun vegna seinkunnar á endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrirhugað er að taka lán upp á 620 milljarða ISK til þess að styrkja gjaldeyrisforðann sem nú er 490 milljarðar en þar af eru 210 milljarðar hrein eign. Hvers vegna þarf lítið efnahagskerfi 1.100 milljarða gjaldeyrisforða? Til samanburðar má geta að gjaldeyrisforðinn var 163 milljarðar árið 2007 og 67 milljarðar árið 2005. Já, segir kannski einhver "en það sýndi sig að þetta var allt of lítill varaforði." Jú rétt er það en við gjörólíkar aðstæður. Bankarnir voru risavaxnir og Seðlabankinn átti að geta staðið undir lánum til þrautavara.

Í greinargerð Seðlabankans til forsætisráðherra, 6. október síðastliðinn, segir m.a. um mikilvægi rausnarlegs gjaldeyrisforða "Það eflir getu Seðlabankans til þess að mæta hugsanlegu útstreymi og dregur um leið úr líkum á því að til þess komi. Aukinn forði er því mikilvægur til þess að jafna óhóflegar skammtímagengissveiflur sem gætu fylgt afnámi gjaldeyrishafta fyrst í stað." Sérstaka athygli vekur að Seðlabankinn telur að gjaldeyrisforðinn (risalánið) dragi úr líkum á útstreymi en litlar líkur eru á því að þessi kenning standist enda verður traust á íslensku efnahagskerfi ekki reist á einni nóttu heldur er það langtímaverkefni. Öllu líklegra er að aðilar sjái risalánið sem farseðil úr landi sem einkennist af fjármálaóreiðu. Að hræðsla muni ráða för. Seðlabankinn víkur einnig að því að "væntingar um ávöxtun þegar til lengri tíma er litið vegi þyngra en sú áhætta sem tekin er til skamms tíma með áframhaldandi fjárfestingum í krónum" ef efnahagsstefnan er trúverðug.

Það er ávallt áhugavert þegar hagfræðingar setja sig í spor sálfræðinga og fara að telja sig sjá fyrir um hegðun fólks. Ég á satt að segja erfitt með að trúa að einstakir fjárfestar fari að kynna sér efnahagsstefnu yfirvalda og hvað þá heldur að túlka trúverðugleika hennar þegar þeir taka ákvörðun um það hvort þeir eigi að koma fjármunum úr landi. Gleymum því ekki að þetta eru aðilar sem tóku stöðu með krónunni þegar aðrir veðjuðu gegn henni.

Risalánið frá AGS

Það hefur margoft verið sagt að ekki eigi að nota risalánið heldur geyma það í banka í Bandaríkjunum og greiða af því 20 milljarða á ári í vaxtamun. En samkvæmt ofangreindri tilvitnun í greinargerð Seðlabankans virðist eiga að grípa til þessa varasjóðs þegar gjaldeyrishöft verða afnumin. Gríðarleg áhætta fylgir þessari fyrirætlun. Ef fjármunir rjúka úr landi þannig að ganga þurfi á þennan forða í Bandaríkjunum hækkar vaxtakostnaðurinn vegna hans og getur þá orðið allt að 35 til 40 milljarðar, þ.e.a.s. greiða þarf hreina vexti í stað vaxtamunar. Það mun síðan lenda á komandi kynslóðum að endurgreiða þetta risalán.

Áætlun um að taka risalán í erlendum gjaldmiðli og sleppa síðan gjaldeyrismarkaðnum frjálsum vekur spurningar. Eru uppi áform um að "bjarga" jöklabréfaeigendum og öðrum sem þurfa að koma fármagni úr landi með því að taka risalán sem lendir á íslenskum skattgreiðendum?

Fagfjárfestar

Jöklabréfaeigendur eru að öllum líkindum fag- og stofnanafjárfestar sem höfðu alla burði til þess að taka upplýsta ákvörðun um áhættuna sem fylgdi því að fjárfesta í jöklabréfum öfugt við það sem segja má um flesta almenna hluthafa í bönkunum sem hafa þurft að taka því tapi sem fylgdi hruni bankanna.

Það er fullkomlega réttmæt spurning að spyrja hvort íslenskur almenningur eigi að taka sitt tap af hruninu, s.s hækkun skulda og greiðslubyrði, verðhækkanir, tap hlutafjár í bönkum, tap á peningamarkaðsjóðum, launalækkanir og atvinnumissi en auk þess að fjármagna bætur til fagfjárfesta. Þessi viðskipti með jöklabréf komu íslenskum almenningi ekkert við.

Umræðan á Íslandi, eftir bankahrunið, hefur að miklu leyti snúist um traust. Lögð hefur verið ríkuleg áhersa á að spyrða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við hugtakið traust en í umræddri greinargerð Seðlabankans til forsætisráðherra segir "litið er á aðkomu sjóðsins sem heilbrigðisvottorð fyrir þá efnahagsstefnu sem mótuð hefur verið." Þetta er í nokkurri mótsögn við það sem Center of Economic Policy Research hefur um sjóðinn að segja.  En CEPR segir m.a. um spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í löndum þar sem hann hefur haft aðkomu... að þær feli í sér munstur mistaka sem vekja spurningar um hlutleysi sjóðsins.

Vantraust á AGS

Reynsla Ríkisstjórnarinnar á aðkomu AGS ætti að vera farin að vekja með þeim efasemdir um heilindi sjóðsins í ráðgjöf hans. Það hljóta að vera farnar að vakna spurningar einhvers staðar í hugskoti stjórnmálamanna hvort að þessari lánastofnun sé treystandi fyrir völdum á Íslandi. Það liggur fyrir að AGS er vopn Breta og Hollendinga sem þeir beita til þess að þvinga Íslendinga til þess að afsala sér rétti til þess að fara með ágreining fyrir dómstóla jafnvel þótt í ljós komi að kröfur þeirra séu ólögmætar. Það liggur einnig fyrir að AGS notar endurskoðun efnahagsáætlunar sem þeir sjálfir hafa hannað til þess að halda ríkisstjórninni í gíslingu og þvinga fram óréttmæta niðurstöðu í Icesave-deilunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Augljóst er að erlendir aðilar og ríkisstjórnir treysta AGS betur en íslenskum stjórnvöldum.  Spurningin er, treysta landsmenn allir, íslenskum stjórnvöldum betur en AGS?  Eitt er víst AGS er ekki með lýðskrum, þeirra ráðgjöf þarf að endurskoða með faglegum rökum.  Af tvennu illu má ég frekar biðja um AGS en fjórflokkinn.

Hvað varðar jöklabréfin eru þau vandamál en svo eru 1000 ma kr. inneign innlendra aðila á bankabókum og mikið af því vill erlendis!

Andri Geir Arinbjarnarson, 17.10.2009 kl. 18:24

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæll Andri. Það er vafasamt að halda því fram að AGS sé ekki með lýðskrum. Kenningar þeirra eru álíka gegnheilar og bólurnar sem fjármálakerfið skapar. Þetta hafa margir virtir hagfræðingar bent á.

Það er vafasamt að stilla fjórflokknum upp sem andstæðingi AGS. Kenningar fjórflokksins og kenningar AGS eru nokkuð samansúrraðar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.10.2009 kl. 19:29

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Það allra versta sem hægt væri að gera, væri að hleypa Krónubréfum lausum og nota á sama tíma gjaldeyrisvarasjóð tekinn að láni, til að verja krónuna falli á meðan Krónubréfin væru að streyma út. Það myndi ekki gera neitt annað en að færa þessum aðilum þann lánssjóð að eign - þ.s. hann myndi að mestu eyðast við þá aðgerð, en eftir sæti þjóðin með skuldirnar af því dæmi.

Þ.s.ég vill gera, er að sleppa þeim lausum, þ.s. losa um höftin, en án þess að verja krónuna falli.

Einhverjir halda því fram, að það væri kolbrjálað, þ.s. krónan mun þá óhjákvæmilega falla mjög verulega í verði á meðan Krónubréfin eru að streyma út úr hagkerfinu okkar. Þ.s. vinnst við það að verja ekki krónuna falli, er það að þá slær á tjón skattgreiðenda, þ.s. við fall krónunnar mun þurfa greiða út færri Evrur fyrir Krónubréfin. Annað sem vinnst með því, er að eftir að stíflan hefur verið losuð, og krónan hefur fengið að falla eins langt og hún mun falla; þá endar það fall í einhverju nýju jafnvægis-gengi. Þ.e. því markaðsgengi, sem markaðurinn er til í að sætta sig við, fyrir krónuna, miðað við þá stöðu hagkerfisins, sem mun þá vera til staðar.

Við það, að markaðsgengi er komið með þeim hætti á krónuna að nýju, þá verður krónan á ný þ.s. kallað er "convertible", þ.e. bankar út um heim, og aðrar fjármálastofnanir, munu vera til í að eiga viðskipti með krónur. Með öðrum orðum, íslenskir einstaklingar erlendis, munu geta skipt krónum í Evrur eða eitthvað annað, í bankaútibúum erlendis.

Þ.e. einmitt ástæðan fyrir því, að þeir neita að taka við henni, að ekkert gegnsætt markaðsgengi er á henni. Af þeim völdum, eru erlendar fjármálastofnanir, einfaldlega ekki vissar hvernig þær eiga að meta þær. Af þeim sökum, treysta þær sér ekki að nota hana, eða að eiga viðskipti með hana.

Verðgildi hennar vs. aðrir gjaldmiðlar skipta í þessu samhengi, alls engu máli. Gengi krónunnar, gæti þannig verið 10.000 á móti Evru, án tæknilegra vandamála.

Hún mun auðvitað alls ekki fara í slíkar lægðir, þetta einfaldlega nefnt, til að sanna punktinn.

----------------------------

Galllar, ný verðbólguhrina, mun fara af stað. Nokkuð af fyrirtækjum og einstaklingum, verða gjaldþrota vegna nýrrar hækkunar erlendra lána.

Á hinn bóginn, ber þá þegar einnig lækka vexti niður í cirka 1%. Þér finnst það ef til vill, hljóma öfugt, þegar ný verðbólguskriða á sér stað.

Vandinn við vexti, er að vextir eru mjög samdráttar-aukandi. Þ.e. af því völdum, gott að beita þeim, þegar hagkerfi er að ofhitna af völdum þenslu. Á hinn bóginn, við aðstæður efnahagssamdráttar þá magna þeir upp samdráttinnn.

Í okkar tilviki, þá sennilega auka þeir verðbólgu frekar en að draga úr henni. 

Ástæða þess, er sú að öll okkar verðbólga er vegna kostnaðarhækkana, af völdum gengishraps, þ.s. innflutt aðföng hækka í verðgildi mælt í ísl. krónum. Þ.s. vextir auka enn á efnahagshrun, þá um leið draga þeir enn meira úr tiltrú á hagkerfið, sem um leið framkallar enn meiri lækkun krónu og því enn meiri verðbólgu.

Vaxtastefna Seðló, er því hrein bilun.

Sú verðbólgu sprenging sem ég var að tala um áðan, mun ganga um garð og hverfa, og þ.s. vextir munu engin áhrif hafa á hana, er best að lækka þá samt niður í cirka 1%.

Þá, er það hinn gallinn, að nokkuð verður um gjalþrot. Þ.e. óumflýjanlegt, en þá um leið hverfa þær skuldir, og þ.s. atvinnutækin verða enn til staðar, geta nýir aðilar tekið þau yfir, og hafið rekstur.

Einstaklingar er lenda í persónulegu gjaldþroti, af þessa völdum, geta einfaldlega fengið að leigja þær íbúðir eða hús, er þeir búa í. Lítið gagn af því hvort sem er, að henda því fólki á götuna.

Til lengra litið, raunverulega held ég, að þetta yrðu skárra.



Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2009 kl. 21:46

4 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Góð grein.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 18.10.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband